Rafbíll frá VW í sömu stærð og Passat
- 2023 árgerð Volkswagen Aero B sést í reynsluakstri
- Volkswagen mun brátt gera ID.Vizzion hugmyndabílinn að veruleika, sem gæti verið sá rafbíll, byggður á MEB-grunninum, sem er með lengsta drægni
Við höfum öðru hvoru fjallað um hugmynd Volkswagen að nýjum meðalstórum rafdrifnum fólksbíl, sem þeir hafa kallað ID Vizzion.
Hugmyndabíllinn hefur verið sýndur á bílasýningum, til dæmis í Los Angeles, en núna er framleiðandinn kominn skrefinu lengra með bíl sem byggður er á þessum grunni, því sá bíll er kominn í reynsluakstur.

Auto Express bílavefurinn birti nefnilega fyrir nokkrum dögum njósnaljósmyndir af nýja Volkswagen Aero B í prófunum á þjóðvegum.
Þessi rafmagnaði stóri hlaðbakur verður frumsýndur árið 2023, og mun keppa við Tesla Model 3 og virka sem rafmagnsvalkostur við Passat.
Byggður á ID.Vission
Aero B er framleiðsluútgáfan af ID.Vizzion hugmyndabílnum sem var afhjúpaður á bílasýningunni í Genf 2018 – og á sýningunni sögðu forráðamenn Volkswagen að fullbúinn bíll gæti ekið allt að 600 km á einni hleðslu.

Miðað við núverandi rafhlöðutækni Volkswagen, þá ætti þessi bíll auðveldlega að ná þessari drægni, sérstaklega þegar litið er til lítillar loftmótsstöðu í hönnun Aero B. ID.4 Life sem var frumsýndur í Munchen á dögunum, er búinn 77kWh rafhlöðu vörumerkisins og 201 hestafls rafmótor að aftan, getur farið allt að 520 kílómetra á hleðslunni.
Aero B mun líklega nota sömu rafhlöðu, rafmótora og MEB grunn og ID-bílar Volkswagen.
Nefið á bílnum er tiltölulega stutt og lágt; svæðið í kringum C-bitann er breitt og hátt og ökumaðurinn situr ansi framarlega, þar sem farþegarými og yfirbygging hefur verið aðlöguð til að búa til pláss fyrir rafmótorinn á afturöxlinum.
Aldrif hugsanlega í pípunum
Við getum einnig búist við fjórhjóladrifinni útgáfu (hugsanlega GTX-vörumerki) af Aero B, með rafmótor á báðum öxlum og samsett afköst 295 hestöfl og 310 Nm tog. Sama aflrás er þegar fáanleg í ID.4 GTX.
Væntanlega mun Volkswagen setja seinna á markað stationútgáfu af Aero B líka eins og ID. Space Vizzion hugmyndabíllinn sýndi á bílasýningunni í Los Angeles 2019.
Sá hugmyndabíll var einnig með tveggja mótora drifrás sem framleiðir heil 335 hestöfl.

Það á eftir að koma í ljós hvort þessi aflrás komist í framleiðslu. ID.X hugmyndabíllinn (sem kom fram á undan ID.4 GTX), var með þessi afköst, en það var svo skorið niður í 295 hestöfl þegar bíllinn fór í framleiðslu, svo það er líklegt að Volkswagen muni gera það sama með Space Vizzion.
Að innan er búist við að Aero B muni deila sama samhæfða stafræna mælaborðinu og 10 tommu upplýsingaskjá og aðrar MEB gerðir Volkswagen.
Það lítur sömuleiðis út fyrir að það sé nóg pláss fyrir farþega í aftursæti, þar sem há staða afturendans, sem sést á þessum njósnamyndum, sýnir glögglega aftursæti bílsins og fótarýmið.
(Frétt á vef Auto Express)
Umræður um þessa grein