Toyota Land Cruiser 250 byggir á mikilli arfleifð!

Tegund: Toyota Land Cruiser

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Dísel

Afl, aksturshæfni, tækni, þróun
Miðjusæti aftur í
280
DEILINGAR
2.5k
SMELLIR

-Jóhannes Reykdal hefur orðið

Það er kominn nýr Toyota Land Cruiser 250, sem var frumsýndur laugardaginn 26. október, en við hjá Bílabloggi höfum fengið að kynnast bílnum fyrir frumsýninguna.

Við byrjuðum á að kynnast kostum bílsins í frábærri „torfærubraut“ í hrauninu við Kvartmílubrautina sunnan Hafnarfjarðar, þar sem tæknimaður frá Toyota leiddi okkur í allan sannleika um kosti bílsins, áður en við fengum að prófa sjálfir, og á dögunum fengum við bílinn í reynsluakstur sem verið er að fjalla um hér.

Toyota Land Cruiser 250 erfir ansi mikið frá forverunum. Hér er hann í rennblautri drullu og hefur ekkert fyrir því að skjótast upp þennan hól.

En vegna þess að undirritaður hefur náð því að reynsluaka nær öllum gerðum þessa nafntogaða jeppa á þeim meira en 50 árum sem ég hef verið að skrifa um bíla, og þá stundum á fjarlægum stöðum eins og í sandöldum í Sahara eyðimörkinni, var það vissulega mikil eftirvænting að hefja reynsluaksturinn.

Í akstrinum í torfærubrautinni kom í ljós að þessi bíll býr yfir miklu fleiri kostum en hægt er að sannreyna í venjulegum reynsluakstri.

Bara „sjálfkeyrslustillingarnar“ sem eru ætlaðar sem hjálpartæki við erfiðar aðstæður eru stórkostleg viðbót við þá kosti sem Land Crusier hefur boðið upp á til þessa.

Þessi nýi Jeppi læt vel að stjórn og eftirtektarvert er hve auðvelt er að stýra þessum stóra jeppa í erfiðum aðstæðum.

Til viðbótar við það að reynsluaka Land Cruiser jeppunum sem ratað hafa hingað til lands á síðustu áratugum þá náði ég að kynnast vel eldri bíl en það, því í starfi mínu fyrir Rauða krossinn í Asíu á árunum 1979-1980 var „vinnubíllinn“ minn aldraður fyrirrennari J70 bílsins sem margir þekkja og Rauði krossinn hefur notað um langt árabil.

Bílinn hafði Rauði krossinn notað árin áður í Afríku, en vegna vinnu minnar í eftirlitshlutverki í flóttamannabúðum á landamærum Thailands og Kampútseu, var bíllinn fluttur yfir hafið og mér var fenginn þessi bíll í stað litlu eins drifs pallbílanna sem aðrir voru með.

Toyota býður upp á úrval aukahluta á bílinn – allt eftir því hvernig þú ætlar að nota hann.

Það var einmitt þessi bíll sem kom upp í hugann strax á fyrstu metrunum í reynsluakstrinum á þessum nýja 250-bíl. Bara það hvernig maður situr í bílnum og hvernig hann hagar sér í akstri vekur upp þessar minningar.

Líkt og í þeim „gamla“ þarf að stíga aðeins á eldneytisgjöfina til að fá vélina til að svara og „togið“ er merkilega líkt – stöðugt og gott!

Miðað við fyrri gerðir Land Crusier þá situr maður enn betur í þessum nýja bíl, og yfirsýn yfir stjórntæki er ágæt, en það þarf örugglega tíma til að venjast öllum hnöppum og stillingum.

Kantaðar línur eru í forgrunni í þessum nýja Land Cruiser 250.

Það kom líka á óvart að það heyrist vel í 2,8 lítra dísilvélinni vélinni þegar bíllinn er að vinna, en þetta er nú jú líka „fullvaxinn“ jeppi! En 8-þrepa sjálfskiptingin vinnur vel úr aflinu

Ég ætla annars að láta félaga mína Pétur og Radek um að fjalla um þennan reynsluakstur, en það má nota eina „samlíkingu“ í viðbót þegar verið er að fjalla um jafn tæknilega vel búinn bíl og þennan nýja Land Cruiser 250 – þegar við erum að fara að baka efnismikla köku eða búa til flókinn mat þá er nauðsynlegt að vera með góða „uppskrift“!

Nýr Land Cruiser býr yfir hágæða tækni sem þróuð hefur verið í áratugi. Torfærukerfi bílsins eru í sérflokki.

Það er einmitt það sem ökumaðurinn verður að vera búinn að skoða vel þegar sest er undir stýri á þessum nýja jeppa – til þess að ná að nýta alla þá kosti sem bíllinn hefur upp á að bjóða.

Jóhannes Reykdal

Nýr Toyota Land Cruiser 250 – Kraftmikill jeppi með frábæra aksturseiginleika

-reynsluakstur, Pétur R. Pétursson og Radek Werbrowski

Toyota Land Cruiser er bíll sem hefur lengi verið í hávegum hafður á Íslandi og er þekktur fyrir áreiðanleika, þægindi og frábæra aksturseiginleika – hvort sem það er í bænum eða í erfiðum hálendisferðum.

Flottur hvenær sem er og hvar sem er.

Nýr Land Cruiser 250 staðfestir enn og aftur styrk Toyota þegar kemur að hágæða jeppum sem henta ólíkum aðstæðum, en þessi nýi bíll hefur fengið fjölda uppfærslna og betrumbætur sem gera hann bæði nútímalegan og þægilegan í akstri.

Sérlega öflug díselvél

Nýi Land Cruiser 250 er búinn 204 hestafla dísilvél, sem skilar allt að 500 Nm togi, sem er frábær grunnur fyrir öflugan og burðugan fjórhjóladrifsjeppa.

Þessi toggeta er einkar mikilvæg við erfiðar aðstæður, eins og í snjó, drullu eða á fjallvegum.

Ekki er mikill sjáanlegur útlitsmunur á ódýrustu og dýrustu gerð – munurinn felst í búnaði.

Krafturinn er meira en nægur og kemur að góðum notum í margbreytilegu landslagi.

Þrátt fyrir díselmótorinn er Land Cruiser 250 nokkuð hljóðlátur í akstri, og bíllinn hefur fengið mikið lof fyrir það hversu vel hann bregst við undir mismunandi aðstæðum. Hins vegar heyrist alveg í rokknum ef þú gefur honum vel inn. Ökumaður finnur fyrir stífri og öflugri svörun bílsins, sérstaklega þegar honum er gefið inn á þjóðvegum eða í torfærum.

Vélin er 4 strokka línuvél með common rail innspýtingu. Hún gefur 204 hestöfl og skilar um 500 Nm. af togi.

Vökvastýrð fjöðrun bílsins og stillanlegt fjórhjóladrif veita honum ótrúleg akstursþægindi og gera hann afar stöðugan í akstri.

Toyota hefur lagt áherslu á að tryggja jafnvægi á milli krafts og stýrigetu, sem þýðir að bíllinn fer vel með hvern þann sem situr undir stýri. Nýlunda í þessum bíl er rafmagnsstýri í stað vökvastýris í fyrri gerð en stýrið er áberandi næmt og létt í meðförum.

Skottið er um 620 lítrar en auðvelt er að fella niður sætin og stækka plássið til muna.

Stílhrein og fjölhæf hönnun

Land Cruiser 250 er fáanlegur í fimm útfærslum hjá Toyota í Kauptúni, þannig að valmöguleikar eru margir fyrir þá sem vilja sérsníða bílinn að sínum þörfum. Hönnunin er til marks um traust og ákveðni, þar sem útlit bílsins sameinar styrkleika og fágun á einstakan hátt.

Línurnar á bílnum eru hreinar og einfaldar, en bíllinn hefur einnig sterka nærveru sem gerir hann eftirtektarverðan á götum úti.

Innanrýmið er glæsilegt og vandað, með miklu plássi og mörgum þægindafídusum sem tryggja bæði bílstjóra og farþegum áhyggjulausan akstur.

Kaupendur geta valið úr úrvali áklæða og þar á meðal leður.

Tækni og þægindi

Toyota hefur útbúið Land Cruiser 250 með allri nýjustu bíltækni sem vænta má í nútímajeppa. Skjárinn í mælaborðinu er stór og notendavænn, sem auðveldar bílstjóra að hafa yfirsýn yfir helstu upplýsingar, eins og hraða, eyðslu og GPS-staðsetningu.

Það er allt í Cruisernum sem þú átt að venjast í fullkomnum nútímabíl.

Búnaðurinn býður upp á tengimöguleika fyrir snjallsíma, Bluetooth og margt fleira sem tryggir auðvelda og skemmtilega akstursupplifun.

Í bílnum er einnig torfæruskjár sem sýnir afstöðu hjólanna þegar ekið er í erfiðum torfærum. Toyota MySense býður upp á fjarstýrða stjórnun eins og miðstöð, rúður og læsingar.

Drifkerfi bílsins hefur fengið talsverða yfirhalningu. Hátt og lágt rafstýrt drif með læsingum á millikassa og aftari drifrás vinna mjúklega saman þannig að þú heyrir varla þegar drifstillingum er breytt en ljós í mælaborði gefa stöðu drifsins til kynna. Enn fremur er hægt að losa ballansstöng að framan til að auka sveigjanleika í erfiðum aðstæðum.

Svokallað DAC control (skriðstýring) er reyndar ekki nýtt af nálinni í Toyota Land Cruiser en hefur verið endurbætt. Það virkar þannig að þú getur stýrt hraða bílsins með snúningstakka upp eða niður erfiðar brekkur – eða skipt um gír í miðri brekku og kerfið heldur áfram í gagnstæða átt.

Spólvörn og skriðstýring vinna saman og þú getur valið um fjölmargar akstursstillingar eftir því hvort þú ert í hefðbundnum akstri eða torfærum.

Við leggjum til að Toyota bjóði nýjum eigendum bílsins upp á stutt kynningarnámskeið í notkun búnaðarins svo jeppinn nýtist eigendum sem best.

Aftursætin eru þægileg utan miðjusætisins sem er aðeins minna og þá hvíla líka fætur á þessu plaststykki við miðjustokkinn. Sætin eru ekki á sleðum.

Einnig er mikið lagt upp úr öryggi, og er Land Cruiser 250 útbúinn með fjölda öryggisþátta. Meðal annars má nefna sjálfvirkt neyðarhemlunarkerfi, blindpunktsaðvörun og aðlagandi hraðastýringu, sem auðveldar akstur í lengri ferðum.

Nýr Toyota Land Cruiser 250 hefur fengið lof fyrir framúrskarandi aksturseiginleika, kraftmikla vél og vandaða hönnun. Hann sameinar nútíma tækni og þægindi með hinni klassísku Land Cruiser upplifun, sem hefur alla tíð verið vinsæl á Íslandi.

Hvort sem þú þarft jeppa fyrir erfiðar aðstæður eða einfaldlega öflugan fjölskyldubíl, þá er Land Cruiser 250 sannarlega þess virði að skoða nánar.

Eru einhverjir mínusar?

Ef við látum hugann reika eftir þennan reynsluakstur er nær ekkert sem vert er að minnast á sem gæti fallið undir mínusa við þennan bíl. Kannski plaststykkið sem liggur út frá miðjustokknum aftur í og gerir setu í miðsætinu þar ekki eins þægilega og hún gæti verið. Varðandi verðið fellur það ekki undir að vera mínus í okkar huga.

Lægsti punktur undir bílinn er um 215 mm.

Þú ert að fá mjög fullkominn alvöru jeppa frá tæpum 16 milljónum króna en getur svo valið þau þægindi sem þér hugnast ef þú vilt borga meira.

Kannski hefðu menn vilja sjá aftursætin á sleðum svo hægt væri að auka skottplássið eilítið – þetta eru smámunir sem varla tekur að minnast á.

Þessi nýi Land Cruiser 250 er einfaldlega frábær eins og við höfum svo oft sagt bæði hér og í reynsluaksturs myndbandinu.

Myndband

Ath. Torfærukennsla á Land Cruiser 250 er í vinnslu hjá okkur – myndband og ítareleg umfjöllun.

Helstu tölur:

Verð: frá 15.990.000 kr. – 23.890.000 kr.  Reynsluakstursbíll VX Luxury gerð á 21.490.000 kr.

Afköst: 204 hö.

Tog: 500 Nm.

Aflgjafi: 4 strokka Inline 2.8 l.

Orkugjafi: Dísel

Minnsta hæð yfir jörðu: 215,3 mm

Dráttargeta: 3500 kg.

Hleðsluþungi á topp: 100 kg.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar