„Þá eru þeir nú búnir að drepa hann Ferdinand okkar,“ sagði þjónustustúlkan við Svejk, sem hafði horfið frá herþjónustu fyrir löngu, þar eð nefnd lækna hafði lýst því einróma yfir, að hann væri hálfviti, en lifði nú á því að selja hunda, nauðljót skrímsli af misjöfnum uppruna, og falsaði ættartölur þeirra.

Auk þess var hann gigtveikur og var nú að nudda hnén með andarnefjulýsi.“  

Þannig hefst nú ein af mínum eftirlætisbókum, Góði dátinn Svejk [Ævintýri góða dátans Svejk í heimsstyrjöldinni], eftir Jaroslav Hasek. Karl Ísfeld íslenskaði. Bókin er sveipuð dýrðarljóma í hugum margra og  var lestur leikarans Gísla Halldórssonar á bókinni hreint út sagt stórkostlegur.

Bílatengingin kemur strax í ljós, áður en sagan hefst, því myndir bókarinnar teiknaði Joseph LADA. En það er nú bara skemmtileg tilviljun!

Höldum okkur við morðið á Ferdinand og samtal Svejk og þjónustustúlkunnar:

„Hvaða Ferdinand, frú Müller?“ spurði Svejk, án þess að hætta að núa hnén. „Ég þekki tvo Ferdinanda. Annar vinnur í efnagerðinni hans Prusa, þar sem hann drakk einu sinni í ógáti úr flösku af hristingi, og auk þess þekki ég Ferdinand Kokoska, sem tínir hundaskít. Bættur sé skaðinn.“

„En það er erkihertoginn, herra Svejk, þessi frá Konopist, sá frómi og feiti mann.“

„Jesúsmaría,“ hrópaði Sveijk. „Sá hefir aldeilis verið úti að aka,“ sagði þessi gamli og yfirlætislausi maður. Hugprúða hetjan, góði dátinn Svejk, sem ekki fylgdist sérlega vel með atburðum líðandi stundar. En þessi bókarbyrjun leiðir okkur að umfjöllunarefninu: Bíl erkihertogans Franz Ferdinands og hinum hörmulega atburði sem oft er vísað til sem upphafs fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Erkihertoginn og eiginkona hans myrt

Það var á sunnudagsmorgni, þann tuttugasta og áttunda júní árið 1914 sem hjónin Franz Ferdinand erkihertogi af Este og Sophie, hertogaynja af Hohenberg, voru myrt þegar bílstjóri þeirra ók með þau eftir götu í Sarajevó. Skotið var á þau úr mannmergð við götuna. Þetta var laust fyrir klukkan 11 þennan sumarmorgun en dagurinn byrjaði ekki vel hjá hjónunum. Vissulega endaði hann hörmulega.

Fyrr um morguninn hafði handsprengju verið varpað í átt að bíl þeirra. Skoppaði hún að öllum líkindum á blæju bílsins og hvellsprakk rétt aftan við hann.

Hjónin sluppu en margir úr fylgdarliði þeirra sem á eftir þeim óku slösuðust. Fólkið var á leið til ráðhússins í Sarajevó og þegar þangað var komið mun erkihertoginn hafa gripið fram í fyrir borgarstjóranum, verulega pirraður eftir árásina: „Hingað er ég kominn sem gestur og fólkið þitt býður mig velkominn með sprengjum.“ Svo sagði sagnfræðingurinn Christopher Clark í viðtali sem nánar má rýna í hér.

Förum ekki nánar út í hverjir voru þar að verki, forsögu eða neitt sem tengist stjórnmálum. Í seinni árásinni á þau, þennan morgun, klukkan 10:45, létu hjónin lífið. Lesa má stutta samantekt á hvernig þetta atvikaðist með því að smella hér.

Teikning gerð eftir lýsingu sjónarvotta á atvikinu hræðilega. Wikimedia.org

Bíllinn

Þau hjónin voru sannarlega ekki á ferðinni í bíl sem gat staðið af sér skotbardaga og þess háttar.

Nei, árið var 1914 og ökutækið ekki meira skjól en svo að hægt var að plaffa blessað fólkið utan af götu. Bíllinn var opinn, framleiddur af Gräf & Stift í Austurríki í kringum árið 1910.

