MYNDBAND NEÐST Í ÞESSARI GREIN.
Það kemur ekki á óvart að Peugeot skuli hafa valið ljón í merki sitt – því þegar við prófuðum nýjan Peugeot E-5008 GT frá Brimborg, þá komumst við fljótt að því að undir mildu yfirbragðinu leynist kraftmikil og tæknivædd orka sem bíður eftir að vera vakin til lífsins.

Aðalsmerki Peugeot hefur í gegnum tíðina verði snjöll og skemmtileg hönnun. Þessi bíll er engin undantekning.
Þessi nýi sjö sæta rafbíll hentar sérstaklega vel fyrir fjölskyldur sem þurfa mikið rými, en án þess að fórna aksturseiginleikum, þægindum eða stílhreinni hönnun.

E-5008 er afar vel búinn í grunninn eins og Brimborg býður bílinn.
Ríkulegt úrval og búnaður
Peugeot E-5008 fæst með tveimur rafhlöðustærðum og kemur í tveimur útfærslum einnig – Allure og GT. Við fengum GT-útgáfuna með 97 kWh rafhlöðu, en bíllinn reyndist afar skemmtilegur í akstri:
- 73 kWh rafhlaðan skilar allt að 502 km drægni (WLTP) og er með 210 hestöfl og 157 Nm tog.
- 96,9 kWh Long Range rafhlaðan gefur allt að 668 km drægni, með auknu afli eða um 230 hestöfl og 169 Nm tog.
Þetta gerir E-5008 að einstaklega fjölhæfum bíl, þar sem hægt er að velja á milli meiri drægni fyrir lengri ferðir, eða hógværari útgáfu með enn hagkvæmari rafhlöðunýtingu.
Orkunotkunin er í báðum tilfellum í kringum 18–18,6 kWh/100 km, sem er einstaklega gott fyrir þetta stóran og rúmgóðan bíl.

Mælaborðið er mubla útaf fyrir sig. Hér sjáum við 21 tommu fljótandi mælaborðsskjáinn sem sýnir allar upplýsingar á einfaldan og flottan hátt.
Hleður þú í vinnu eða heima?
Það skiptir miklu máli með rafbíl hversu hratt þú getur hlaðið – og Peugeot E-5008 skartar framúrskarandi hleðslumöguleikum:
- 160 kW hraðhleðsla (CCS): hleður úr 20% í 80% á aðeins 35 mínútum.
- 11 kW heimahleðsla (3 fasa) tekur frá 4 klst. og 50 mín með minni rafhlöðu og um 6 klst. og 30 mín með þeirri stærri.
Margir hlaða eflaust á nóttunni og á meðan sefur þú vært. Peugeot E-5008 er með varmadælu og þú getur auðveldlega forhitað bílinn fyrir notkun.
Það gerir hann hentugan fyrir bæði daglega notkun og langferðir – án þess að þú þurfir að velta hleðslunni mikið fyrir þér.






Tæknin vinnur með þér
Það sem gerir GT-útgáfuna einstaklega eftirminnilega í akstri er hversu háþróuð akstursaðstoðarkerfin eru.
Við gátum nánast látið bílinn sjá um aksturinn í þungri umferð – skynvæddi hraðastillirinn með Stop & Go virkni bregst snurðulaust við breytilegu flæði og heldur bílnum mjúklega í takt við umhverfið.

Farangursýmið er stórt, stærra og enn stærra með öll sæti niðurfelld. Þú getur aðlagað bílinn eftir hentugleikum sem eykur notagildið til muna.
Akreinastýringin, sem er hluti af Drive Assist Plus HIA 2.0 kerfinu, er einnig sérstaklega vel útfærð og heldur bílnum á réttri braut af mikilli nákvæmni.
Þetta verður að teljast eitt af bestu asksturs aðstoðarkerfum sem við höfum prófað í þessum verðflokki.

Fínt pláss í öftustu sætaröðinni þó svo að þar fari betur um börn eða unglinga. Hægt er að renna sætum í miðjuröð fram og til baka en þau eru á sleðum.

Ljónið getur öskrað
Það er líka gaman að geta valið á milli mismunandi akstursstillinga. Í Sport-stillingu þyngist stýrið og viðbrögðin verða mun skarpari.
Akstursstillingar: Það er eins og bíllinn taki á sig nýja persónu – þú ert í fullkominni ró í „normal”, en þegar þú skellir honum í „sport” tekur ljónið völdin.
Þetta gerir GT-útgáfuna að skemmtilegum bíl fyrir ökumenn sem vilja meira en bara að komast frá A til B.

Virkilega fallegur og rúmgóður bíll á hagvæmu verði. Og þú getur valið þann sem þér hentar best, Allure eða GT útgáfur. Svo er dásamlegt að aka honum.
Fyrir hverja?
- Peugeot E-5008 er draumabíll fyrir:
- Fjölskyldur með mörg börn – sveigjanleg sætaskipan og stórt skott.
- Fólk sem ferðast mikið – hvort sem er vegna vinnu eða áhugamála.
- Áhugafólk um rafbíla sem vill ekki missa af búnaði eða þægindum.
- Ferðafólk sem þarf mikinn farangur og langa drægni.
- Bíllinn rúmar allt að 1815 lítra í farangursrými (með öll aftursæti niðri), og hefur 20 sm veghæð sem gerir hann mjög vel fallinn til að keyra um íslenskt landslag.

Hægt er að varpa ýmsum upplýsingum á milli skjásvæða og undir stærri skjánum má sjá skjá með snertitökkum þar sem þú getur sniðið virkni að þínum þörfum.
Snjalltækni og innrétting
GT er með 21″ HD víðmyndarskjá, i-Toggles snertihnöppum og þráðlausri símahleðslu. Allt virkar þetta vel og skjárinn vel í meðaltali hvað varðar næmi og svörun, allt fallega hannað og notendavænt.
Það bætir enn við lúxusinn að vera með svartan topp í innanrými, sólgardínur í afturhurðum, rafdrifinn afturhlera og PIXEL LED aðalljós.

Nánast sama hvar á er litið – hönnunin sker sig úr hvað aðra bíla á markaðnum varðar. Takið eftir línum í ljósum sem teygja sig niður stuðarann.
Niðurstaða – Peugeot E-5008 GT
Peugeot hefur tekist að búa til bíl sem sameinar það besta úr öllum heimum: rúmgóður, glæsilegur, sparneytinn, aflmikill og tæknilega vel búinn.
Það er erfitt að finna annan bíl í þessum flokki sem slær svona jafnvægi á milli fjölskylduvæns notagildis og akstursánægju fyrir ökumanninn.

Myndband
Helstu tölur:
Verð frá: 7.070.000 – 8.370.000 kr. (reynsluakstursbíll af GT gerð, long range á 8.370.000 kr.)
Afl: 210/230 hö.
Tog: 157/169 Nm.
Rafhlaða: 73 kWh/97 kWh.
Drægni: 502/668 km. skv. WLTP.
Dráttargeta: 1000 kg.
Lengd/breidd/hæð – mm: 4.791/1.895/1.694
Myndataka – myndband og ljósmyndir: Radek Werbrowski
Klipping á myndbandi: Pétur R. Pétursson
Prófun: Radek Werbrowski, Pétur R. Pétursson og Matilda Werbrowski