Þegar Ford vildi stýrið burt

136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Þegar Ford vildi stýrið burt

Árið 1965 brunuðu ýmsir bílar eftir prófunarbraut Ford í Dearborn. Það sem var sérkennilegt var að í þeim var ekki hefðbundið stýrishjól. Nei, til hvers að vera með svoleiðis?

Hér er „wrist-twist“ eins og það kallaðist.

Það sem var í stað stýrishjóls voru tvö minni hjól sem geimverkfræðingur, Bob nokkur Rump, (sem í miðju geimkapphlaupinu virðist af einhverjum ástæðum hafa hætt að starfa sem geimverkfræðingur…) hannaði fyrir Mercury. Kallaðist þetta „wrist-twist“ stýri.

Að laga það sem ekki er bilað

Það getur virkað sem undarleg árátta að vilja endilega laga það sem er í lagi. En það er auðvitað ekki hægt að afgreiða hugmyndir verkfræðingsins sem eitthvað í þá veru þótt „wrist-twist“ stýrið kunni að hafa komið mönnum spánskt fyrir sjónir á sínum tíma.

Einhver er samt ástæðan fyrir því að fyrrnefnt fyrirbæri er ekki í bílum í dag.

Kostir „wrist-twist“ að mati Ford

Það var eitt og annað sem Ford sá í þessu fyrirbæri og má þar nefna þá augljósu staðreynd að það var minna en stýrishjól og fyrir vikið var meira pláss fyrir ökumanninn.

Betur sást út þegar ekkert stýrishjól skyggði á útsýnið og síðast en ekki síst ber að nefna að ökumaður gat hvílt handleggina á armpúðum eins og sést á myndinni fyrir neðan.  

Svo ofboðslega einfalt

Ofan á allt þetta bættist svo að þessi nýjung var sögð svo ofboðslega einföld í notkun að jafnvel (ekki mitt orðalag gott fólk), já jafnvel konur gætu notað nýjungina! Hér er myndband til að undirstrika þetta og takið eftir að með þessu ótrúlega stýri áttu blessaðar konurnar að ná að bakka bílnum í stæði. Ótrúlegt en satt.

Hvernig var að nota „wrist-twist?

Greinin birtist í hinu stórgóða blaði, Popular Mechanics, í apríl 1965.

Gaman væri að vita hvernig það hefur verið að aka með „wrist-twist“ og sem betur fer er til umsögn blaðamanns Popular Mechanics, Alex Markovich, sem prófaði þetta í apríl 1965. Bráðskemmtileg lýsing hjá karli!

Hér er þýðing undirritaðrar á greininni góðu úr Popular Mechanics frá 1965:

Með stýrishringina rétt fyrir ofan kjöltuna og handleggina á þar til gerðum armpúðum, leið mér vel en samt dálítið skringilega. Útsýnið var vissulega með eindæmum gott, en það vantaði alveg stuðning stýrisins. Mér leið eins og ég væri fyrsti geimfarinn. Ég setti bílinn í gang, fór í gegnum eins konar andlega niðurtalningu og lét bílinn líða gegnum hliðið, ofurvarlega eins og nakinn maður sem læðist á milli kaktusa.

Úr grein Alex Markovich 1965.

Þegar út í umferðina var komið stóð ég sjálfan mig að því að halda niðri í mér andanum. Hver einasta úlnliðshreyfing skilaði sér sem kippur í akstrinum. Bíllinn var eins og kengúra með hiksta.

Úr grein Alex Markovich 1965.

Beygja framundan. Ég ýtti öðrum hringnum niður og hinum upp og reyndi að snúa stykkinu. Bíllinn gekk vandræðalega til og fór svo beint áfram. Þegar ég nálgaðist næstu beygju var ég gríðarlega einbeittur. „Snúðu bara litlu örmunum,“ hugsaði ég með mér, „ekki öllum fjárans bílnum.“ Það kom slinkur á bílinn þegar ég snéri og minnstu munaði að bíllinn færi upp á gangstétt áður en mér tókst að rétta hann af,“ skrifaði blaðamaðurinn Alex Markovich.

Hreyfingarnar voru ekki mjúkar í upphafi aksturs hjá Markovich en það breyttist.

Eftir dálitla byrjunarörðugleika fór Markovich loks að kunna ágætlega að meta „wrist-twist“ stýrið og svo fór að hann sagðist vera algjör aðdáandi fyrirbærisins nýja.

Grein Markovich var fylgt eftir þremur árum síðar með greinarstubbi í Popular Mechanics. Var því haldið fram að „wrist twist“ væri ekki horfið með öllu en þó virtist ekki útlit fyrir að það færi í framleiðslu í nánustu framtíð.

Þetta birtist í blaðinu Popular Mechanics árið 1968

Þannig var nú það!

Þessu tengt: 

Sjálfvirku öryggisbeltin: Hvað klikkaði?

Þriðja bremsuljósið: Af hverju og hvenær?

5 hlutir úr bílum fortíðar

„Pop-up“ framljósin: Það besta og það versta

?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.??

Svipaðar greinar