Škoda Kodiaq – nýtt viðmið í fjölskyldujeppum

Tegund: Skoda Kodiaq

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Dísel

Rými, tog, hljóðvist og akstursþægindi
Flókinn armur fyrir hraðastilli
367
DEILINGAR
3.3k
SMELLIR

MYNDBAND Í LOK GREINAR!

Škoda Kodiaq kemur sem ný kynslóð af hinum vinsæla fjölskyldujeppa, sem blandar saman hagkvæmni, glæsileika og nútímalegri tækni.

Škoda hefur verið þekkt fyrir að bjóða upp á bíla þar sem viðskiptavinurinn fær mikið fyrir peninginn og nýi Kodiaq heldur þeirri hefð áfram, um leið og hann er flottari og stærri með meiri tækni og afköstum.

Falleg hönnun og hagnýt á nýja Škoda Kodiaq.

Við tókum snúning á þessum veglega bíl um helgina og hér má lesa um upplifun okkar.

Flottari

Nýr Kodiaq byggir á sterkri og hagnýtri hönnun forvera síns, en þó með skarpari og kraftmeiri hönnun. Framendinn er með nýju og breiðara grilli sem undirstrikar svolítið hönnunarlínur bílsins.

Þunn LED framljósin gefa jeppanum nútímalegra og sportlegra útlit. Hliðarsniðið heldur mikið til vöðvastæltum línum sínum en með örlítið meira loftaflfræðilegri lögun.

Afturendinn fær ný LED afturljós sem minna á kristalla og nýja Škoda stafagerð.

Ein af áberandi nýjungum eru felgurnar undir bílnum. Þær eru fáanlegar í stærðum allt að 20 tommu og eru hannaðar með tilliti til eldsneytis sparnaðar.

Sá nýi er um 60 mm lengri en eldri gerðin og þessi viðbót gefur samt 70 lítra meira af plássi inni í bílnum.

Samt sem áður er sama bil milli fram og afurhjóla og í eldri gerð. Farangursgeymslan á nýja Kodiaq er um 910 lítrar en PHEV bíllinn er með örlítið minna skottrými vegna rafhlöðunnar.

Felgur í dag eru hannaðar með tilliti til loftmótsöðu – allt til að spara orku.

Rúmgóður og þægilegur

Þegar sest er inn í nýjan Kodiaq tekur á móti þér farþegarými sem byggt er á gæðum og hagkvæmni. Efnin hafa fengið uppfærslu, með sléttara yfirborði og úrvals áferð, þar á meðal leðri og viðaráherslum.

Mælaborðið einkennist af nýjum, stærri 13 tommu upplýsinga- og afþreyingarskjá sem er talsvert auðveldari og þægilegri í notkun.  Kodiaq kemur með þráðlausu Apple CarPlay og Android Auto sem staðalbúnaði.

Og það eru takkar til að stilla loftræstinguna, hækka í útvarpi og því helsta sem þú vilt hafa við hendina í akstri. Allt innan seilingar.

Hægt er að fá brúnt eða svart leður eða tauáklæði.

Hægt er að stilla afþreyingarskjáinn talsvert eftir þínu höfði sem gerir ökumönnum kleift að forgangsraða þeim upplýsingum sem þeir þurfa mest, hvort sem það er leiðsögn, miðlar eða akstursgögn.

Umhverfislýsing gefur bílnum skemmtilegt yfirbragð og það er hægt að velja um hvaða lit sem er til að bæta stemninguna.

Helsti styrkleiki Kodiaq hefur verið hið mikla pláss og þar er nýja gerðin ekkert öðruvísi. Hann tekur sjö manns í sæti, með nægu fótarými jafnvel í þriðju sætaröð.

Farangursrýmið er enn eitt það stærsta í sínum flokki og með niðurfelldum sætum breytist það nánast í salarkynnni. Þetta er pottþétt bíllinn sem tilvalinn fyrir fjölskylduævintýri.

Farangursrýmið er um 910 lítrar í dísel gerðinni.

Skilvirkni

Nokkrar gerðir Škoda Kodiaq eru boðnar hjá framleiðanda. Hekla býður upp á dísel og PEHV (plug-in hybrid) vélar sem báðar eru skilvirkar á afl og orku.

Škoda Kodiaq 1.5 TSI PHEV með sex gíra sjálfskiptingu kemur framdrifinn með 200 hestafla bensínmótor sem togar um 250 Nm.

Raflaðan tekur tæpar 26 kWst. og sögð gefa orku til að komast allt að 120 km. Rafhlöðuna er hægt að hlaða í hraðhleðslu.

Nægt pláss og frábært aðgengi um bílinn.

Dísilafbrigðið, 2,0 lítra TDI með 193 hestöflum, er enn traustur kostur fyrir þá sem aka lengra og meira en sú vél býður upp á framúrskarandi sparneytni og verulega togaukningu, sem gerir Kodiaq tilvalinn til að draga eða bera þungan farm.

Togið í bílnum er sérlega gott eða um 400 Nm. Dísel bíllinn er með 7 gíra sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi, vélin er hljóðlát og þú heyrir vart í henni í akstri.

Hvernig er að aka bílnum?

Á veginum vekur Kodiaq hrifningu með mjúkum og þægilegum akstri. Fjöðrunin hefur verið stillt til að bjóða upp á gott jafnvægi milli þæginda og meðhöndlunar, hún tekur ójöfnur nokkuð vel en vel er að merkja að bílinn var aðeins með ökumanni og einum farþega í reynsluakstrinum.

Þrátt fyrir stærð er Kodiaq lipur í borgarumferð en stýrið er frekar létt. Við tókum smá rúnt á holóttum vegi í nágrenni Reykjanesbæjar og þar kom í ljós að þó svo að létt sé að stýra bílnum svaraði það ágætlega þegar við ókum bílnum létt yfir það sem í gamla daga var kallað þvottabretti, (verulega ójafnt vegyfirborð).

Sérlega gott er að aka bílnum. Hann er léttur í akstir, liggur vel og traustur á alla vegu.

Hljóðeinangrunin hefur verið endurbætt. Það er eitt stærsta atriðið sem við tókum eftir í þessum reynsluakstri. Jafnvel á blautri Reykjanesbrautinni í hávaðaroki, heyrðist lítið í vindi og því síður eitthvað veghljóð.

Þetta, ásamt þægilegum sætum og háþróuðu loftræstikerfi, gerir lengri akstur minna þreytandi.

Nýr Škoda Kodiaq fæst í níu fallegum litum hjá Heklu.

Öryggi er eitt af þeim sviðum þar sem nýi Kodiaq skorar hátt. Hann er búinn alhliða ökumanns aðstoðarkerfum, þar á meðal aðlagandi hraðastilli, akreinaraðstoð og sjálfvirkri neyðarhemlun.

Þessir eiginleikar auka ekki aðeins öryggi heldur draga einnig úr álagi í lengri akstri, sér í lagi í íslenska vegakerfinu.

Bíltækni sem vekur athygli

Škoda hefur tryggt að nýr Kodiaq er í fararbroddi í bílatækni. Upplýsinga- og afþreyingarkerfið er leiðandi, með einfaldri grafík og stuttum viðbragðstíma. Í bílnum er vegaleiðsögukerfi, úrvals hljóðkerfi og 360 gráðu myndavél, sem gerir mun auðveldara að leggja þessum stóra jeppa.

Nýr 2025 Škoda Kodiaq býður upp á háþróað fjórhjóladrifskerfi (AWD) sem er hannað til að auka stöðugleika, grip og stjórn við mismunandi akstursaðstæður.

Škoda Kodiaq 2025 notar Haldex aldrifskerfi, sem er fyrst og fremst framhjóladrifið (FWD) við venjulegar aðstæður en getur sjálfkrafa virkjað afturhjólin þegar þörf krefur. Þetta kerfi er oft nefnt „on-demand” AWD.

Kraftmikil togdreifing

Þegar ekið er á þurrum og sléttum vegum heldur kerfið bílnum í FWD-stillingu til að hámarka eldsneytisnýtingu. Afturhjólin eru aftengd til að draga úr orkutapi.

Þegar skynjarar greina tap á gripi á framhjólum, svo sem á blautum eða snjóþungum vegum, beinir Haldex-kerfið togi samstundis til afturhjólanna og tryggir betra grip og stöðugleika.

Samþætting rafrænnar stöðugleikastýringar

Kerfið vinnur með rafrænni stöðugleikastýringu bílsins (ESC) og öðrum hjálpartækjum fyrir ökumann eins og hálkuvörn (ASR) og rafrænni mismunadrifslæsingu (EDL). Þessi kerfi fylgjast með hjólahraða, stýrishorni og skynja ástand vega til að koma í veg fyrir að hjólin renni og viðhalda stjórn.

Bíllinn býður einnig upp á fjölda þægindaeiginleika eins og sjálfvirka opnun afturhlera, lyklalaust aðgengi og víðáttumikla sóllúgu sem hægt er að panta sem aukabúnað.

Nýi sjónlínuskjárinn er kærkomin viðbót sem varpar lykilupplýsingum á framrúðuna og gerir ökumönnum kleift að hafa augun á veginum. Og inni í bílstjórahurðinni má finna „innbyggða” regnhlíf sem óneitanlega passar vel við tíðina í sumar.

Eitt af því sem stendur upp úr er Škoda Connect-appið sem gerir kleift að fjarstýra ýmsum eiginleikum, svo sem að læsa og opna bílinn, athuga eldsneytisstöðu eða jafnvel forstilla hita- og loftræstingu áður en þú stígur inn í bílinn. Fínt í frosti og kulda að geta setið í sófanum og byrjað að hita bílinn upp fyrir akstur.

Sérlega vel heppnaður sportjeppi

Nýr Škoda Kodiaq táknar stórt stökk fram á við fyrir vörumerkið og býður upp á fullkomna blöndu af plássi, þægindum og háþróaðri tækni í pakka sem er flottari, betri og hæfari en nokkru sinni fyrr.

Hvort sem þú ert að leita að áreiðanlegum fjölskyldubíl, skilvirkum ferðabíl eða stílhreinum jeppa með mikinn sjarma, þá tikkar nýi Kodiaq í öll réttu boxin.

Við hjá Bílabloggi mælum hiklaust með þessum bíl ef þú ert að leita að bíl í þessum flokki.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: frá 9.290.000 til 10.290.000

Aflgjafi: Dísel

Afl mótors: 193 hö.

Tog: 400Nm.

Eyðsla: 6.4 í blönduðum akstri

Sætafjöldi: 5 til 7.

Farangursrými: 910 lítrar.

Hæð undir lægsta punkt: 170 mm.

Lengd/breidd/hæð: 4.758 / 1.864 / 1.678 mm.

Myndir og texti: Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar