Hvað er erfiðast við að vera bifvélavirki?

138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Já, þetta er stór spurning sem einhver varpaði fram á veraldarvefnum. Svörin voru mörg og er kannski ágæt hugmynd að taka saman það helsta. Ef þú, lesandi góður, ert bifvélavirki þá er gott að vita að margt í starfinu virðist vera erfitt á heimsmælikvarða. Heimsmælikvarða bifvélavirkja.

Flestir nefna samskiptin við viðskiptavinina en um þá hlið „erfiðleikanna“ hefur undirrituð áður fjallað og krækjur eru hér neðst á greinar um óþolandi hegðun viðskiptavina á bílaverkstæðum.

Erfitt að vera síðhærður bifvélavirki

Svona svarar einn stóru spurningunni um hvað sé nú erfiðast við að vera bifvélavirki:

„Það er að vera bifvélavirki með sítt hár. Þegar maður er að vinna undir bíl, liggjandi á legubrettinu og hárið flækist í hjólunum á því. Það er ógeðslega vont!“

Hárið getur heldur betur flækst fyrir mönnum og jafnvel flækst í ótrúlegustu hlutum. Mynd/Unsplash

Símahasar á verkstæðinu

„Þegar maður er undir einhverjum bílnum og án þess að hafa hugmynd um það rekst maður í farsímann í skyrtuvasanum og síminn hringir sjálfur í borðsímann á verkstæðinu

Enginn annar er á staðnum þannig að maður snarhættir því sem maður er að gera, klöngrast undan bílnum og rekur höfuðið í eitthvað. Nær svo loks að skrifborðinu, drullugur upp fyrir haus og þrífur símtólið móður og másandi.

Það eina sem maður heyrir er bergmálið af orðum manns sjálfs. Þá rífur maður fnæsandi farsímann upp út skyrtuvasanum og sér hvernig í öllu liggur. Þetta er ekki gott.“

„Mér finnst einna erfiðast þegar ég verð vitni að því að kollegar manns geta verið bölvaðir skúrkar. Að staðaltýpan er því miður raunveruleg. Þá á ég við gauka sem féfletta viðskiptavini sem hafa ekkert vit á bílum. Ég hef unnið á verkstæðum þar sem menn segja kúnnanum að það verði að gera við hitt og þetta til að koma bílnum gegnum skoðun en svo er það bara kjaftæði. Sumir kollegar hafa verkið svo miklir skíthælar í viðskiptum við auðtrúa fólk að ég bara skil ekki hvernig þeir geta sofið á nóttunni.“

Mynd/Unsplash

Öll dýru verkfærin

Enn einn svarar á þessa leið:

„Sá fjöldi rándýrra verkfæra sem maður þarf að eiga er eiginlega út í hött. Verkfæraskápurinn einn og sér kostar helling. Þetta þarf að vera sterkt og þola allan fjandann. Segjum að skápurinn eða kistan kosti 10.000 dollara þá má eiginlega tvöfalda þá upphæð og þar er komið verðið á verkfærunum í skápnum. Og svo mætti lengi telja.

Svona er vonandi ekki umhorfs á nokkru verkstæði. Er það nokkuð? Mynd/Unsplash

En það bjánalega í þessu öllu saman er að oft þegar maður þarf mjög sérhæfð verkfæri getur maður stundum búið þau til sjálfur. Og það kostar bara brotabrot af því sem alvöru verkfæri kostar. En svona er þetta. Og maður þarf sko að passa upp á verkfærin sín!“

Mynd/Unsplash

Veturinn getur verið subbulegur

„Þá áratugi sem ég vann sem bifvélavirki fannst mér alltaf algjört ógeð að vinna undir bílum að vetrarlagi með drullugan snjóinn samanþjappaðan undir öllu.

Af götunni kemur skítugur snjórinn með alls konar ógeð og það er verra að fá þetta framan í sig. Mynd/Unsplash

Svo byrjaði maður að vinna undir bíl og snjórinn fór að bráðna.  Grábrún drullan draup framan í mann, upp í mann, í hárið og já, alls staðar var þetta sull úr salti, tjöru, klaka og drullu. Svo stóð maður upp og fann gumsið renna niður bakið á manni innan undir vinnugallanum. Þetta fannst mér ömurlegt.“

Boltar, rær, ryð og rusl

Menn nefndu virkilega margt og óþarfi að fara í smáatriði. En smáatriðin eru mörg eins og ryðgaðir boltar sem eru pikkfastir og drasl sem er svo hönkslitið að erfitt er að koma auga á það eða ná taki á því. Jú og svo er það nú kúnstin að muna hvaðan hlutirnir voru teknir og koma þeim eða nýjum hlutum á réttan stað!

Þessu skylt:

Ekki segja þetta við bifvélavirkjann

Þegar viðskiptavinir segja ekki alla söguna

Margt ber fyrir augu bifvélavirkjans

Hvað segið þið kæru lesendur? Er eitthvað átakanlega erfitt sem þið viljið deila með öðrum lesendum? Endilega látið vaða á Facebookspjallinu okkar hérna.

Svipaðar greinar