Opel kynnir rafmagns Astra-e þar sem vörumerkið undirbýr að hætta með brunavélar

  • Þessi gerð Astra-e sem aðeins notar rafmagn frá rafhlöðum verður þriðji rafbíll vörumerkisins

Opel/Vauxhall mun hefja sölu á rafhlöðuútgáfu af Astra árgerð 2023 sem mun hraða áætlunum bílaframleiðandans um að verða rafmagnsmerki.

Full rafmagnaða útgáfan af nýju kynslóð Astra, sem á að heita Astra-e, mun fjölga bílum frá fyrirtækinu sem aðeins nota rafhlöður í þrjá.

Opel selur nú þegar rafmagnsútgáfur af sportjeppanum Mokka og litla Corsa bílnum. Vörumerkið selur einnig rafdrifna sendibíla.

Opel sagði í júlí að það verði hreint rafmagnsmerki í Evrópu árið 2028.

„Þetta mun vera í fyrsta sinn sem við bjóðum upp á bæði tengitvinnbíla og rafhlöðu rafmagnsbíla byggða á sömu gerð,“ sagði Uwe Hochgeschurtz, forstjóri Opel, á miðvikudag á netkynningu.

Hochgeschurtz, fyrrverandi forstjóri Ford, VW og Renault, átti á miðvikudaginn sinn fyrsta starfsdag sem forstjóri Opel. Hann tekur við af Michael Lohscheller, sem er nú forstjóri VinFast Global, bílaarms víetnömsku samsteypunnar Vingroup.

Með því að bæta við rafhlöðuknúnu útgáfunni við mun nýja Astra fá breiðasta fyrirkomulag á drifrásum allra Opel gerða.

Hinn nýi Astra verður fyrsti bíll Opel til að bjóða upp á rafmagn frá rafhlöðum eingöngu, tengitvinnbíla og hefðbundnar bensín- og dísilvélar.

Hægt verður að panta bílinn frá og með september með tveimur tengitvinnvalkostum; annaðhvort 222 hestöfl eða 148 hestöfl, auk 1,2 lítra þriggja strokka bensínvélar með tveimur aflstigum og 1,5 lítra fjögurra strokka dísilvél. Verðið byrjar á 22.465 evrum í Þýskalandi.

Víðtækara úrval af aflrásum hjálpar Astra að keppa betur við bílinn sem verið hefur leiðandi í þessum stærðarflokki lengi, Volkswagen Golf, sem býður einnig upp á tengitvinnbúnað.

VW selur ekki rafmagnsútgáfu af Golf. Rafmagnsútgáfa Astra mun keppa við VW ID3.

Astra hlaðbaknum verður fylgt eftir með stationbíl seint á árinu 2022, sagði Opel.

Engar frekari upplýsingar voru fáanlegar um rafbílinn, þar á meðal grunninn eða akstursviðið á rafmagninu.

Brunavélargerðir Astra, þar á meðal tengitvinn-blendingurinn, verða byggðar á EMP2 grunni Stellantis sem er deilt með ökutækjum eins og nýjum Peugeot 308.

Hins vegar var grunnurinn ekki hannaður fyrir hreinar rafknúnar drifrásir, sem leiddi til vangaveltna um að rafmagns Astra verði byggður á væntanlegum e-VMP grunni, rafhlöðuaðlögun á EMP2 sem mun fyrst birtast í næstu kynslóð Peugeot 3008 sportjeppans, sem áætlað er að frumsýna árið 2023.

Framleiðsla með brunavél og tengitvinngerð Astra hefst í haust í verksmiðju Opel í Ruesselsheim í Þýskalandi en fyrstu afhendingarnar eiga að hefjast í ársbyrjun 2022.

Núverandi Astra er smíðaður í Gliwice í Póllandi og Ellesmere Port á Englandi.

Nýi Astra hlaðbakurinn er 4 mm lengri en fyrri gerðin með 4.374 mm, en hjólhafið er 13 mm lengra, 2.675 mm, sem eykur innra rýmið í bílnum. Farangursrými er einnig aukið og er nú 422 lítra en var 370 lítra í fyrri útfærslu.

Astra er annar bíll Opel á eftir nýja Mokka sem er með stafræna stjórnborðinu Pure Panel. Langa flata mælaborðið er með 10 tommu skjái - miðjuskjá og mælaborðið staðsett hlið við hlið með samþættri loftræstingu. Raunverulegir hnappar eru enn fyrir sumar aðgerðir, til dæmis miðstöð og kælingu.

Virkar öryggiseiginleikar fela í sér aðgerð sem Opel segir að leyfi „hálfsjálfstæð“ akreinaskipti.

Það fer eftir tæknilýsingu, en bíllinn mun einnig hægja sjálfkrafa á sér í kröppum beygjum og í sjálfskiptri útgáfu mun búnaður stöðva bílinn í umferðinni án afskipta ökumanns.

Meðal valfrjáls búnaðar er vörpun upplýsinga í sjónlínu ökumanns og ný ljós með 84 ljósdíóðum í hverju framljósi sem geta brugðist við umferð á móti með því að slökkva á einstökum perum til að draga sjálfkrafa úr glampa.

(Automotive News Europe)

Sett inn
1/9/2021
í flokknum:
Bílaframleiðsla

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaframleiðsla

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.