Þeir eru misjafnir eins og aðrir bílar „pikkararnir“ eða pallbílarnir eins og þeir heita víst. Eftir mikið grams klastraði ég saman lista yfir þá tíu pallbíla sem margir bílablaðamenn virðast sammála um að séu vondir og mislukkaðir.

Ameríkanar virðast öðrum fremur dá pallbíla og eins og undirrituð hefur áður komið inn á þá er hreinlega magnað að ekki sé pallbíl að finna á neinum ríkisfánanna. Ekki ennþá að minnsta kosti. Þar af leiðandi eru þeir nokkrir amerískir á listanum því í Vesturheimi eru framleiddar svo margar gerðir og ekki allar góðar.

Hér verður talið niður frá tíu og byrjað á þeim skásta í flokki vondra:

10. Nissan Titan

Nissan Titan er á mörgum þessara lista og þá einkum 2004 árgerðin. Segja menn hún hafi verið hrútléleg og að hana beri að forðast eins og pestina. Til dæmis hafi olíuleki verið tíður af afturdrifi vegna lélegra pakkdósa. Innkallanir voru víst fjölmargar og samanlagt hafa þær átt sinn þátt í að gera pallbílinn að einum þeim óáreiðanlegasta á sínum tíma.

Nissan mun þó hafa spilað vel úr vondum spilum og komist bærilega frá þessu öllu án þess að glata viðskiptavinum alveg.

9. Dodge Dakota

2006 var slæmur „árgangur“ hjá Dodge Dakota, segja menn. Akkilesarhæll bílsins munu hafa verið bremsurnar. „Dodge Dakota verður minnst sem bílsins sem stoppaði ekki þegar brýn þörf var á,“ segir á vefnum MindYourDollars.com og ekki eru það nú fögur eftirmæli.

Á öðrum vef, Motorstell.com, segir að skiptingin í 2004 árgerðinni hafi verið óáreiðanleg. Hafi það, ásamt bremsuvandræðunum og viðbögðum (þ.e. skortur á þeim) orðið Dodge Dakota að aldurtila. Hann var nú samt framleiddur frá 1987 til 2011.

8. Chevrolet Avalanche

Mun 2005 árgerðin vera öðrum árgerðum verri, að mati glúrinna spekinga. Ýmislegt miður skemmtilegt mátti skrifa á villur í tölvukerfi bílsins. Eitt dæmi sem er gott að taka er að hraðamælirinn í fyrstu árgerðunum (framleiddur 2002-2013) sýndi mun lægri hraða en raun bar vitni. Það er vesen.  

Eitt má Chevrolet Avalanche þó eiga og það er að ljótur er hann!

7. Mercedes-Benz X-Class

Þá einkum 2018 árgerðin sem sagt er að hafi fengið lélega umsögn bæði hjá bílablaðamönnum og eigendum. Stærsti gallinn var að margra mati að verðið var hátt og ef þetta átti að vera „vinnubíll“ eins og algengt er með pallbíla þá þótti bíllinn of fínn til þess að vera vinnubíll.

Nissan Navara? Já, eiginlega en hann heitir samt Mercedes-Benz

Lúxus og pallbíll virðast ekki fara saman eða í það minnsta ekki eiga upp á pallborðið hjá markhópnum. Framleiðsla hófst árið 2017 og lauk 2020. Það segir kannski sitt.

Þetta er ættfaðirinn: Nissan Navara.

6. Ford Explorer Sport Trac

Sé litið framhjá því augljósa atriði að bíllinn var hvorki fugl né fiskur (jeppi né pallbíll) þá var 2001 árgerðin alræmd fyrir að vera óstöðug á veginum (en ekki hvar?) og við þau leiðindi bættust fleiri leiðindi. Til dæmis var algengt að kælivökvi læki af bílnum og fleira smávægilegt en óþolandi þegar saman safnast.

Bíllinn sá var í framleiðslu í heilan áratug (2000-2010)

5. Lincoln Blackwood

Þessi virðist hafa verið algjör skandall, ef eitthvað er að marka umsagnir. Framleiðsla hófst sama ár og henni lauk; 2002.  

Það sem sá bíll gerði af sér var einfaldlega það að vera ljótur. Ég er sammála. Ljótur var hann.

4. Hummer H2 SUT

Stór bíll með afar lítinn pall og gat lítið sem ekkert flutt enda pallurinn eins og kjánaleg gluggasylla í mesta lagi. Auk þess var dráttargetan algjört frat að mati manna.  H2 SUT var framleiddur frá 2003 til 2009 og seldust í heildina 153.000 kvikindi á Bandaríkjamarkaði.

3. Honda Ridgeline

Hann var þótti eitthvað mislukkaður greyið og er 2006 árgerðin er fræg að endemum. Ekki þykir hún einungis gott dæmi um vondan pallbíl heldur gott dæmi um vont ökutæki yfir heildina litið af því sem komið hefur frá Honda. Algjört stílbrot, segja sumir en Honda er býsna vinsælt merki vestanhafs og víðar.

Á vef Hotcars komst blaðamaður skemmtilega að orði þegar hann fjallaði um bílinn en hann sagði: „Þetta lítur út eins og einhver hafi reynt að setja saman Hummer en gefist upp þegar hann var hálfnaður með verkið.“

Klossaður að framan og lítill pallur. Þetta gerir engum gott og kemur ekki að miklu gagni.

2. Subaru Baja

„Æjæj,“ er eiginlega það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar þetta ólán er fyrir augum manns. Misskilningurinn (þ.e. ef markaðssvæðið er Bandaríkin og Evrópa t.d.) felst í því að það þarf fleira en fjögur hjól með drifi á öllum og svo pall til að fólk kaupi bílinn sem „pallbíl“. Við getum sennilega flest verið sammála um að Subaru hefur komið með margt gott en þetta er ekki eitt af því.

1.Chevrolet SSR

Hann ætti ekki að fá að kallast pallbíll en hjá því verður ekki komist því hann er jú með…pall. SSR stendur fyrir Super Sport Roadster en þetta apparat virðist ekki hafa verið neitt af þessu.

Chevrolet SSR var framleiddur frá 2003 til 2006 og fékkst hann með ágætum vélum á borð við LS2 (6 lítra V8) en það er bara ekki nóg. Það er ekki hægt að skella fínni vél í ruslatunnu og ætlast til að allir verði hrifnir. Þetta virkar ekki þannig.

Af einhverjum ástæðum voru þó framleidd rétt yfir 24.000 eintök en hversu mörg þeirra seldust veit maður ekki en nógu margir eru þeir sem vilja losna við svona bíla. Á vef Car Gurus eru tæplega 200 Chevrolet SSR til sölu en í öllum bænum ekki flytja svona inn til landsins.

Aðrar greinar í svipuðum dúr: 

Bílarnir sem ýmsu breyttu

Bílar sem aldrei fóru af stað

Ljótara en ljótt? Eða bara misskilningur

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Sett inn
23/3/2022
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.