Reynsluakstur:
Toyota Yaris
,
árgerð
2020
Góðir aksturseiginleikar, góð svörun frá nýju 1.5 lítra vélinni, hönnun á innanrýni og hybrid kerfi
Snögg fjöðrun, aðeins of mikið veghljóð

Nýr Yaris: Spennandi útlit, ný vél og vel heppnuð hybrid-útfærsla

Við sögðum frá heimsfrumsýningu á nýjum Toyota Yaris fyrir liðlega ári eða þann 16. október 2019 og jafnframt að bíllinn kæmi á Japansmarkað í febrúar 2020. Allt frá þeim tíma hefur töluvert verið ritað og rætt um þennan nýja Yaris á vefnum, og flestar umsagnir hafa gert það að verkum að það var auðsýnilegt að hér hafi Toyota náð að hitta naglann á höfuðið, í fleiru en einu tilliti. Útlitið meira spennandi, góð vél og sjálfskipting og vel heppnað hybrid-kerfi.

En núna er þessi nýi Yaris kominn hingað til lands og er í reynsluakstri hjá okkur í dag.

Mikil breyting frá árinu 1999

En áður en við förum að fjalla um þennan nýja Yaris, skulum við hoppa aftur til ársins 1999, því þegar Páll Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Toyota hafði samband fyrir nokkrum dögum þá sagði meðal annars í tölvupóstinum frá honum

„Eftir því sem ég kemst næst þá varst þú fyrstur manna til að skrifa um nýjan Yaris þegar hann kom til landsins seint á síðustu öld. Ertu ekki til í að reynsluaka 4. kynslóð í næstu viku?

Þegar þarna var komið sögu rétt fyrir aldamótin hafði Toyota þurft að horfa upp á aðra framleiðendur gera það gott í sölu smábíla án þess að geta boðið upp á slíkan bíl sjálfir. En þarna á vordögum árið 1999 tóku þeir slaginn með stæl, eins og ég skrifaði í DV Bíla í mars 1999 – með nýjum bíl og nýrri hugsun.

„Fyrir okkur hér hjá Toyota er Yaris ákaflega mikilvægur bíll sem mun gegna lykilhlutverki í stefnumörkun okkar í Evrópu. Hann er nútímalegur smábill sem þekkir samgöngukerfi 21. aldarinnar," segir dr. Shuhei Toyoda, framkvæmdastjóri Toyota Motor Corporation.

Undir þetta tóku talsmenn Toyotaumboðsins hér á landi á þessum tíma, og kynntu bílinn hér með áherslu á frumlegan og nútímalegan evrópskan stíl, litla heildarlengd en rúmgott innanrými, ódýran þjónustupakka, háþróaða vél, hagnýtt og aðlaðandi mælaborð fyrir miðju og síðast en ekki síst ákaflega virka öryggiseiginleika.

„Það er ótrúlegt hvað hægt er að troða miklu plássi inn í lítinn bíl”, sagði þáverandi markaðsstjóri Toyotaumboðsins, við okkur blaðamenn þegar bíllinn var forkynntur í mars 1999, eða fyrir liðlega 20 árum.

Toyota Yaris 1999.

Í dag meira en 20 árum seinna og nú með tilkomu fjórðu kynslóða Yaris, þá má segja að þetta standi enn vel fyrir sínu, bíllinn orðinn miklu betri og fullur af góðum lausnum.

Horft frá hlið þá er útlitshönnun nýja Yaris vel heppnuð. Í þessum dökka lit sést vel hvernig afturbrettin eru aðeins útsveigð frá yfirbyggingunni. Búið er að lengja hjólhafið frá næstu kynslóð sem kemur vel út varðandi aksturseiginleika.

Mildari línur í útliti

Hönnun bíla frá Toyota að undanförnu hefur borið einkenni skarpra horna og sérstæðra lína, en í hönnun á þessum nýja Yaris er snúið aftur til betri vegar að mínu mati. Línur eru ávalari, framljósin með ávölu yfirbragði, stærri en búast hefði mátt við, en það sem setur fyrst og fremst svip á þessa fjórðu kynslóð Yaris er stórt opið „grillið“ þótt hið eiginlega „grill“ sé bara lítill hluti þess.

Sérstæð hönnun á grillinu nýtur sín mjög vel þegar bíllinn er í dökkum lit.
Afturendinn er ekki eins vel heppnaður að mínu mati – afturljósin eru mest áberandi hluti bílsins að aftan, eða öllu heldur umbúnaðurinn í kring um þau, en ljósin sjálf eru fallega hönnuð og frekar „venjuleg“.

Sé horft á bílinn frá hlið minnir útsveigð hönnunin í kring um afturhjólin svolítið á þá tíma þegar afturbrettin voru ekki alveg aðfelld að yfirbyggingunni eins og á bílum um og eftir 1950, en þetta er gert hér á smekklegan hátt og ég held að það skipti verulegu máli í hvað lit bíllinn er til þess að þetta njóti sín til fulls í útlitinu.

Flott hönnun á afturljósum.
Vel heppnuð hönnun á framljósunum sem falla vel að yfirbygginu bílsins.

Styttri en með meira pláss

Ólíkt því sem venjulega gerist þá er fjórða kynslóð Yaris styttri en fyrirrennarinn, þó ekki muni þar miklu eða aðeins 5 mm. Bíllinn er hins vegar 50 mm breiðari og 40 mm lægri en þriðja kynslóðin.

Þeir sem sitja í framsætunum einnig 21 mm nær jörðu en áður, auk þess sem aukin breidd bílsins þýðir að þeir sitja einnig 20 mm lengra hvor frá öðrum. Og miðjustokkurinn er breiðari fyrir vikið

Varðandi aftursætin er rými fyrir fætur í lagi, höfuðrýmið er sagt betra en í næstu kynlóð á undan, en í heildina finnst mér að plássið fyrir fullorðna hefði mátt vera betra, en þetta sleppur samt mjög vel.

Lykillinn að hönnuninni á nýja Yaris er fyrst og fremst nýr grunnur bílsins „Toyota New Global Architecture“ - TNGA – grunnplata fyrir lítinn bíl og kynnir GA-B grunninn sem mun styðja röð nýrra gerða. GA-B grunnurinn er sagður vera lykilatriði í bættri og kraftmeiri frammistöðu Yaris, sem gefur bílnum lægri þyngdarpunkt og miklu meiri stífni í yfirbygginguna.

Það er gott að umgangast þennan nýja Yaris, hér sést vel að hönnuðir bílsins hafa gætt að hverjum millímetra, því það var auðvelt að setjast inn og eins að fara út aftur.
Aðgengi að aftursætum sleppur vel og plássið er nákvæmlega nógu mikið, en ekki meira en það.

Meiri sparneytni og geta til að nota rafmagnið

Nýja gerðin notar nýjustu þróun fjórðu kynslóðar rafknúinnar aflrásar Toyota, sem gefur bílnum meiri sparneytni, minni losun og stóraukna getu til að nota rafmagnið eitt og sér, á meiri hraða og yfir lengri vegalengdir.

Þetta nýja burðarvirki bílsins er um 20 kg léttari en fráfarandi Yaris, en einnig 37 prósent stífara, með meiri þyngd neðar í yfirbyggingu bílsins, sem gefur lægri þyngdarpunkt og þar með bætta aksturseiginleika. Það kemur fram í umfjöllun um bílinn á vefsíðum að þessi sami grunnur getur einnig rúmað fjórhjóladrifskerfi þegar að því kemur.

Spræk vél

1,5 lítra vélin sem notuð er hér er þriggja strokka útgáfa af 2,0 lítra, fjögurra strokka vélinni sem er að finna í Corolla og notar Atkinson ferli og er með hátt þjöppunarhlutfall, eða  14: 1.

Aflið er 116 DIN hestöfl og snúningsvægið er 85 kW og vélin togar 120 NM við 3600 til 4800 sn/mín.

Drifrásin er tengd við nýjan rafmótor sem framleiðir 80 hestöfl og tog sem nemur 141 Nm. Rafmagnið kemur frá léttri litíumjónarafhlöðu (Yaris er núna að nota sömu gerð rafhlöðu og aðrir nýir rafbílar) og knýr framhjólin um sjálfskiptan gírkassa.

Sjálfskiptingin er stiglaus – CVT-skipting – sem er algerlega hnökralaus og hæfir bæði bíl og vél fullkomlega.

Sjálfskiptingin er með hefðbundna skiptimögueika + að með því að færa skiptistöngina í öftustu stöðu er komin stilling sem nýtir aksturinn betur til að hlaða rafhlöðuna. Hnapparnir aftan við skiptistöngina vinstra megin eru til að skipta á milli akstursstilling auk þess að sér hnappur er til að skipta í akstur aðeins með rafmagni.

Þetta er ein besta CVT-skipting sem ég hef notað lengi. Ef minni mitt bregst mér ekki þá er þessi góð framför frá fráfarandi skiptingu. Það er mjög lítið af þeirri „mýktartilfinningu“ sem oft einkennir þessa gerð skiptinga.

Þessi fjórða kynslóð Yaris er sá fyrsti sem notar þessa nýju tegund rafhlöðu og sem gefur tvöfalda hleðslugetu og 50 prósent meiri afköst. Það að staðsetja rafhlöðuna undir aftursætunum kemur ekki aðeins í veg fyrir að hún éti upp farangursrými, og samkvæmt því er ekki þörf á sjálfstæðu vökvakælikerfi, sem leiðir til þess að 12 kg þyngdarsparnaður næst miðað við gömlu útgáfuna.

Þrjár akstursstillingar

Hægt er að velja um þrjár stillingar á drifrásinni: „venjulega stillingu“, „kraftstillingu“ og „sparnaðarstillingu“ eða Eco. Kraftstillingin gerir stýrið aðeins þyngra en svörun vélarinnar breytist verulega og rífur bílinn áfram þegar þess er þörf. Sparnaðarstillingin (ECO) deyfir viðbragðið töluver en dugar vel í öllum venjulegum akstri. Rafmagnsstillingin reynir að nota bara rafmagn eins lengi og mögulegt er.

Síðna er hægt að færa skiptistöngina enn aftar í B-stillingu til að endurnýta orku frá hemlun. Þessi kostur er eflaust ágætur en var ekki notaður mikið í þessum reynsluakstri.

Síðan er sér hnappur til að velja bara rafmagn, en sú stilling svarar ekki nema að það sé næg orka til staðar á rafhlöðunni (sem kom reyndar fyrir í þessum akstri að var ekki).

Og það er augljóst að þetta er sparneytinn bíll. Samkvæmt WLTP-prófunarferlinu getur eyðslan farið niður í 4,3 lítra á hundraðið. Gott dæmi um þetta er að þegar ég tók við bílnum hjá Toyota í Kauptúni var hann með fullan bensíntank og aksturstölvan í bílnum sagði mér að hann gæti farið um 750 kílómetra á tankinum, sem þýðir að það dugar á Egilsstaði, og þegar búið er að fylla á aftur þá er hægt að klára hringinn!

Allt innan seilingar

Þegar sest er undir stýri á þessum nýja Yaris hybrid þá má segja að það sé allt innan seilingar. Stjórntæki virka vel, mælaborðið gefur ágæta yfirsýn um hvað er að gerast, og hægt er með hnappi í stýrishjólinu að kalla fram ýmsar nánari upplýsingar um eyðslu, stöðu á búnaði ofl.

Það er nánast ótrúlegt hvað er búið að hlaða miklum stillimöguleikum í þetta litla stýrishjól, og það mun taka lengri tíma en stuttan reynsluakstur að fingurnir rati sjálfkrafa á réttan hnapp, hvort sem að er að svara í símann, stilla skriðstilli eða hækka eða lækka í útvarpinu.

Hönnuðir bílsins fá prik frá mér fyrir alla þá geymslumöguleika sem eru innan seilingar. Góðar litlar hillur ofarlega í mælaborðinu eru notadrjúgar og minntu mig á Fiat Uno sem ég átti um árabil og var með þá bestu „geymsluhillu“ í bíl sem ég hef átt um ævina.

Smáatriði sem ég var líka ánægður með, en það er þegar stefnuljósin eru sett á þá fer ekki á milli mála að þau eru að blikka því gott hljóðmerki minnir okkur á að þau eru í gangi!

Að öðru leyti eru stjórntæki næsta hefðbundin, og ágætur upplýsingaskjár í miðju mælaborðsins geymir hinar ýmsu upplýsingar og stillingar, sem ekki var nú mikið látið reyna á í þessum reynsluakstri, fyrir utan það að það tók aðeins nokkur andartök að tengja farsímann þráðlaust við skjáinn, sem var ágætt, því stuttu seinna var innkomandi símtali svarað með því að ýta á hnapp í stýrinu.
Hægt er að kalla fram ýmsar upplýsingar úr stýritölvu bílins á skjá í miðju mælaborðsins með hnappi í stýrishjólinu. Hér má meðal annars sjá að meðaleyðslan í þessum reynsluakstri var 5,5 lítrar á hundraðið, sem sýnir að það var meira eki í aflmeiri stillingunni, minna í sparnaðarstillingu og enn minna í stillingu sem bætti rafmagni á rafhlöðuna.
Þetta er „hefðbundna“ myndin sem blasir við ökumanninum í akstri.

„Virkni“ er í raun besta orðið til að lýsa innréttingunni. Það virkar allt. Allt er þar sem þú myndir ímynda þér að það að það ætti að vera. Það er mjög lítið sem pirraði mig í raun. Plastið er með ágæta áferð, notkun klæðningar á hurðarspjöldum er þægileg snertingar og sætin koma vel út.

Rásfastur en svolítið „snögg“ fjöðrun

Lengra hjólhaf gerir örugglega sitt til þess að bíllinn verkar vel í daglegum akstri. Það er búið að „toga“ hjólin eiginlega eins langt úr í horn bílsins og mögulegt er, og þegar ekið er yfir hraðahindrun svo dæmi sé tekið, það er tilfinningin sú að bíllinn sé stærri en hann er í raun.

