Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið í notkun fyrsta MCS hleðslutengi landsins og eitt það fyrsta í Evrópu í Hleðslugarði ON í Borgarnesi. Uppsetningin er gerð í samstarfi við Autel Europe, sem sérhæfir sig í nýrri tegund hleðslutengis sem þróuð er sérstaklega fyrir rafknúin flutningatæki, s.s. stóra vörubíla og rútur. Markar þetta stórt skref í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í þungaflutningum til framtíðar.
Þó svo að ekki sé gert ráð fyrir almennri notkun á tenginu strax, þar sem rafknúnir flutningabílar sem styðja MCS-tengi eru enn ekki komnir í umferð hér á landi, er þessi innviðauppbygging mikilvæg til framtíðar. Tengið er staðsett í Hleðslugarði ON við Digranesgötu 4A í Borgarnesi, við hringveginn, og þjónar lykilhlutverki á helstu flutningaleið landsins.

Tengið er staðsett í Hleðslugarði ON við Digranesgötu 4A í Borgarnesi, við hringveginn
„Það er markmið okkar að vera leiðandi í orkuskiptum og byggja innviði sem styðja við nýja tækni, jafnvel áður en hún er komin í almenna notkun hér á landi,“ segir Jóhann Ingi Magnússon, forstöðumaður Sölu og þjónustu hjá Orku náttúrunnar.
„Þetta framtak markar mikilvægan þátt í þróun orkuskipta og sýnir vilja ON til að taka frumkvæði, ekki bara innanlands heldur einnig á alþjóðavísu.“
Uppsetningin er sú fyrsta sem Autel Europe leiðir í Evrópu í samstarfi við innlent orkufyrirtæki og markar einnig fyrstu innleiðingu MCS-kerfis fyrirtækisins á meginlandi Evrópu. Hleðslulausnin sem nú er komin í gagnið getur skilað allt að 640 kW jafnstraumshleðslu, með möguleika á stækkun upp í 1.2 MW og 1.500 A. Hún er hönnuð með framtíðarþörf rafvæddra þungaflutninga í huga, bæði innanlands og víðar í Evrópu.
„Við erum stolt af því að vinna með Orku náttúrunnar að þessari fyrstu uppsetningu í Evrópu. Þetta er háþróað og sveigjanlegt kerfi sem hefur getu til að vaxa í takt við þróun markaðarins og þarfir rafknúinna flutningstækja,“ segir Andreas Lastei, sölu- og markaðsstjóri Autel Europe.
Hleðslukerfið er sérstaklega hannað til að þola íslenskar aðstæður og veðurfarið á Íslandi, þar sem frost, vindur og raki eru daglegt brauð. Einnig fylgir það alþjóðlegum stöðlum á borð við IEC 61851 og ISO 15118, sem tryggir samhæfni við framtíðarkerfi í Evrópu.
(fréttatilkynnng frá Orku náttúrunnar)