Er XPeng á pari við þá flottustu frá Evrópu?

Tegund:XPeng P7

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Rafmagn

Aksturseiginleikar, hönnun, tækni, hljómtæki
Þröngt skottop og djúpt skott
188
DEILINGAR
1.7k
SMELLIR

  • Hljómflutningsæki gefa tónleika upplifun
  • Leggur í stæði með appi
  • Toppverð fyrir mjög vel útbúinn bíl

Við erum alls ekki hissa á því að evrópskir bílaframleiðendur sé uggandi yfir samkeppni frá Kína. XPeng ýtir eflaust enn meira undir kvíða og óvissu evrópskra bílaframleiðenda því þessi nýi bíll er algjör sprengja inn á markaðinn, tæknilega og verðlega séð.

Nýi XPeng P7 rafbíllinn vekur athygli á heimsvísu og er áreiðanlega eitt af þeim ökutækjum sem við teljum að geti umbreytt markaðnum.

Með glæsilegri hönnun, tækniþróuðum eiginleikum og kraftmiklum mótorum er P7 sannarlega bíll framtíðarinnar.

Glæsileg hönnun

Það fyrsta sem vekur athygli er útlit bílsins. XPeng P7 er sportlegur, straumlínulagaður og fullur af nútímalegum áherslum. Með lágum framenda, áberandi ljósabúnaði og loftaflfræðilegri hönnun minnir hann á lúxussportbíl en um leið á fjölskylduvænan rafbíl.

Það er ljóst að XPeng hefur lagt mikinn metnað í að skapa bíl sem er bæði sjónrænt áhrifamikill og hagkvæmur.

Skapandi hönnunin nær einnig inn í farþegarýmið, sem býður upp á rúmgott og notalegt umhverfi. Sæti vel bólstruð með endurnýjanlegum efnum en hægt er að fá Nappa leður að auki.

Háþróað margmiðlunarkerfi og stór snertiskjár í miðju mælaborðinu gera aksturinn bæði þægilegan og skemmtilegan. Að auki er hægt að fá kælingu í framsæti en bæði er hægt að hita fram- og aftursætin upp.

Svo er mjúklokun á hurðum sem þýðir að bíllinn sér sjálfur um að fullloka og ekki þarf að skella neinum hurðum. Já, og eitt í viðbót – hann keyrir sjálfur úr bílastæði.

Við fengum afnot af bílnum í nokkra daga og fengum því góða innsýn í bílinn að öllu leyti. Það sem stóð uppúr fyrir utan mjúkan og þægilegan akstur voru hljómtæki bílsins en satt best að segja skrapp maður í bíltúr til að njóta græjanna.

Drægnin 

XPeng P7 er búinn háþróaðri rafhlöðu með allt að 505 km drægni skv. WLTP staðlinum. Hraðhleðsla er einnig til staðar og getur hlaðið bílinn upp í 80% á innan við 30 mínútum. Þetta tryggir að ferðalög, jafnvel lengri ferðir, eru áhyggjulausar.

Varmadæla er staðalbúnaður og grill opnast og lokast til að hámarka orkunýtingu.

Aflrás bílsins gefur bæði kraft og þægilegan akstur.  Með tveimur rafmótorum (í fjórhjóladrifsútgáfu) skilar P7 ótrúlegu viðbragði, en 0-100 km/klst. er náð á aðeins 4,1 sekúndu. Hestöflin eru um 473 talsins og togkrafturinn 757 Nm.

Rafhlaðan rúmar um 83 kWh og getur tekið allt að 175 kWh inná sig á klukkustund. Við mælum með að þú horfir á myndbandsbloggið og sjáir ítarlegri umfjöllun um drægni og hleðslu. Bíllinn sem við vorum með til prófunar var af Performance gerð og fjórhjóladrifinn.

Heillandi tækni

Eitt af því sem gerir XPeng P7 sérstakan er tæknin. Bíllinn er búinn nýjustu sjálfkeyrslutækni, XPILOT 3.0, sem býður upp á aðstoð við akstur á hraðbrautum, sjálfvirka akreinastýringu og skynvæddan hraðastilli. Þó að sjálfkeyrslu eiginleikarnir séu ekki fullkomlega sjálfstæðir, virka þeir nokkuð vel.

Til dæmis prófuðum við að láta bílinn leggja sjálfan í stæði í rigningu og myrkri fyrir utan Bónus í Reykjanesbæ.

Með því að virkja sjálvirku bílastæða aðstoðina finnur XPeng P7 stæði og sýnir á skjá hvernig hann mun koma bílnum fyrir í stæðinu. Það gerir bíllinn síðan með sentimetra nákvæmni. Við fengum síðan sýnikennslu í að leggja bílnum í stæði með appi í snjallsíma þar sem enginn er um borð í bílnum á meðan.

Hey XPeng tæknin er frábær. Þetta er einn af fáum bílum sem skilur nánast hvaða framburð sem er á ensku. Xpeng opnar því glugga, leggur í stæði og stillir loftkælingu svo eitthvað sé nefnt, bara með því að biðja hann um það.

Snertiskjárinn í bílnum er miðstöð alls. Í honum er hægt að stjórna loftkælingu, hljóðkerfi og leiðsögukerfi. Þessi kerfi virka áreiðanlega og eru auðveld í notkun.

Skemmtilegur í akstri

Það er alkunna að bílablaðamenn segja að bílar séu mjúkir eða hastir. Þessi er frekar mjúkur í akstri, stýrið létt og fjöðrunin átakalaus. Það er einfaldlega mjög gott að aka XPeng P7.

Það er okkar mat að hér er um ansi vel heppnaðan fjölskyldusportbíl að ræða. Gæði og glæsileiki einkenna bílinn og innréttingar og efnisval eru til mikillar fyrirmyndar.

Verið getur að hefðbundnir stallbakar eða hlaðbakar séu á undanhaldi en sem slíkur slær þessi alveg í gegn. Við berum þennan bíl fyllilega saman við bíla eins og Tesla, Volkswagen, Kia og fleiri bíla í sama flokki.

Farangursgeymslan er ekki lítil en op hennar er ekki sérlega stórt og hún er djúp og nær langt inn í bílinn. Einhverjum gæti þótt það galli. Ennfremur er erfiðara fyrir stóra og stirða að setjast inn og stíga út úr svo lágum bíl.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 7.990.000 kr.  Premium og hljómtækjapakki: 500.000 kr.

Drægni (WLTP): 505 km.

Hestöfl: 473hö.

Tog: 757 N⋅m.

Rafhlöðustærð: 82.7 kWh

Hröðun 0-100 km/klst: 4.1 sek.

Eyðsla: 19.2 kWh/100

Hraðhleðslugeta (DC): 175 kW (10-80% á 29 mín).

Heimahleðslugeta (AC): 11 kW (3-fasa).

Pétur R. Pétursson, Radek Werbrowski og Gunnlaugur Steinar Halldórsson

Myndataka og vinnsla: Radek Werbrowski og Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar