XPENG G9: afl og íburður fyrir minni pening

Tegund: XPENG G9

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Rafmagn

Afl, aksturshæfni, innrétting, verð
Yfirgripsmikið stjórnkerfi
268
DEILINGAR
2.4k
SMELLIR

Flaggskip XPENG, G9 er ekki bara enn einn rafmagnsbíllinn – hann er viljayfirlýsing. Með G9 stefnir XPENG að því að endurskilgreina hvað lúxusbíll er með því að sameina flotta hönnun, háþróaða tækni og glæsilega frammistöðu – á hagkvæmara verði.

XPENG G9 er stór bíll og flottur.

Það fyrsta sem þú tekur eftir við XPENG G9 er sláandi falleg hönnun bílsins. Sléttar línur og loftaflræðilegt snið, breitt boddý og LED lýsing gera það að verkum að hann vekur athygli í flóru rafbíla og sportjeppa í dag.

En hrifningin tekur öll völd þegar sest er undir stýri.

Ljósaklasinn er huggulegur og alveg eftir bókinni hvað rafmagnsbíla snertir.

Þegar við virtum fyrir okkur bílinn fyrir reynsluaksturinn vorum við að ræða hverjum hann líktist í útlit af núverandi keppinautum.

Fyrst kom upp í hugann Mercedes-Benz, Jagur F Pace og ef til vill nýjast gerðin af Volvo, EX90.

Mælaborðið er hátæknilegt, búið tveimur 15 tommu skjáum og svo skjá fyrir akstursupplýsingar. Hægt er að hlaða tvo snjallsíma í einu.

Ekki vantar aflið

XPENG G9 AWD skilar um 551 hestafli í gegnum tveggja mótora fjórhjóladrifskerfi. Togið er 717 NM. Þetta afl gefur mikla hröðun og knýr G9, úr 0 í 100 km/klst á innan við 4 sekúndum.

Með 98 kWh rafhlöðu býður G9 ekki aðeins upp á ótrúlegt afl heldur státar einnig af glæsilegri drægni allt að 570 km skv. WLTP mælingarstaðlinum.

Og það sem meira er þú sérð WLTP drægni bílsins í mælaborðinu.

Rýmið er nægt og sérlega gott útsýni til allra átta.

Við ókum bílnum aðallega í borginni en tókum smá rúnt honum um Mosfellsbæinn. XPENG svínliggur á hraðbrautinni og er sérlega lipur í þrengri hverfagötum.

Hægt er að hækka og lækka bílinn þar sem um loftpúðafjöðrun er að ræða.

Tvöfalt mótorkerfið tryggir að aflið dreifist jafnt á öll fjögur hjólin, sem bætir grip og stöðugleika við krefjandi akstursaðstæður. Allt þetta gerir bílinn ótrúlega þægilegan í akstri. Þú eiginlega svífur.

Nánast sama frá hvaða sjónarhorni þú lítur á þennan bíl, hann er alltaf fallegur.

Eins og í tónlistarhöll

Einn af áberandi eiginleikum G9 AWD er hljóðlát en skemmtileg akstursupplifun.

Rafknúin aflrásin skilar mjúkri, óaðfinnanlegri hröðun en skortur á vélarhljóði innan farþegarýmisins kallar einfaldega á að kveikja á góðri tónlist í græjunum – en þær eru einhverjar þær flottustu sem undirritaðir hafa séð í bifreið á síðari árum.

Fjöðrunarkerfið er afar næmt og tekur auðveldlega allar ójöfnur á veginum og við fundum aldrei nein högg eða þvíumlíkt þegar ekið var á skellóttum Vesturlandsveginum.

XPENG G9 er með háþróaðri sjálfvirkri aksturstækni. Þetta kerfi gerir kleift að keyra hálfsjálfvirkt við ákveðnar aðstæður og hjálpar til við verkefni eins og akreinargæslu.

Bíllinn kemur að sjálfsögðu með aðlagandi hraðastilli og bílastæðaaðstoð.

Vart þarf að minnast á að umgengni um bílinn er öll hin besta. Gott að stíga út og inn og flennipláss aftur í. Öll sæti í bílnum eru með lengjanlegum setum og þú stillir með rafmagni.

Sætin eru mjög þægileg, með nuddi og kælingu.

Allt að 570 kílómetra

Með hraðhleðslugetu XPENG getur G9 bætt við allt að 100 km drægni á aðeins um 5 mínútum með því að nota DC hraðhleðslutæki.

Þetta getur skipt sköpum þegar þú ákveður hvort þú kaupir rafdrifinn bíl eða velur annan orkugjafa.

Bíllinn sem við prófuðum var hlaðinn rétt áður en við tókum hann og var þá hleðslugetan um 240 kWh á klukkustund en bíllinn á að geta tekið um 300 kWh á klukkustund.

Aftursætin eru einnig með kælingu og hægt er að lengja seturnar aftur í líka.

Sérlega flottur að innan

Innréttingin í XPENG G9 er virkilega hugguleg og allur frágangur er með því flottasta sem maður hefur séð. Hágæða efni og mínimalísk hönnun ráða ríkjum í farþegarýminu, með nægu plássi fyrir fimm farþega.

Panorama sóllúga, loftkæld sæti og úrvalsáklæði auka heildarupplifunina.

Miðpunktur innanrýmisins er eru tveir 15 tommu skjáir, sem stjórna öllu frá vegaleiðsögn til loftslagsstýringar. Það verður þó að segjast að svo tæknilegt innanrými gæti verið svolítið yfirþyrmandi fyrir einhverja því lítið er um takka í mælaborðinu, nema þá í stýrinu.

Þá virkar stjórnkerfið þannig að takkar í stýri skipta sjálfvirkt um virkni eftir því hvaða búnaður er í notkun. Hins vegar vandist viðmótið mjög hratt og eftir dagsnotkun vorum við orðnir nokkuð sleipir í kerfunum.

Það er auðvelt að láta XPENG G9 gefa aðeins í. En hann svínliggur og fjöðrunin er engu lík.

Afturdrifinn XPENG G9

XPENG býður upp á tvær afturdrifs útgáfur af G9. Þessar gerðir halda miklu af lúxus- og tæknieiginleikum AWD útgáfunnar en koma til móts við viðskiptavini sem leita að aukinni hagkvæmni og lægra verði.

Fleiri valkostir

Afturdrifs gerðirnar koma í tveimur gerðum: Standard Range útgáfu og Long Range afbrigði. Báðir eru afturhjóladrifnir (RWD), sem bjóða upp á minna afl en samt mjög sambærilega akstursupplifun.

Afturdrifsgerðirnar eru búnar 75,8 kWh rafhlöðu og býður upp á WLTP-vottaða dægni allt að 460 km. Mótorinn gefur um 313 hestöfl og togar um 430 Nm.

„Frunkið” tekur 71 lítra.

Langdræga 2WD útgáfan er með 98 kWh rafhlöðunni, eins og gerðin en býður upp á allt að 570 km drægni skv. WLTP.

Þessi gerð veitir jafnvægi á krafti og drægni, sem gerir hana tilvalda fyrir þá sem setja aukna drægni í forgang án þess að þurfa fjórhjóladrifið.

Rafdrifnir keppinautar

Ef við tölum um verð þá er það um 10.990.000 á dýrustu gerðinni. Nokkuð er um bíla í stærðarflokknum en fæstir eru jafn vel búnir fyrir sama verð.

Hins vegar eru nokkrir á leðinni eins og Volvo EX90 sem kostar á vef Brimborgar milli sautján og átján milljónir og Polestar 3 sem kostar svipað. Aðrir svipaðir eru mun dýrari.

660 lítra farangursrými.

Við mælum með að þú skoðir þennan nýja kost á bílamarkaðinum. Þessi bíll á 100% erindi inn á markaðinn hvað varðar alvöru lúxus, akstursþægindi, tæknilega getu og verð.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 10. 990.000 kr. á reynsluakstursbíl (7.990.000 kr. Standard range – 8.990.000 kr.Long range).

Drægni (WLTP): 570 km.

Hestöfl: 551 hö.

Tog: 717 N⋅m.

Rafhlöðustærð (net): NCM 93.1 kWst.

Tækni: 800 V.

Eyðsla (WLTP): 21.3 kWh/100km.

Hröðun 0-100 km/klst: 3.9 sek.

Hámarkshraði: 200 km/klst.

Dráttargeta: 1,500 kg.

Hraðhleðslugeta (DC): 300 kW (10-80% in 20 min).

Heimahleðslugeta (AC): 11 kW (3-fasa).

V2L: 3.3 kW (230 V úrtak á hleðslutengi).

Varmadæla – X-HP 2.0 Snjallt hitasjórnunarkerfi

Reynsluakstur: Gunnlaugur Steinar Halldórsson og Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar