Reynsluakstur:
Mercedes Benz EQC
,
árgerð
2020
Umboð:
Askja
Tæknin, akstursþægindin, aflið
Rúðuþurrkur

Rafmagnaður Mercedes Benz EQC

Askja kynnti fyrir skömmu nýjustu afurð Mercedes Benz, rafmagnaðan EQC. Margir hafa beðið eftir þessum tæknilega bíl og við hjá Bílablogg.is engin undantekning þar.

Segja má að þessi nýi bíll hafi slegið í gegn frá fyrsta degi enda þurftum við að bíða dágóðan tíma eftir að röðin kæmi að okkur í reynsluakstri. Það var á haustlegum rigningardegi að við fórum í magnaðan reynsluakstur á Mercedes Benz EQC. Það er ekki ofsögum sagt að við vorum hrifin af bílnum. Þetta tæknitröll skoraði nánast allsstaðar toppeinkunn og tikkaði í flest box samanborið við þá bíla sem við berum hann saman við.

Alltaf flottur

Askja býður bílinn í þremur megin útgáfum. Pure, Progressive og Power. Reynsluakstursbíllinn var af Progressive gerð en með slatta af aukabúnaði og framleiddur í signature seríu þar sem einungis 1886 bílar eru framleiddir. Mercedes býður svo fjölbreyttan lista aukabúnaðar þar sem sníða má bílinn nákvæmlega eftir þínum þörfum.

Mercedes Benz EQC er gríðarlega huggulegur bíll.
Öflugar felgurnar sérstaklega hannaðar með tilliti til loftmótstöðu.

Afl og orka

EQC 400 4Matic er fjórhjóladrifinn jeppi sem skilar 408 hestöflum (300kW) beint í æð. Rafhlaðan geymir um 80 kW/h og hægt er að hlaða rafhlöðuna með allt að 110 kw CCS hraðhleðsluporti og tekur um 35 mínútur að hlaða 80% með þeim hætti. Eyðsla er í kringum 19,7 til 20,8 kW/h á hverja 100 kílómetra. Uppgefin drægni skv. WLTP staðli er um 410 kílómetrar. Þessar tölur eru miðað við bestu aðstæður hverju sinni. Rafhlaðan sem er vökvakæld er höfð inni í ramma sem skynjar högg eða árekstur og slekkur á orkuveitunni samstundis. Rafmagnsbíll eyðir svo meiri orku í kaldara loftslagi og margt getur spilað inn í.

Raunveruleg eyðsla skv. EVDB gagnagrunninum er þó mjög nálægt því sem framleiðandinn gefur upp. Þar er talað um 360 kílómetra drægni með eyðslu upp á 22 kW/h á hverja 100 kílómetra.  Það samsvarar um 2,5 lítra eyðslu eldsneytis á hverja 100 kílómetra.
Glæsileg innréttin, frábær sæti og sérlega gott að aka bílnum.

Upplifunin

Að okkar mati kemur þessi Mercedes Benz EQC eins og elding inn á rafbílamarkaðinn. Tæknin, akstursþægindin, aflið, innréttingin, aðgengi og útlit fær allt toppeinkunn hjá okkur. Tesla X er amerískur keppinautur sem rómaður hefur verið fyrir einfaldleika og fágun og er meðal annars með einfaldasta stjórnkerfi sem sést hefur í rafbílabransanum.

Tveir 10.25 skjáir gefa allar upplýsingar um kerfi bílsins.
Þar gæti sex ára barn auðveldlega komist í gegnum allt stjórnkerfið á nokkrum mínútum á meðan til dæmis risaskjár Mercedes er aðeins flóknari og þarf örlítið meiri tíma til að ná leikni á stjórntækin.

Mercedes Benz EQC er í engu frábrugðinn annarri hágæða framleiðslu Mercedes. Eina sem við gátum fundið að voru klunnalegar þurrkur bílsins sem skiluðu leiðinlegu þurrkuhljóði þegar þær strukust yfir framrúðuna en þær voru ekki í neinu samræmi við allt annað í þessum bíl.

Snjall með eindæmum

Með Mercedes me, appinu getur þú slegið inn brottfarartíma þannig að bíllinn er heitur eða kaldur þegar þú sest inn í bílinn á þeim tíma sem þú valdir til brottfarar.  Með MUBIX kerfinu sem er raddstýrt stjórnkerfi þar sem þú getur talað við bílinn, má hækka eða lækka í loftkælingunni, kveikja á leiðsögukerfinu eða stýra hljómflutningstækjum.  Stjórnkerfi bílsins tengjast síðan leiðsögukerfinu.  Kerfið fær upplýsingar um hringtorg eða beygjur og sendir þær upplýsingar í stjórnkerfi bílsins sem hægir á sér og undirbýr þig fyrir það sem framundan er ef kveikt er á leiðsögukerfi bílsins.  

Rúmgott skott og hlerinn rafdrifinn.
Skynvædd hraðatakmörkun, sjálfvirki neyðarhemlun og akreinavarar gera bílinn nánast sjálfkeyrandi enda ekki langt í langt með þá tækni hjá bílaframleiðendum.
Reynsluakstursbíllinn var einn af 1886 bílum framleiddum.

Bíllinn er þéttur, liggur ótrúlega vel, haggast ekki í beygjum og er algjörlega hljóðlaus. Við aukna inngjöf heyrir þú ekki þetta algenga „hviss“ hljóð eins og í flestum rafmagnsbílum. Mercedes fylgir sínum línum vel og vandlega í hönnun. EQC hefur fengið sitt lítið af hverju því góða sem finnst í öðrum gerðum Mercedes en samt sem áður er hann enginn samsuða.  

Hefbundin uppsetning sætisstillingar, höfuð, herðar, bak og fætur.
Það er til dæmis ekki hægt að segja að hann sé bara breyttur GLC því það er hann ekki. EQC er byggður utan um rafhlöðu sem er á milli drifanna neðst í bílnum. Það gerir bílinn einstakan í akstri og þar sem þyngdarpunkturinn er mjög neðarlega.
Fjölbreyttar akstursstillingar gera bílinn hentugan fyrir ýmsar aðstæður.

Borinn saman við einn helsta keppinautinn, Jaguar I-pace má segja að EQC sé aðeins íhaldssamari á meðan að Jagúar er meira ögrandi í útliti.  Bílarnir eru svipaðir að flestu leyti hvað afl, rafhlöðustærð og eiginleika varða.

Pláss afturí og aðgengi er með því besta sem gerist í bíl í þessum stærðarflokki og hurðir opnast vel.

Fjölbreyttur búnaður

Mercedes Benz EQC er vel búinn bíll. Pure útgáfan kemur með 19 tommu álfelgum, bremsuaðstoð þar sem bíllinn tekur völdin til að koma í veg fyrir árekstur, forhitara og betra hljómkerfi. Progressive bíllinn kemur með 20 tommu álfelgum, 360 ° myndvél og lyklalausu aðgengi. Power útgáfan er síðan með 21 tommu AMG felgum, innréttingapakka og útlitspakka ásamt meðal annars íslensku leiðsögukerfi, LED stemningslýsingu að innan, snjallljósakerfi, nálgunarvara að framan og aftan, rafdrifin framsæti með minni, rafdrifnum skotthlera, stafrænu mælaborði (2 x 10,25 tommu) og loftfrískun.

Mercedes býður síðan gnótt fjölbreytts aukabúnaðar að auki við ofangreindan sem viðskiptavinir geta valið úr og þannig sniðið bílinn algjörlega fyrir þeirra þarfir.

Helstu tölur:

Verð frá 9.290.000 kr.

Vél: 300 Kw og 80 Kw rafhlaða

Hestöfl: 408

Newtonmetrar: 760 Nm.

0-100 k á klst: 5,1 sek.

Hámarkshraði: 180 km/klst.

CO2: 0 g/km

Eigin þyngd: 2.495 kg.

L/B/H 4761/1884/1623 mm

Eyðsla bl ak: 19,7 – 20,8 Kwh/100 km

Gefið út þann:
11/10/19
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.