Nýr Dacia Duster hefur fengið verðskuldaða uppfærslu

Tegund: Dacia Duster Extreme

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Bensín/rafmagn

Verð, hagkvæmni, notagildi, smart hönnun
Farangursrými
242
DEILINGAR
2.2k
SMELLIR

2024 Dacia Duster er kominn í sölu hjá BL með spennandi uppfærslu: mild hybrid, fjórhjóladrifið afbrigði með sama styrk, sparneytni og einfaldleika. Dacia Duster hefur bara batnað með árunum.

Nú kemur hins vegar alveg nýr bíll með nýjum áherslum og þær eru meðal annars hagkvæmni og notagildi.

Nýr Duster „lúkkar” mjög vel að okkar mati.

Við fyrstu sýn „lúkkar” Dacia Duster sem huggulegur sportjeppi sem hefur skipt um ham og er nú orðinn vöðvastæltur töffari.

Ekkert bull í hönnun og áhersla á hagkvæmni. Að framan státar hann af nýju flottu grilli og LED framljósum sem gefa bílnum nútímalegan blæ.

Hins vegar má sjá langar leiðir að þetta er Duster en bara miklu flottari en áður. Í klæðningu utan á bílinn er notað svokallað MicroCloud efni á hliðum, í það minnsta í Extreme gerðinni – en það er framleitt úr endurunnu plastefni.

Grillið er gróft og passar vel á þennan flotta sportjeppa.

Þegar Dacia kom fyrst til Íslands árið 2012 þótti hann einfaldur og hrár bíll sem fyrst og fremst var sterkur fjórhjóladrifs bíll með dísel vél.

Nú er þessi sportjeppi kominn á blað með alvöru jeppum og gæti þess vegna tilheyrt einhverri annarri og mun dýrari gerð.

Undir reynsluakstursbílnum eru 18 tommu Extreme felgur.

Rúmgott farþegarými

Farþegarýmið er með nýjum efnum þó svo að plastklæðningar í hurðum og mælaborði séu úr hörðu plasti. Sætin eru þægileg og efnið á þeim einhversskonar leður líki sem virkar níðsterkt við fyrstu kynni.

Stafrænn skjár í mælaborði.

Upplýsingaskjár í mælaborði er þokkalega skýr og einfaldur í notkun.

Nýr 10 tommu upplýsingaskjár er skýr og hraðvirkur þú getur tengt Android Auto og Apple Carplay þráðlaust við margmiðlunarkerfið. Ökumannsskjárinn er nú stafrænn og býður upp á skýran aflestur fyrir með helstu upplýsingum um orkunýtingu.

Ágætis afl í frekar lítilli vél

Hápunktur þessa reynsluaksturs var að upplifa hvernig milda blendings-kerfið stuðlar að aksturseiginleikum Duster.

1,2 lítra bensínvélin með forþjöppu er pöruð við 48V rafmótor, sem veitir samanlagt afköst sem koma jafnvægi á afl og skilvirkni.

Fjórhjóladrifskerfi Duster, aðalsmerki línunnar, höndlar gróft landslag með auðveldum hætti. Hvort sem þú tekst á við brattar brekkur eða ekur í hálku og snjó, þá er Duster traustur og stabíll, þökk sé vel hönnuðu fjórhjóladrifinu.

Dacia Duster er nú með fjórum mismunandi akstursstillingum, brekkuaðstoð og hægt er að læsa drifinu.

Lítill rafmótor

Mild-hybrid þýðir í raun að bíllinn er gangsettur með rafmagni og lítið meira. Við getum sagt að akir til dæmis upp Ártúnsbrekku og bíllinn eyði 18 lítrum. Í þeim átökum myndi hann þá ef til vill eyða 16 lítrum með mild-hybrid kerfi. Eflaust munu einhverjir sakna díselútgáfunnar en þetta er hinn nýi veruleiki.

Dacia Duster kemur á óvart þegar ekið er af stað. Frekar lítil 1,2 lítra bensínvél sem gefur 130 hestöfl kemur á óvart út frá togkraftinum en hann er um 230 Nm. Þegar stigið er á inngjöfina togar bíllinn afar vel og þú hefur talsverðan tíma í hverjum gír til nýta snúningsgetu vélarinnar og ná þannig aflinu út.

Áklæðið á sætunum er mjög huggulegt og eflaust níðsterkt.

Mun betri akstursbíll

Jóhannes Reykdal tók smá snúning á bílnum og að hans mati er mikil breyting til hins betra á aksturseiginleikum bílsins.

„Hann er miklu stabílli”, segir Jóhannes. „Málið með eldri bílinn var að hann var oft svolítið laus á veginum, sérstaklega að framan. Þú vissir ekki alveg hvar þú hafðir hann. Þessi bíll er bara eins og þú sért að aka mun stærri og dýrari jeppa en raun ber vitni.”

Við ókum svo sem ekki mikið á möl en þar sem við fundum slíkan kafla virkaði fjöðrunin ágætlega en kannski í stífara lagi. Gírskipting er einnig lipur og henni vorum við fljótir að venjast þegar við ókum af stað. Um er að ræða 6 gíra kassa.

Tvö USB-C fram í og tvö í miðjustokki aftur í.

Farangursrýmið er um 411 lítrar en stækkanlegt upp í rúma 1444 lítra með því að leggja niður sæti.

Svo hafa hönnuðir Dacia komið með ágæta hugmynd til að auka geymslupláss en það eru litlir tappar (YouClip) sem hengja má bæði hluti og flíkur á sem staðsettir eru víðsvegar í bílnum.

Skottið er frekar lítið en uppgefinn lítrafjöldi er um 411 lítrar. Það er hins vegar auðvelt að fella niður sætin og fá þá allt að 1444 lítra geymslurými.

Verðið er afar hagstætt

Engir dýr akstursaðstoðarkerfi eru að trufla þennan ágæta bíl. Hann er með hliðarloftpúðum að framan auk hefðbundinna loftpúða fyrir ökumann og farþega. Þar með er slíkt upptalið.

Er það ekki bara nóg í flestum tilfellum? Þetta heldur verði bílsins í skefjum og gerir fleirum kleift að eignast ágætan jeppa.

Í dýrari týpunni, Extreme bílnum er 360° myndavél og blindhornaviðvörum og skynjarar að aftan.  Á þeim bíl erum við einnig að tala um lykillaust aðgengi og 12 volta tengi í skotti.

Við flækjum ekki málin varðandi þennan bíl. Dacia Duster er orðinn „stór strákur” sem getur hæglega mætt í partý með fínni jeppunum á markaðnum.

Þetta er fyrst og fremst hagkvæmur kostur þar sem notagildi spilar stærstu rulluna. Hann er sterklegur og þannig búinn að hentar vel fjölskyldum með lítil börn eða eldri borgurum sem vilja njóta lífsins í ferðalögum um landið eða til að fara í sumarbústaðinn allt árið.

Ekki spillir verðið fyrir en það er í kringum 6,3 milljónir króna á dýrustu týpunni.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 5.990.000 kr. til 6.290.000 kr. (Reynsluakstursbíll af Extreme gerð kostar 6.390.000 kr.)

Gírkassi: 6 gírar beinskiptur

Afl mótors: 130 hö.

Tog: 230Nm.

Drægni: 6.0 ltr/100 km.

Heildarþyngd: 1.895 kg.

Dráttargeta: 1.500 kg. (mild-hybrid).

Lengd/breidd/hæð: 4.343/1.661/1.813 mm.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar