Reynsluakstur:
Honda CRV
,
árgerð
2019
Umboð:
Bernhard

Sportlegur og ljúfur og hentar mörgum

Ef þig vantar góðan og gegnheilan sportjeppa sem uppfyllir allar grunnþarfir ásamt því að vera með fullt af tækni og þægindabúnaði þá er Honda CRV Executive bíllinn!

Þegar maður stendur frammi fyrir því að reynsluaka nýjum Honda CRV sportjeppa hvers óskar maður helst? Björtu og fallegu veðri ásamt því að það væri æskilegt að hafa smá snjó! Allt þetta gekk upp þá daga sem ég var með þennan jeppa í reynsluakstrinum, og þegar kom að myndatökum á þriðja degi var vetrarveður eins og það gerist best, logn og bjartur himinn og smásnjór á jörðu.

Hér er Honda CR-V í sínu besta umhverfi. Þetta er bíll til að njóta þess að skoða umhverfið, með alla kosti góðs sportjeppa til staðar.

Honda CR-V er nokkuð merkilegur bíll. Fyrsta kynslóðin sá dagsins ljós árið 1995, og sló þá eiginlega í gagn strax í byrjun. Þetta var bíll sem sameinaði alla helstu kosti fólksbíls í miðlungsstærð, með kosti „station-bílsins“ ásamt því að fjórhjóladrifið var til staðar. Sumir segja að Subaru hafi opnað möguleikann meðal japanskra bílaframleiðenda með fjórhjóladeifnum fólksbíl, en Honda hafi bætt um betur og búið til „smájeppa“ á svipuðum forsendum.

Skemmtileg hönnun á afturenda, stór hleri sem opnast sjálfvirkt upp og lokast einnig sjálfur með því að ýta á einn hnapp.

Fimm kynslóðir og nokkuð stöðugar framfarir

Fyrsta kynslóðin byggði á sama grunni og Honda Civic að viðbættum jeppaeiginleikum. Af hálfu Honda hefur komið fram að „CR-V“ standi fyrir „Comfortable Runabout Vehicle“ eða „þægilegur bíll til snúninga, en einnig hefur því verið haldið fram að þetta standi fyrir „Compact Recreational Vehicle“ eða „þægilegur frístundabíll“, sem hljómar eiginlega betur í mín eyru.

Hliðarprófíllinn er áframhald af þeirri þróun sem CR-V hefur gengið í gegn um á liðnum árum.

Kynslóðaskipti urðu 2002 þegar önnur kynslóðin kom á markað, aðeins stærri og í hugum margra „meiri jeppi“. Þriðja kynslóðin kom síðan á markað 2007 og nú var útlitinu breytt enn meira og líkar því sem það hefur verið alveg fram til dagsins í dag. Yfirbyggingin bogmyndaðri, afturhlerinn opnaðist núna upp í stað út til hliðar, og varadekkið var ekki lengur á afturhurðinni. Fjórða kynslóðin tók síðan við árið 2012 með minni háttar útlitsbreytingu að mati margra, framendinn meira teygður fram.

En núna er Honda CR-V kominn í fimmtu kynslóð, með nýtt útlit sem er enn ákveðnara en áður, með meiri „jeppayfirbragð“ án þess að tapa þeirri sérstöðu sem hann hefur haft öll árin, að brúa bilið á milli fólksbíls og jeppa.

En hvað gerir CR-V sérstakan? Fyrir mér er það allt í hönnun bílsins. Þar sem fjórða kynslóð CR-V var meira alhliða fólksbíll með jeppaeiginleika þá, lítur nýi CR-V meira út fyrir að vera ákveðinn, sterkur og til í allt.

Með tilkomu á nýrri tækni LED-ljósa er allur umbúnaður ljósa orðinn minni og fellur betur að hönnun bílsins. Góð þokuljós eru í neðri frambrún á stuðara.

Eins og að prófa nýja leðurhanska

Það er langt síðan ég var síðast að keyra Honda CR-V, það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég tók við þessum bíl í reynsluakstur, og veðuraðstæður voru til fyrirmyndar: Vetur konungur var að banka á í fyrsta skipti af alvöru, en með stilltu og björtu veðri og smá snjóföl hér á suðvesturhorninu. Sem sagt kjöraðstæður til að prófa svona bíl.

Gott aðgengi er að framsætum og þau eru með mjög góðum stillimöguleikum, allt rafstýrt. Það er einnig gott aðgengi að aftursætum og sérlega þægilegt hve afturhurðin opnast langt fram, sem er kostur ef til dæmis þarf að koma barni fyrir í bílstól.

Fyrsta upplifunin var eins og að þegar maður fær sér nýja leðurhanska! Ha! – gæti einhver spurt – hvað meinar maðurinn með þessu? Jú – bíllinn sem ég fékk til reynsluaksturs er af Executive gerðinni, hlaðinn búnaði og þægindum, sumt af því tækni sem tekur marga daga að kynnast. Líkt og leðurhanskinn aðlagast hendinni í byrjun, þá var upplifunin af þessum bíl sú sama, með hverjum kílómetranum í akstri þá náðum við betur saman, ég og bíllinn.

Farangursrýmið er rúmgott, 561 lítrar. Til að loka hleranum nægir að ýta á litla hnappinn við hliðina á gripinu hægra megin og þá lokast hlerinn ljúflega.

Nægt vélarafl og góð fjöðrun

Strax á fyrstu metrunum var ljóst að 1,5-lítra Turbo VTEC vélin sem er 193 hestöfl er að skila fínu afli fyrir þennan bíl. Sjálfskiptingin vinnur sérlega vel með vélinni á sjö hraðastigum sem kallar fram mýkt í akstri og veitir þá tilfinningu að ávallt sé nægt afl til staðar. Mjúk fjöðrun tekst vel á við hundleiðinlegar hraðahindranir sem nóg er af í Reykjavík, jafnt og holurnar á malarveginum við Hafravatnið. En rétt er að undirstrika að CR-V er ekki eins og stóru jepparnir í akstri, enda ekki gerður til mikils torfæruaksturs. Hæð undir lægsta punkt er nú um 21cm en var 16,5cm í eldri gerðinni, sem munar miklu í akstri á ógreiðfærari slóðum ásamt því að hann er 3cm lengri milli hjóla en eldri gerðin.

Ótrúlega vel búinn og mikið af tökkum

Honda CR-V er mjög vel búinn, eiginlega svo vel búinn að tveggja daga reynsluakstur dugar ekki til að kynnast öllum kostum þessa bíls. Mér datt nú í hug á tímabili að betur hefði nú kannski farið á því að sá félaga okkar sem er að skrifa hér á vefinn okkar og starfar í dagvinnu sem flugstjóri hefði frekar tekið þennan bíl til kostana þegar ég horfði á alla þá takka sem eru til staðar, á mælaborðinu og á stýrishjólinu.

Í innanrýminu er allt er hreint, hagnýtt og stuðlar beinlínis að slökun við aksturinn. Margvíslegur öryggisbúnaður aðstoðar ökumanninn við aksturinn, þar á meðal akreinaaðstoð,  árekstrarviðvörun ef ekið er of nálægt næsta bíl.

„Vinnuumhverfi“ ökumannsins er til fyrirmyndar, sérstakleg var ég ánægður með staðsetninguna á gírskiptistönginni, sem situr hátt uppi og þar með nýtist miðjustokkurinn betur. Helstu stillihnappar eru til staðar í stýrishjólinu, þar á meðal til að kveikja á hitun stýrishjólsins, sem er frábær kostur á köldum degi hér á landi. Þar eru einnig hnappar til að svara símanum.
Snertiskjárinn er notaður til að stjórna helstu aðgerðum, þar birtist einnig kort leiðsögukerfis og eins þegar sett er í bakkgír birtist umhverfið fyrir aftan bílinn á skjánum.

Meðal búnaðar sem er í þessum bíl (Executive) má telja upp eftirfarandi:

19“ álfelgur, þaklúga (opnanleg), gegnsær skjár í sjónlínu, hiti í stýri, hiti í aftursætum, handfrjáls aðgangur að farangursrými, rafstýrð stilling á ökumannssæti með minni. LED þokuljós að framan, þakbogar, skyggt gler, leðuráklæði, bakstuðningur fyrir ökumann og farþega, inniljós (ökumaður/farþegi -gólf/handfang), lykillaust aðgengi og ræsing afísing í þurrkum, BSI blindbletta- og hliðarumferðaviðvörun, virk beygjuljós. SRS loftpúði hjá ökumanni og farþega, hliðarloftpúðar og gluggapúðar, hemlalæsing og hemlaaðstoð, rafstýrð handbremsa sem virkjast sjálfkrafa rökkurskynjari fyrir lýsingu, tímastillir fyrir háljós á og af (fyrir heimkomu og heimanaðakstur), LED dagljós, LED aðalljós með hreinsibúnaði, rafstýrðir stillanlegir upphitaðir speglar, VSA stöðugleikaaðstoð, TSA eftirvagnsaðstoð, HSA brekkuðstoð, lausagangsstöðvun, FCW árekstursviðvörun, LKAS akreinastilling, LDW akreinaraðstoð, RDM rásvörn, ISL vitræn hraðatakmörkun, AHA lipurðarstýring, DWA loftþrýstingsviðvörunarkerfi, ESS neyðarstöðvunarmerki, CMBS radartengd árekstrarvörn, TSRS umferðarmerkjagreining, þjófavörn og vélarlæsing, neyðarhnappur 112, ECON stilling, stillanlegt fjölnotastýri, tau áklæði á sætum, hiti í framsætum, 60/40 niðurleggjanlegt aftursæti, hæðarstilling á ökumannssæti, mjóbaksstuðningur fyrir ökumann, tölvustýrð loftkæling, upplýsingaskjár, hraðastillir/snjallhraðastilling, aðgerðarhnappar í stýri, bluetooth™ handfrjáls búnaður fyrir farsíma, aukatengi í mælaborði, stjórnborði og skotti, viðaráferð á mælaborði, farangurshlíf, halogen þokuljós að framan, regnskynjari í þurrkum, fjarstýrðar rúður og inndraganlegir hurðaspeglar (lykilstýring), tvöföld tölvustýrð loftkæling, fjarlægðarskynjarar (framan og aftan), bakkmyndavél, baksýnisspegill með glýjuvörn, LSF vitræn hæghraðastilling, flipaskipting í stýri, leðurklætt stýri, leðurklædd gírstöng (aðeins í beinskiptum bílum), Honda CONNECT með Garmin leiðsögukerfi: 7“ snertiskjár, AM/FM/DAB stafrænt útvarp, Apple CarPlay®, Android Auto™, netútvarp, Aha™ appið og netvafra*, 2 x USB tengi fyrir framsæti, 2 x USB tengi fyrir aftursæti (aðeins fyrir hleðslu), 9 hátalarar.

Þessi langa upptalning undirstrikar enn og aftur að búnaðurinn er yfirdrifinn.

Góður „vinnustaður“ ökumanns

Svo við snúum aftur að samlíkingunni við leðurhanskann, þá var ég alls ekki viss um það þegar ég settist undir stýri í þessum vel búna bíl hvort mér myndi líka þetta. En líkt og þegar hanskinn hitnar og leðrið mýkist, þá var það sama uppi á teningnum hvað mig varðaði. Eftir smá stund var eins og ég væri búinn að sitja þarna langa stund, allir hlutir voru innan seilingar og ekkert sem gæti verið betra. Sem sagt hinn besti „vinnustaður“.

Stílhrein og falleg hönnun á mælaborði undirstrikar hve öll hönnun bílsins er val úr garði gerð.

Gírskiptistöngin situr hátt og framarlega á miðjustokknum, sem gefur möguleika á fullt af nothæfum rýmum, sem hönnuðir Honda hafa nýtt vel með því að búa mörg hagnýt geymslurými, þar sem pláss er fyrir símann og annað smálegt sem fólk hefur með sér í ökuferðum. Með því að renna loki á miðjustokknum aftur þá opnast rými þar fyrir neðan sem er með tengingum fyrir síma og önnur slík tól auk 12 V innstungu.

Gott pláss

Í heildina er gott pláss í CR-V. Rúmt er um ökumann og farþegar í framsætum, og sama á við um aftursætin. Bíllinn sem við vorum með í reynsluakstri er fimm manna en það er hægt að fá „Lifestyle“ gerðina sem sjö manna. Farangursrýmið er dágott og hefur raunar verið svo í öllum gerðum CR-V. Í dag er plássið 561 lítrar sem rúmar vel tvö golfsett eða ferðatöskur, allt eftir því hver notin eru.

Miðjustokkurinn er í raun tveggja hæða. Sé plötunni aftan við bollahöldurnar rennt aftri kemur í ljós rúmgott hólf með ýmsum tengimöguleikum fyrir síma og snjalltæki auk 12V straumúttaks.

Í heild er frágangur á öllu til fyrirmyndar, sætin styðja einstaklega við líkamann í akstri, og mjúk fjöðrunin ásamt góðum sætum gera aksturinn í heild þægilegan.

Mikil hátækni

Japanir taka alvarlegaa á tækninni og Honda CR-V er þar enginn eftirbátur og er hæfur til að gera það aðgengilegt fyrir alla. Það er sérstakt USB-tengi fyrir snjallsíma í neðra hólfinu í miðjustökknum, með HDMI-tengi við hliðina á henni og tveimur USB-tengjum að aftan.

Vélin, 1,5 lítra VTEC túrbó sem er 193 hestöfl hæfir þessum bíl mjög vel og kom vel út í þessum reynsluakstri, bæði hvað varðar afl og eyðslu.

Kerfið í bílnum á að geta notað Apple CarPlay til að taka á móti raddskipunum með Siri, en ekki reyndi á það hjá mér, því engan á ég síam frá Eplinu.. En það var fljótlegt að tengja símann í gegnum Bluetooth. Allir rofar og hnappar eru til staðar í stýrinu – eða á mælaborði sem auðvelt að ýta, lyfta eða snúa.

Líkt og í mörgum öðrum bílum í dag þá birtast helstu upplýsingar varðandi hraða og leiðsögukerfi í sjónlínu ökumanns, þar sem þeim er varpað upp á litla glæra plötu. Þetta er nokkuð sem bæði eykur öryggi og ánægju í akstrinum.

Honda CR-V – lipur sportjeppi sem hentar mörgum vel.

Niðurstaða

Niðurstaðan eftir þennan reynsluakstur er að þetta er bíll sem kom æ meira á óvert því lengur sem var ekið. Ég er þess næsta fullviss að mér hafi ekki tekist að kalla fram alla þá eiginleika sem þessi bíll getur veit þeim sem hann nota.

Þetta er bíll sem uppfyllir þarfir flestra, jafnt einstaklinga og sem fjölskyldubíll. Það munu margir fagna því að allir geta verið með sinn síma í sambandi á ferðinni, það er nægt pláss fyrir alla og farangurinn líka – hvað þarf meira?

Ég hafði það á orði þegar ég settist undir stýri í þessum vel búna bíl var ég ekki viss um hvort mér myndi líka þetta. Reyndin er hinsvegar sú að því lengra sem var ekið þá varð ég ánægðari með bílinn og það var því með semingi að honum vart skilað á mánudagsmorgni. Og svo aftur sé vikið að samlíkingunni við leðurhanskann þá var hann fatinn að „smellpassa“ eftir þennan reynsluakstur!

Myndir: Jóhannes Reykdal

Gefið út þann:
16/1/19
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt
Snjall, sexý, lipur
Bæversk snilld
Ættfaðir fjölskyldunnar

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.