Hofnir í gróður og gleymsku á Egilsstöðum

Í miðjum Egilsstaðabæ eystra leynist týndur fjárssjóður, alltént í augum bílamanna. Þar hafa dagað uppi allmargir gamlir bílar sem fengið hafa að sjá betri daga á sinni lífsstíð. Hver á heiðurinn af þessu einstaka bílasafni? Greinarhöfundur fór á vettvang, reyndar fyrir einstaka tilviljun, og hitti þar mann að nafni Valdimar Benediktsson sem er vélvirki kominn á efri ár. Í gegnum áranna rás hefur hann safnað miklum fjölda bíla og véla, einkum af sveitabæjum á Austurlandi.

Á lóð fyrirtækis hans, Véltækni, ber margt fyrir augu og ýmislegt merkilegt að skoða, enda fjölbreytt saga á bak við marga bílana.

Á einum stað er t.d. forláta svartur ´56 Cadillac sem Valdimar notaði sem brúksbíl fyrir rúmlega hálfri öld, en hann hafði áður verið forstjórabíll hjá Olíufélaginu. Mörgum áratugum síðar fékk Valdimar veður af þessum bíl suður í Grindavík og var hann þá nær ónýtur af ryði. Það breytti hins vegar engu um áhuga gamla eigandans, sem flutti hann austur aftur með tilheyrandi kostnaði og geymir nú undir segli fyrir utan verkstæðið, vitandi að honum verði aldrei ekið á ný.

Hér má sjá tvo Buick-bíla frá því um miðja síðustu öld. Sjaldan hefur greinarhöfundur séð jafn ryðgaða bíla sem njóta verndunar sem sýningargripir.

Þó Valdimar dásami ameríska bíla í hástert ber hann hlýjan hug til þeirra rússnesku, sem hann segir að hafi verið einstaklega vel hannaðir. Enda mátti sjá nokkrar Volgur í safninu.

Þó bjallan sé fæstum gleymd sér Valdimar enga ástæðu til annars en að eiga nokkrar í sínu safni.

Eins og að líkum lætur er mikið af jeppum á safninu, enda flestir bílanna upprunnir úr sveitum Austurlands. Hér sjást Austin Gipsy, GAZ-69 Rússajeppi, Land Rover og tveir Willys-jeppar.

Þeir eru ófáir vörubílarnir í hlaðinu hjá Véltækni, en það vakti athygli aðkomumanna hvað margir þeirra voru af Chevrolet-gerð. Hvort það er til marks um gæði þeirra, eða það sem líklegra telst, að veldi Sambandsins hafi staðið óvenju traustum fótum á Austurlandi.

Mikið er um evrópska bíla á svæðinu, einkum breska, þýska og sænska. Hér eru t.d. nokkrir sjaldséðir Taunus-bílar og forláta appelsínugulur Austin Allegro, sem flestir eru sammála um að sé það daprasta sem Bretinn hefur smíðað um dagana. Nokkuð er um blöðru-Saaba, en minna um japanska, þó sjá mætti einn og einn lúinn Subaru.

Það er fagurt sólarlagið á Egilsstöðum og ekki spillir þegar það lýsir upp ryðgað járnið fyrir framan Véltækni. Það er sorglegt til þess að hugsa, að þegar Valdimar Benediktsson fellur frá verða allir þessir bílar umsvifalaust urðaðir, enda hefur þetta merkilega safn lengi verið þyrnir í augum annarra heimamanna.

Við látum svo myndirnar tala sínu máli:

Sett inn
15/9/2020
í flokknum:
Fornbílar

Fleiri fréttir úr flokknum:

Fornbílar

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.