ID.5 GTX, flottur og aflmikill fjölskyldusportari frá Volkswagen

Tegund: VW ID.5 GTX

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Akstursupplifun, pláss og hönnun
Veghljóð
229
DEILINGAR
2.1k
SMELLIR

Það var enginn smá spenningur í bílaáhugamönnum þegar ID.4 kom fyrst á markað hér á landi. Við hjá Bílabloggi vorum þar engin undantekning. Enda kom í ljós í okkar fyrsta reynsluakstri á bílnum að þar var skemmtilegur og hagnýtur bíll á ferðinni. Volkswagen bætir í, og bjóða nú nýja útfærslu sem þeir kalla ID.5.

Gullfalleg lína í þessum nýja VW ID.5 GTX bíl.

Eldri bróðirinn

ID.5 er nánast sami bíll og ID.4, eini munurinn er kúpubakslag ID.5 sem gerir hann enn sportlegri en eldri bróðirinn og er sá nú bara nokkuð rennilegur samt.

Við fengum til prufu splunkunýjan ID.5 GTX, fjórhjóladrifinn bíl og við vorum líklega þeir fyrstu sem óku þessum bíl út af planinu hjá Heklu – allavega með þeim fyrstu.

Framendinn er alveg eins og á eldri bróðir hans, ID.4.

Við renndum eiginlega strax út úr borginni enda langaði okkur að finna aflið, upptakið og hvernig bíllinn liggur á vegi – við vitum nú þegar að ID.4 er lipur og þægilegur í borgarumferð og ætluðum ekki að keyra niður Laugaveginn og kaupa okkur ís í Valdísi í þetta skiptið.

Stórar felgur prýða bílinn en þær gefa honum sterkan svip.

Þægilegur í akstri

VW ID.5 er mjög þægilegur akstursbíll og hann liggur vel á vegi. Þú finnur ekkert upp í stýrið þrátt fyrir að aka í hjólförunum á gatslitnum Vesturlandsveginum.

Reynsluakstursbíllinn var á 20 tommu felgum en þær eru ívið breiðari að aftan á þessari gerð bíla.

Það gerir grip bílsins enn betra og ekkert tog fer til spillis þegar stigið er á orkugjöfina. Hröðun er ágæt þó svo að ekki sé hægt að bera saman við til dæmis Tesla Y en það eru fáir fjölskyldubílar sem ná slíkri hröðun.

Og þegar þessi hröðun kemur til tals veltir maður henni fyrir sér – hversvegna þarf venjulegur fjölskyldubíll að komast frá 0-100 km/klst. á innan við fimm sekúndum?

ID.5 GTX er með fleiri hestöflum og aldrifi.

Fjörðunin passleg

Höldum aðeins áfram að skoða aksturseiginleikana. ID.5 er þyngstur neðst líkt og flestir nýir rafbílar. Það gerir að verkum að slíkur bíll legst síður í beygjurnar og virkar á mann eins og klettur á götunni.

Og einmitt þannig er ID.5, hann svínliggur. Fjöðrun ID.5 GTX er eitthvað mýkri en á afturdrifna ID.4 í minningunni. Allavega fannst okkur fjöðrunin í þessum nýja ID.5 GTX alveg ágæt.

Skíðalúgan getur komið sér vel ef þú stundar skíði eða snjóbretti.

ID.5 GTX er með drifi á öllum hjólum. Um er að ræða tvo rafmótora, annan á aflrás að framan og hinn á aftari aflrásinni. Saman gefa þessir mótorar bílnum um 300 hestöfl og 460 Nm af togi.

Hægt er að velja um fjórar mismunandi akstursstillingar, Eco, Comfort, Sport og Traction – allt eftir því hvernig þú ert að nota bílinn hverju sinni.

Grunnútgafa ID.5 GTX er full af lúxus og svo getur þú bætt við lúxusinn ef þú vilt meira. Í PRO útgáfunni er í rauninni allt skrautið sem þú vilt hafa í svona bíl.

Þú ert með skynvæddan hraðastilli, umferðaskiltalesara, neyðarhemlun, hita í framsætum, hita í stýri og varmadælu – sem er mjög öflugur kostur í rafmagnsbíl.

Stærri skjár og uppfært margmiðlunarkerfi gefa meiri upplýsingar og þægilegri stýringu.

Forhitar bílinn í köldu veðri

Varmadælan nýtir hita rafhlöðunnar til upphitunar bílsins og sparar því rafmagn. Bílnum fylgir nettenging og allar uppfærslur frá verksmiðju koma yfir netið. Þú situr bara inni í stofu og horfir á sjónvarpið meðan bíllinn er að uppfærast.

Á köldum vetrarmorgnum getur þú tímastillt ræsingu á miðstöð bílsins, hita í sætum og afþýðingu framrúðu.

Og bíllinn er í hleðslu á meðan þetta gerist þannig að þú ert ekki að eyða dýrmætu rafmagni í upphitun í akstrinum.

Sætin í ID.5 eru sérlega þægileg, halda vel við og maður situr hátt í bílnum.

Fyrsta þjónustuskoðun rafbíls frá Heklu er tveimur árum eftir afhendingu eða eftir 100 þús. kílómetra akstur, hvort sem kemur fyrst. Engin smurning, ekkert vesen – bara rúðupiss og þú ert alltaf klár.

Hagnýtur bíll

VW ID.5 er sérlega hentugur bíll. Farangursgeymslan er flennistór eða um 550 lítrar og hana má stækka umtalsvert  með niðurfellingu sæta. Nú, svo má opna litla lúgu í miðjunni og stinga þar inn skíðum eða spjóti – allt eftir því hvaða sport þú stundar.

Tvö USB C tengi afturí og stillingar fyrir miðstöð fyrir farþega í aftursæti.

Tilvalinn fyrir barnafólk með börn á öllum aldri, Isofix fyrir barnabílstólinn og nægt pláss fyrir tvö börn, eitt í miðju og annað við hurð. Gott útsýni er út um glugga bílsins og sá sem við prófuðum var með stóru glerþaki sem hægt er að draga fyrir ef vill.

Ferðast eða skutlast

VW ID.5 er ekki síður skemmtilegur ferðabíll enda með rúmlega 500 kílómetra drægni skv. WLTP staðlinum. Í raun getum við sagt að svona bíll sé að fara um 360 kílómetra að sumri við venjulega notkun og um 280-300 kílómetra að vetri til við samskonar notkun.

Að sjálfsögðu er eyðsla orkunnar háð mörgum þáttum – eins og aksturslagi, hita, vindi og vegyfirborði.

Hér er fótapláss til fyrirmyndar en höfuðpláss er ívið minna en í ID.4 vegna kúpubakslags bílsins. Samt var nóg höfuðpláss fyrir fullorðinn og hávaxinn einstakling í aftursætinu.

Okkar ráð er að þú akir rafmagnsbílnum þínum nákvæmlega eins og þú ókst bensín- eða dísilbílnum þínum.

Ef eitthvað má finna að nýjum og skemmtilegum ID.5 er það helst til of mikið veghljóð. Ekkert sem truflar en við tókum eftir því. Og það virðist vera að bílaframleiðendur séu kannski ekki of mikið að velta þessu fyrir sér enda margir nýir bílar sem við höfum prófað sem heyrist talsvert inní í akstri.

Ætli sé mikið mál að einangra aðeins meira til að koma í veg fyrir veghljóð?

Pantaðu þér einn

Okkar mat er að ID.5 GTX er glæsilegur og aflmikill fjölskyldusportari sem nýtist breiðum hópi notenda – barnmörgu fjölskyldufólki, hjónum sem stunda golfið og skreppa í bústaðinn í miðri viku.

Hann er líka flottur. Innanrýmið er rúmgott og efnisval allt hið besta.

Sætin eru þægileg og halda vel við bakið og eftirtektarvert er hversu gott er að sitja í aftursætunum.

Glæsilegur fjölskyldusportari, bíll sem hentar breiðum hópi.

Nú er bara að að skella sér inn á vef Heklu hér og velja sér einn nýjan ID.5 GTX.

Helstu tölur:

Verð frá 7.890.000. (Reynsluakstursbíll GTX kr. 9.190.000 (aldrif)).

Rafhlaða: 77 kWh.

Drægni: allt að 534 km. skv. WLTP.

Hestöfl: 299.

0-100 km á klst. 6,3 sek.

Hámarkshraði: 180 km/klst.

CO2: 0 g/km.

L/B/H: 4599/1852/1615

Eigin þyngd: 2.224 kg.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar