Og hvað á bíllinn að kosta?

253
DEILINGAR
2.3k
SMELLIR

Því er ekki að neita að undanfarin misseri hefur magn bílaauglýsinga á samfélagsmiðlum stóraukist. Þegar Bland reið á vaðið með smáauglýsingar, ekki ólíkar þeim sem menn muna eftir frá því í kringum áttunda og níunda áratuginn hefur bílasala færst talsvert til kaupenda og seljenda beint.

Ekki skrítið því sölulaun eru umtalsverð og lágamarkssölulaun nokkuð há í dag. Það er því freistandi að reyna að selja sjálfur og notast við tæknina í þeim efnum en menn geta auðveldlega gengið frá sölunni sjálfri á netinu.

Verðlagningin

Það verður að segjast að verðlagning bíla á Íslandi hefur verið svolítið eins og að reka fingur upp í norðanvind á Sæbrautinni. Bílar virðast vera með mun hærra ásett verð á notuðum bílum umboðanna.

Tökum dæmi. Toyota RAV4, árgerð 2021, ekinn um 95 þús. kílómetra er verðlagður um 5.2 milljónir hjá Toyota í Kauptúni. Staðgreiðsluafsláttur er sagður í kringum 5% samkvæmt upplýsingum frá sölumanni notaðra bíla hjá Toyota. Hins vegar er uppítökuverð bílsins ekki nema um 4.2 til 4.4, allt eftir því hvernig bíllinn lítur út, þjónustusögu og umhirðu.

Þessi sami bíll fékkst á talsvert niðursettu verði á 5.4 milljónir í febrúar í ár en ásett verð var þá um 6.2 milljónir.  Aftur ruglast kúnnar í ríminu þegar svo kemur inn í dæmið 60 ára afmælis afsláttur Toyota í ár. Hvers virði er þessi bíll? Á hvað er hægt að selja hann?

Ég giska á að söluverðið sé eitthvað nálægt uppítökuverðinu sem Toyota gefur upp eða um 4.4 milljónir í það hæsta. Bílkaupendur eru nefnilega ekki alltaf fífl.

Til að undirstrika þessa skoðun mína sé ég samskonar, yngri bíl eða 2022 árgerð til sölu á Facebook – nákvæmlega eins búnaður en 20 þús. km. meira ekinn á 4.6 milljónir.

Annað dæmi er símtal við Bílaland BL. Þar leitaði ég eftir söluverði á Tucson Classic árgerð 2022, ekinn 100 þús. kílómetra. Eitthvað um 4.5 milljónir kvað sölumaðurinn.

Á hvað selst bíllinn þá? Eitthvað í kringum fjórar kannski. En hvert er uppítökuverðið? Það er um 3.2 – við kannski náum að selja svona bíl á raunvirði um 3.5 sagði sölumaðurinn. Söluverðið breyttist sem sagt um tæpa milljón á innan við þremur mínútum í símanum.

Auðvitað kostar það umboð að eiga bíla úti á plani sem ekki seljast nógu hratt – en er þetta ekki orðið of mikill munur?

Hvaða verð er verðið?

Ásett verð, uppítökuverð, söluverð, skiptiverð, tilboðsverð, staðgreiðsluverð – allt eru þetta mismunandi verð á bílum á Íslandi. Nafngiftirnar eru talsvert ruglandi og þegar þú dílar við bílasala finnst þér þú vera að hlusta á einhvern sem er að lesa úr Tarotspilum frekar en að reyna að útskýra mismun þessara verða. Margir bílasalar eru meira en slyngir.

Tökum dæmi um notaðan bíl sem ásett verð er í kringum 3 milljónir kr. Sem sagt þá erum við að tala um verðið sem seljandinn færi fyrir bílinn?  Nei, það er söluverð, væntanlega aðeins lægra því allir vilja gera „góða díla“. Segjum sem svo að söluverðið væri þá í kringum 2.75 milljónir kr.

Þú ert staddur í bílaumboði, býður þennan sama bíl upp í notaðan bíl í umboðinu. Þá lækkar verðið frá ásettu verði um 25% og þú færð kannski 2.250.000 kr. fyrir bílinn upp í notaðan hjá umboðinu – þá á eftir að taka tillit til þess að bíllinn standist söluskoðun sem segja má að sé eins og að skoða eitthvað fyrirbæri í smásjá.

