Löglegt og rafmagnað Go-Kart

Það var árið 1959 sem að hinn upphaflegi Austin Mini kom fram á sjónarsviðið með sitt einstaka útlit sem setti sitt mark á sjöunda, áttunda og jafnvel níunda áratuginn. Hann var framleiddur í yfir fimm milljón eintökum og útlitsbreytingar hans voru litlar sem engar allan þanntíma. Núverandi MINI hefur verið á markaðnum síðan 2001 og aftur án mikilla útlitsbreytinga. Hann hefur hins vegar alltaf verið þróaður áfram og fengið að þroskast. Nú er hann kominn á sitt fyrsta rafmagnaða þroskastig.

Það fer ekkert á milli mála þegar þú skoðar MINI Cooper SE að hann er MINI. Sterkur fjölskyldusvipurinn sem hefur verið innblástur annarra og stærri bíla, eins og Countryman og Clubman, er sterkur og auðþekkjanlegur. Hringlaga ljósin og fallegt grillið gefa þessum einstaka smábíl frábært útlit.

MINI Cooper SE er sannarlega smábíll. Þegar ég sat undir stýri gat ég hæglega teygt mig í aftursætið. Ef handleggirnir mínir hefðu verið aðeins lengri hefði ég getað teygt mig í innkaupapokana í skottinu.

Það magnaða við MINI Cooper SE er hins vegar að hann virðist vera stærri að innan en þú heldur þegar þú sérð hann fyrst. Að því leitinu til líkist hann örlítið töfratösku Mary Poppins. Þegar þú hefur sest niður í hann og sett á þig beltið, þá áttar þú þig á því að það er gífurlega langt í framrúðuna og hina hliðarrúðuna. Ég fékk tvo félaga mína til að sitja með mér í bílnum, bæði frammi í og aftur í og var fínt pláss fyrir okkur. Ekki misskilja mig samt, MINI er lítill bíll, en hann er samt „stórasti“ litli bíll sem ég hef prufað.

Gott dæmi um hvernig plássið í MINI Cooper SE nýtist er í skottinu sem er ekkert minna heldur en í bensínbílnum. Það er meira að segja pláss undir flötu gólfinu til að geyma viðgerðarsett fyrir dekkin og alla rafmagnskapla sem þú þarft með bílnum.


Í akstri er frábært að vera á MINI Cooper SE. Hann steinliggur á jörðinni. Svo virðist sem þyngdarlögmálið sem á við hann sé ekki það sama og á öðrum bílum. Hjólin eru höfð langt út í hverju horni. Það gefur bílnum frábæra gripfestu og er ekkert mál að halda löglegum hámarkshraða í gegnum hringtorg og krappar beygjur.


Rafmagnsmótorinn er 184 hestöfl, 135kW og togar hann 270NM. Það þýðir á mannamáli að hann er snöggur, hraður og kraftmikill. Einn gír og hviss bamm búmm hann rýkur af stað á öllum ljósum. Hröðunin síðan á millihraða, eins og t.d. frá 30km/klst uppí 60km/klst, er hrein unun. Ekkert mál og auðveldara en að drekka vatn eða vera ósammála meirihlutanum í borginni.





Það sem eykur gæði akstursins mest af öllu er hin frábæra hönnun og samsetning innanrýmis MINI Cooper SE. Efnisval til fyrirmyndar og fullt af litlum smáatriðum sem hefur verið pælt í.


Allir takkar MINI Cooper SE virka í báðar áttir og eru velti takkar. Ef þig langar að ýta niður til að ræsa bílinn þá gerir þú það. En ef þú ert lyfta upp týpan þá er það ekkert mál heldur. Meira að segja takkarnir fjórir fyrir ofan baksýnisspegilinn eru velti takkar. Fyrir mig sem hef gaman af tökkum, þá er þetta þess virði til að fá sér MINI Cooper SE.

Besta hönnunin er hins vegar ljósahringurinn í kringum afþreyingarkerfið. Þennan hring notar MINI samsteypan til þess að tala við þig. Þegar þú hækkar hitann þá sést það á hringnum. Eykur við blásturinn úr miðstöðinni og hann verður meira hvítur allan hringinn.



Lokaorð
MINI Cooper SE mætir á götuna sem næstum því fullkomin útgáfa af hinum æðislega þriggja dyra smábíl sem MINI Cooper er. Sterkt tungumál hönnunar og arfleiðar sögu MINI skilar sér vel í þessum þétta og vel sett saman pakka. Hann er praktískur sem innanbæjar snattari og í styttri ferðir út á land. Ég mæli með MINI Cooper SE fyrir alla þá sem eru að leita sér að litlum rafmagnsbíl sem hefur útlitið svo sannarlega með sér. Taktu hann rauðan, gulan, bláan eða breskum kappaksturs grænum. Skelltu svo toppnum og speglunum í svart og passaðu að taka L útgáfuna til að fá Harman Kardon hljóðkerfið til að blasta tónlistinni.
Svo geturðu verið alveg viss um það að unglingur mun kaupa hann af þér eftir tíu ár þegar þú ert búinn að fá nóg af því að spæna af stað á rauðum ljósum.
Ef þér lýst á’ann, kaupt’ann!
Helstu tölur:
Verð frá 3.980.000 (Jan 2020)
Verð á sýndum bíl: 4.990.000
Afl: 184 hö, 135kW
Tog: 270NM
Hröðun 0-100: 7.3sek
Stærð rafhlöðu: 33kW
Drægni: 233km (WLTP)
L/B/H: 3.845/1.727/1.432mm
Heildarþyngd: 1.365kg