Vel heppnað málþing í Reykholti um gamla bíla

142
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Vel heppnað málþing í Reykholti um gamla bíla

Margir skemmtilegir eldri bílar komu í heimsókn í góða veðrinu

Þeir voru ófáir gömlu eðalvagnarnir sem skörtuðu sínu fegursta í blíðunni í Reykholti laugardaginn 4. júní 2022. Í Snorrastofu var nefnilega haldið málþing og var umfjöllunarefnið gamlar bifreiðar, varðveislugildi þeirra og sögulegt samhengi.

Blásið var til þessa málþings að hluta vegna afmælis Tryggva Konráðssonar, sem býr í Reykholti og hefur í mörg ár unnið að uppgerð og varðveislu gamalla bíla. Meðal annarra voru níu bílar í eigu Tryggva í röð á bílastæðinu við Reykholtskirkju þegar gestir komu á staðinn.

Megintilgangur málþingsins var að fjalla um þau bílasöfn sem eru á landinu í dag og forsögu þess að farið var að huga að því að geyma gamla bíla og varðveita þá.

Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, setti málþingið, og fór nokkrum orðum um starfsemina og aðstöðuna í Reykholti.

Hann kynnti síðan til leiks Snorra Jóhannesson bónda á Augastöðum sem var dagskrárstjóri og stjórnaði samkomunni.

Fyrstur á mælendaskrá var Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður: Bifreiðar í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hann fór í nokkuð löngu máli yfir þróun mála á meðan hann var í forsvari fyrir Þjóðminjasafnið, en lítið hefur borið á bílum safnsins í seinni tíð.

Næstur var sá sem þetta skrifar og fjallaði stuttlega um upphaf bílaaldar á Íslandi fyrstu fimm áratugina. Stiklaði á stóru og dró upp nokkur minningabrot frá þessu tímabili.

Síðastur á mælendaskrá fyrir kaffihlé var Bjarni Guðmundsson sem fjallaði um Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri.

Meðan á kaffihléi stóð fóru margir út í góða veðrið og skoðuðu gömlu bílana á bílastæðinu, en aðrir fóru í Snorrastofu og gæddu sér á nýbökuðum vöfflum og kaffi.

Eftir kaffihlé byrjaði Andri Guðmundsson og fjallaði ítarlega um Samgöngusafnið á Skógum, allt var þetta fróðlegt.

Þeir Bjarni Þorgilsson og Rúnar Sigurjónsson frá Fornbílaklúbbi Íslands voru næstir og fjölluðu á ágætan hátt um varðveislu og verkkunnáttu varðandi gamla bíla.

Sverrir Ingólfsson fjallaði síðan á skemmtilegan hátt um samgönguminjasafnið að Ystafelli, og sýndi okkur nokkur dæmi um gamla bíla sem hafa gengið í endurnýjun lífdaga hjá þeim á safninu.

Síðastur ræðumanna var Skúli G. Ingvarsson frá Fornbílafélagi Borgarfjarðar, og sagði frá tildrögum þess félags og hver staða þess væri í dag.

Í upphaflegri dagskrá hafði verið gert ráð fyrir því að Sólveig Jónasdóttir myndi kynna fyrir gestum Samgöngusafnið í Stóragerði, en af einhverjum ástæðum var hún ekki á staðnum og því misstu gestir af því að fræðast um þetta ágæta safn

Margir skemmtilegir bílar á staðnum

Veðurguðirnir léku við þá sem komu á þetta málþing í Reykholti og því voru örugglega mun fleiri gamlir og glæsilegir bílar komnir á staðinn.

Beint fyrir neðan kirkjuna mátti sjá nokkra bíla sem eru í eigu Tryggva Konráðssonar í Reykholti, mjög vel gerðir upp og bera vitni um gott handverk eigandans.

Hér á eftir kemur myndasyrpa frá Reykholti á laugardaginn.

Kynnir málþingsins í Reykholti var Snorri bóndi Jóhannesson á Augastöðum, annáluð refaskytta, en hann sótti þennan bíl vestur um haf fyrir nokkrum árum og keyrði drjúga vegalengd til að koma honum í skip.
Fallegur bíll sem var hér í hópi svipaðra eðalbíla að vestan.
Nokkrir aldnir hópferðabílar komu í Reykholt. Næst á myndinni er hin landsfræga „Soffía“ sem á einmitt rætur að rekja til staðarins.
Sá „guli“ er Ford Consul árgerð 1955 í eigu Tryggva í Reykholti.
Nokkrir flottir Benz-bílar sem Tryggvi í Reykholti hefur gert upp.
Þessi flotti „Vípon“ R-350 var gangsettur sérstaklega til að koma í heimsókn í Reykholt á laugardaginn.
Einstakt og einfalt „hjólhýsi“ – byggt á jeppakerru, var meðal þess sem sjá mátti í Reykholti á laugardaginn.

Svipaðar greinar