Með varalit í árekstrarprófunum: Dúkkur sem bera aldurinn vel

Árið 2000 var ný rannsóknarstofa fyrir árekstrarprófanir tekin í notkun hjá sænska bifreiða- og vélaframleiðandanum Volvo. Sannarlega væri áhugavert að fá að fylgjast með því sem þar fer fram í einn dag eða svo.

Ekki er nú hlaupið að því en þetta risastóra fyrirtæki á hrós skilið fyrir allt það fræðsluefni sem framleitt er fyrir almenning - til að sýna áhugasömum hvernig hlutirnir ganga fyrir sig!

Þannig „fór“ undirrituð í ferðalag og skoðaði hvernig árekstrarprófanir eru gerðar.

Einn Volvo í klessu á hverjum degi

Á þessum tuttugu árum á rannsóknarstofunni hefur að meðaltali einum Volvo á dag verið fórnað í þágu öryggisprófana. Það er að segja, að daglega er Volvo klessukeyrður í árekstrarprófunum.

Þar er líkt nákvæmlega eftir raunverulegum árekstrum og í stað þess að undirrituð reyni að lýsa þessu með milljón orðum mæli ég frekar með að fólk horfi á þetta stutta en hnitmiðaða myndband:

Þarna mátti m.a. heyra í nöfnu minni, Malin Ekholm, er veitir öryggissetri Volvo forstöðu (e. Safety Centre) og er býsna vel inni í málum. Áhugavert er að hún segir öryggisstaðla Volvo vera langt umfram það sem lög og reglur geri ráð fyrir. Að vera skrefi á undan hefur á þessum vettvangi ekki talist neitt annað en gott.

Til dæmis kynnti Volvo þriggja punkta öryggisbeltið, eins og eru í bílum í dag, á sjötta áratug síðustu aldar. Uppfinningamaðurinn og verkfræðingurinn Nils Bohlin á heiðurinn af öryggisbeltinu, þ.e. þriggja punkta beltinu.

Eftir rannsóknir sem náðu til 28.000 árekstra í Svíþjóð hafði Bohlin sýnt fram á að öryggisbeltið virkaði heldur betur og þá keypti Volvo þessa frábæru uppfinningu af honum fyrir himinháa upphæð en einkaleyfið og upphæðina má sjá hér.

Öryggisbelti hafa verið staðalbúnaður í Volvo frá árinu 1959. Má þá rifja upp að hér á landi var bílbeltaskylda ekki sett í lög fyrr en 1981.

Þarna gerist þetta allt

Rannsóknarstofan og allt það sem tilheyrir Volvo Safety Centre er staðsett skammt frá Gautaborg í Svíþjóð. Tvær árekstrarprófunarbrautir eru innnanhúss og er sú styttri sveigjanleg og 108 metra löng en hin er 154 metra löng og bein.

Á þeirri lengri eru bílar árekstrarprófaðir á allt að 120 kílómetra hraða.
Veggurinn sem „tekur á móti“ bílunum er færanleg mön, ef svo má að orði komast, og vegur hún 850 tonn. Einhvers konar loftpúðar eru notaðir til að færa báknið.

Utanhúss eru hólar, hæðir, brekkur og undirlagið af öllum gerðum. Þar eru t.d. stöðugleikaprófanir framkvæmdar.

Í góðri umfjöllun frá 2007 um Volvo Safety Centre kemur m.a. fram að hver prófun taki fimm daga: Þrír dagar fara í undirbúning, að tengja ótal skynjara og að gera árekstrardúkkurnar (e. Crash Dummies) tilbúnar.

Einn dagur fer í að ganga úr skugga um að allt virki og svo er það prófunardagurinn sjálfur með öllu sem því fylgir.

Auðvitað má vera að eitthvað hafi breyst því greinin er fjórtán ára gömul, en áhugaverð engu að síður!

Árlega eru um 450 árekstrarprófanir gerðar hjá Volvo og að jafnaði eru þær tvær á dag. Ber að geta þess að undirbúningur fyrir hverja þeirra (burtséð frá því sem kom fram í greininni sem vísað var í) tekur um tvær vikur.

Tugir háhraðamyndavéla eru notaðar og að hverri prófun koma um 25 sérfræðingar. Bílarnir eru málaðir í ljósum og möttum appelsínugulum lit, en það hefur reynst besti liturinn og áferðin fyrir myndavélarnar sem gegna mikilvægu hlutverki við prófanirnar.

Sérstakt teymi hefur það hlutverk að fara á vettvang og skoða bíla eftir árekstur til að geta líkt eftir aðstæðum á sem nákvæmastan hátt. Það er gríðarlega mikilvægur þáttur fyrir prófanir framtíðarinnar:

Engar venjulegar „dúkkur“

Dúkkurnar sem notaðar eru við prófanirnar eru af öllum stærðum og gerðum. Þær eru langt frá því ódýrar! Þær geta kostað allt að milljón sænskra króna stykkið, og reiknið þið nú!

Það er grunnverðið og svo á eftir að gera útfærslur á dúkkunum og kostnaðurinn verður meiri í samnræmi við það.

Á hverjum degi eru notaðar um 20 dúkkur og eru þær mjög „duglegar“ í vinnunni, eins og Lotta Jakobsson útskýrir svo ágætlega í þessu myndbandi:

Árið 2003 var í fyrsta sinn notuð „ólétt dúkka“ en auðvitað er brýnt að tryggja öryggi ófæddra barna eins og hægt er. Enginn annar bílaframleiðandi hafði hugsað út í þetta (í það minnsta ekki framkvæmt) fyrr en Volvo tók af skarið.

Dúkkurnar eru líka með „innyfli“ ef svo má segja. Til að sjá mögulega áverka við prófanirnar er, svo dæmi sé tekið, eftirlíking af rifbeinum í dúkkunum - sveigjanleiki og styrkur „beinanna“ er áþekkur beinum okkar mannfólksins.

Dúkkur í stað lifandi eða látinna.

Fyrstu árekstrarprófunardúkkurnar munu hafa verið framleiddar fyrir bandaríska flugherinn. Það var árið 1949 sem Strapp ofursti lét útbúa dúkku til að nota við árekstrar- og höggprófanir.

Gifsmót var tekið af flugmanni orrustuþotu svo hlutföll og þyngd dúkkunnar væru eins raunveruleg og unnt væri.

Fyrsta dúkkan; gerð eftir hugmyndum Strapp ofursta.
Var þetta býsna góð hugmynd hjá karli því fram að þeim tímapunkti höfðu prófanirnar verið heldur óhugnanlegar:

Lík voru notuð en einnig sprelllifandi sjálfboðaliðar (hvað ætli þeir hafi til saka unnið? SJÁLFboðaliðar…). Má líka nefna lifandi dýr og steindauða sandpoka. Sem betur fer heyrir þetta allt sögunni til.

Það er mikill kostur að dúkkurnar bæði endast og eldast vel og eru margar þeirra að nálgast eftirlaunaaldurinn. Stundum þarf að endurnýja útlimi en það er eðlilegt með tilliti til starfs þeirra sem getur verið býsna harkalegt og skellirnir margir.

Dúkkurnar klæðast venjulegum fötum og skóm; allt þarf að vera sem raunverulegast. Þá komum við að þessu með varalitinn! Hvaða bull var þetta í fyrirsögninni?

Það var nefnilega ekkert bull - annars hefði það ekki átt heima í fyrirsögn!

Eins og oft má sjá, til dæmis í myndbandinu hér að ofan og á meðfylgjandi myndum, eru dúkkurnar með varalit og voða vel til hafðar. Það er þó alls ekki hugsað út frá fegurðarsjónarmiði. Nei, það er til að sjá hvar varirnar snerta loftpúðann, þegar það á við.

Varalitur er sannarlega ekki það eina málningarkyns sem makað er á dúkkurnar því það eru margir fletir sem þarf að sjá hvar loftpúði og andlit snertast: Hvar er ákoman, þ.e. hvar lendir bíllinn á fyrirstöðu, og hvaða loftpúðar blása út og svo framvegis.

Að mörgu þarf að huga og megum við, akstursunnendur, þakka fyrir hversu miklar framfarir hafa orðið í öryggisbúnaði og öryggisprófunum bíla.

Eitt er víst: Aldrei mun ég gjöra gys að árekstrarprófunardúkkum, útliti þeirra og klæðaburði. „Hitti“ ég slíka dúkku einhvern tíma, verð ég vonandi með hatt á höfði því ég mun taka ofan fyrir henni.

Sett inn
21/3/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.