Það var eiginlega aðdáunarvert hve lítið bíllinn kippti sér upp við slitrásirnar í malbikinu. Margir bílar vilja leita í rásirnar og það finnst vel þegar það gerist, en hér var þetta varla merkjanlegt. Akreinavarinn lét heyra vel í sér af bíllinn kom of nálægt máluðu línunum í malbikinu.

Gerðin sem við vorum með í reynsluakstrinum er Active sem státar af fallegum álfelgum
Gott pláss er fyrir hjólin í hjólskálunum.

Fjöðrunin að framan er hefðbundin MacPherson gormafjörðun og svarar vel, en að aftan er snúningsfjöðrun sem er nokkuð snögg og á eflaust sinn þátt í því að bíllinn virðist vera hastari á grófu vegyfirborði. Minnsta hæð frá jörðu er 135 mm sem dugar vel í venjulegum akstri.

Bíllinn er ágætlega hljóðlátur í akstri, auðvitað lætur þriggja strokka vélin í sér heyra ef gefið er vel inn, en í venjulegum akstri er ekki mikið vélarhljóð. Hins vegar kemur á óvart að bíll sem er eins vel hannaður og þessi nýi Yaris, byggður á nýjum grunni, sé með þó þetta mikið veghljóð. Að vísu verður að játa að grófa vegyfirborðið á íslensku malbiki er nokkuð sem þekkist varla í öðrum löndum, en þegar ekið var eftir nýlögðum malbiksköflum var allt miklu hljóðlátara.

Farangursrými

Það hefur verið góð ráðstöfun hjá hönnuðum Yaris að setja rafhlöðurnar undir aftursætið, því farangursrýmið helst dágott í þessum bíl, þótt það sé aðeins minna en í sumum samkeppnisbílum. Það rúmar 286 lítra þegar aftursætið er í uppréttri stöðu, pláss sem dugar vel í daglegri notkun bílsins, en hægt að stækka það vel með því að leggja bak aftursætis fram 60:40 sem eykur notagildið enn frekar.

Ágætt farangursrými, 286 lítrar, er í bílnum og hægt að auka nýtinguna með því að leggja fram bak aftursætis 40:60.

Niðurstaða

Ef Yaris hefur ekki verið á lista yfir mögulega bíla hjá þeim sem eru að leita að nýjum bíl, þá hefur hann vissulega möguleika á því núna að vera þar með. Það er búið að bæta frammistöðu með nýrri og stærri 1,5 lítra vél, akstursánægju og útliti hefur verið bætt í blönduna, og síðast en ekki síst er hybrid-útfærslan að halda daglegum rekstrarkostnaði niðri – og gerir það greinilega. Fyrir þá sem þegar líkar vel við Yaris, þá er þessi útgáfa betri en áður og ekki skemmir í mínum huga að geta ekið um bæinn með svolítið meiri umhverfislegri ábyrgð.

Margir eru eflaust í sömu sporum og sá sem þetta skrifar, að vera að leita að bíl til endurnýjunar. Í mínu tilfelli get ég ekki nýtt mér rafmagnsbíl sem kallar á það að þurfa að stinga í samband. Því er þessi „blendingslausn“ eða „hybrid“ vænlegur kostur, geta notað rafmagnið til að draga úr notkun  hefðbundinna orkugjafa. Sem slíkur er þessi nýi Toyota Yaris Hybrid örugglega valkostur fyrri marga.

Helstu tölur:

Breidd (mm): 1745 mm

Hjólhaf (mm): 2560 mm

Lengd (mm): 3940 mm

Hjólabil - framan (mm): 1518 mm

Hæð (mm): 1500 mm

Hjólabil - aftan (mm): 1514 mm

Innri lengd (mm): 1845 mm

Innri breidd (mm: 1430 mm

Innri hæð (mm): 1190 mm

Farangursrými:

5 sæti uppi: upp að sætisstöðu 286 lítrar

2 sæti uppi: upp að þaki 947 lítrar

Farangursrými: lengd 630 mm

Farangursrými: hámarks breidd 1004 mm

Vél:

3ja strokka, í línu, DOCH, slagrými 1490cc, hámarksafl 116 hö, hámarkstog 120 Nm við 3600-400 sn/mín. Þjöppun 14,0:1

Rafmótor: 59 kW – 141 Nm, rafhlaða litíum-íon, 177,6 V, 4,3 Ah.

Verð frá kr. 3.770.000 til kr. 4.440.000. Verð á reynsluakstursbílnum, Yaris Active Hybrid er kr. 3.980.000

Í boði í 9 mismunandi gerðum: Yaris Active Hybrid, Yaris Active Plus Hybrid, Yaris Elegant Hybrid, Yaris Elegant Hybrid Panorama, Yaris Style Hybrid, Yaris Style Hybrid Bi-tone, YarisStyle Hybrid Panorama, Yaris Style Premier Edition.

Gefið út þann:
31/10/20
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.