Svo kemur bíllinn úr söluskoðun. Tveggja ára bíll sem ekið hefur verið Reykjanesbrautina þrisvar til fjórum sinnum í viku fékk þann dóm að lakkið væri illa farið. Já, þetta var sagt við seljandann í deild notaðra bíla sem hafði umboð fyrir bílinn. Lakkið sem sagt dugar ekki í tvö ár miðað við venjulegan akstur. Tvær Kringlubeyglur, dekk farin að slitna að framan, tvö Isofix lok vantar í aftursæti. Aftursæti slitið eftir barnabílstól. Uppítökuverð 1.900.000 kr.

Af hverju ekki bara, sumarverð, sólarverð eða slydduverð? Af hverju er ekki hægt að hafa bara verðið á bílnum eins og hann kostar miðað við að þú kaupir hann og greiðir að fullu?

Þá komum við að þessu með söluþóknunina. Það var um korters vinna sem kostaði mig um 87.0000 kr. vegna sölu á Toyota Yaris 2017 árgerð. Ég skipti við annan á nýrri Yaris og sá greiddi hærri söluþóknun en ég. Það þýðir að bílasalinn fékk líklega um 200.000 kr. fyrir að ganga frá skiptum á þessum tveimur bílum. Korters vinna í mesta lagi. Bílarnir auglýstir á vef umboðsins og www.bilasolur.is. Vel í lagt finnst ykkur ekki?

Sitja einstaklingar eftir í brjálaða bílaleiguæðinu?

Það sem meira er að stór hluti af notuðum bílum á Íslandi eru bílaleigubílar, meira eknir, fleiri ekið þeim, verr eknir oft á tíðum og meira slitnir. Það virðist ekki hafa nein áhrif. Söluverð þeirra bíla er jafnvel hærra en þegar um bíl í einkaeigu er að ræða.

Tökum dæmi. Þetta var síðasta haust. Notaður Hyundai Tucson, bílaleigubíll, ekinn 88 þús. kílómetra. Ásett verð: 5.450.000 kr. Tilboðsverð: 4.650.000 kr. Ég skoðaði bílinn vikuna áður en þá var verðmiðinn á bílnum 4.950.000 kr. Þið sjáið svindlið berum augum. Þetta var illa hirtur bíll, slitnar felgur, húdd grjótbarið og sitthvað af litlum dældum hér og þar. Árgerð 2022 – um tveggja ára bifreið. Bíll þessi var í eigu umboðs sem einnig rekur bílaleigu.

Bílaumboðin selja notaða bíla sína með mismunandi hætti. Til dæmis greiðir þú engin sölulaun setjir þú bíl upp í bíl í eigu Brimborgar.  Hjá Bílalandi, bílasölu tengdri BL eru lágmarks sölulaun um 90.000 kr. Toyota er með svipaða söluþóknun. Á almennum bílasölum eru sölulaun í kringum 90.000 kr. að lágmarki en eftir því sem bíllinn er dýrari greiðir þú hlutfallsleg þóknun tengda verði bílsins. Sú hlutfallsstala liggur í kringum 4-5% eftir bílasölum.

Bílgreinasambandið hefur komið upp vef www.raunverd.is sem hjálpar til að finna út raunverulegt verð bílsins á tilteknum tíma að teknu tilliti til ýmissa þátta. Þetta er framför á íslenskum bílamarkaði og hjálpar viðskiptavinum að átta sig á hvers virði bifreiðin er.

Að fara með bíl í söluskoðun er nauðsynlegt að margra mati. Ef þú velur fyrirtæki eins og Frumherja eða Aðalskoðun skoða þeir bara það sem þeir sjá á bílnum. Það á reyndar við undirvagn einnig. Þú veist hins vegar ekki neitt um vélina og vélarhluti í slíkri skoðun. Bíllinn gæti þess vegna verið með ónýta heddpakkningu en fengið fullt hús stiga í söluskoðun.

Veldu þér verkstæði og óskaðu eftir skoðun á bíl ef þú vilt vera viss um ástand hans.

Skoðaðu verðið vel áður en þú tekur ákvörðun um bílakaup.

Myndir: Pétur R. Pétursson, teknar á bílasölum í Reykjanesbæ og tengjast fréttinni ekki beint.

Svipaðar greinar