Fjögurra strokka og 32 hestöfl var hann en þetta var ekki bíll sem þau hjónin áttu. Nei, hann var í eigu greifans Franz von Harrach. Ástæða þess að þau voru ekki á bíl ætluðum til embættiserinda, er sögð sú (eftir því sem undirrituð kemst næst) að vegna ólgu í þjóðfélaginu þótti vænlegra að erkihertoginn ferðaðist í leigðri einkabifreið.

Bíllinn skömmu fyrir skotárásina. Ljósmynd/Wikimedia.org

Eftir morðið á hjónunum gaf greifinn keisaranum Franz Joseph umræddan bíl. Franz var greinilega nafn sem naut vinsælda á þessum árum.

Nema hvað, keisarinn vildi koma bílnum á herminjasafnið í Austurríki. Safnið er í Vínarborg og þar er bíllinn enn til sýnis ásamt blóðugum frakka erkihertogans.

Sögur fara á kreik

„Það er ekki hnífurinn sem er vondur, heldur maðurinn sem beitir hnífnum til illra verka,“ sagði einhver. En í þessu tilviki hafa margir básúnað að bíllinn hafi verið illur. Já, að bölvun hafi hvílt á tækinu og því hafi farið sem fór.

Þessar sögur urðu ekki sérlega fyrirferðamiklar fyrr en nokkuð löngu eftir skotárásina. Í sunnudagsblaði Vísis, þann 21. ágúst árið 1938 birtist grein eftir Þorstein Jónsson og bar hún yfirskriftina Hjátrú íþróttamanna. Þar er dæmi sem tengist íþróttamönnum ekki heldur bílnum:

„Mig minnir að það hafi verið árið 1929, að ungverskur bifreiðasali bauð nokkrum kunningjum sínum með sér í skemtiferð í bifreið. Vegna þess, að einkabifreið hans var í viðgerð, tók hann gamlan bíl, sem hann hafði keypt með tækifærisverði.

Í þessu ferðalagi ók bifreiðasalinn á tré og lét lífið, en farþegarnir limlestust eða dóu. Við réttarrannsókn út af slysinu var saga bifreiðarinnar rakin. Kom þá í ljós, að 15 sinnum hafði orðið eigendaskipti að henni, og í hvert einasta sinn eitt eða fleiri dauðsföll orsakast í sambandi við hana.

Meðal þeirra, sem létu lífið í bifreiðinni, var Franz Ferdinand erkihertogi og kona hans, sem voru myrt í henni í Sarajevo árið 1914. Og þessi dauðsföll voru það, sem orsökuðu heimsstyrjöldina miklu 1914-18.

Í þessari sömu bifreið sat austurríski marskálkurinn Potiorek, þegar hann stjórnaði austurríska hernum við Sabac, þar sem lið hans beið geysi manntjón, en hann sjálfur varð að láta af völdum fyrir,“ segir í greininni.

Jakki Franz Ferdinands með kúlnagatinu. Ljósmynd/hgm.at

Raunar hafði marskálkurinn verið hársbreidd frá dauðanum því hann var farþegi í bíl fyrir aftan Franz Ferdinand er sá síðarnefndi var myrtur. Morðinginn játaði að skotið sem hæfði eiginkonuna, Sophie, hafi verið ætlað Potiorek. En það er kannski önnur saga og sem fyrr segir er pólitík ekki á meðal þess sem fjallað er um hér.

Orsakir mögulegrar bölvunar

Það er vissulega kyndugt fyrir mörg okkar að hugsa um bíl sem bölvun hvílir á. Já, eða bara eitthvað sem bölvun kynni að hvíla á. Þó maður bölvi og ragni eins og argasti strigakjaftur og ribbaldi, er ekki þar með sagt að hugsanlega geti hvílt bölvun eða álög á einhverju.

Núnú, fæst okkar geta skipt yfir í hugsunarhátt mektarfólks sem uppi var í Austurríki í kringum 1900. En reynum samt að sjá þetta fyrir okkur: Munnmælasaga segir að okkar maður, Franz Ferdinand, hafi verið á veiðum árið áður, þ.e. 1913, og fellt ákaflega sjaldgæfan hvítan hjartartarf.

Það vissi ekki á gott, því hver sá sem felldi slíkt dýr mátti, þjóðsögunni samkvæmt, vænta þess að innan árs myndi einhver í fjölskyldu veiðimannsins deyja. Eða veiðimaðurinn sjálfur.

Var erkihertoginn víst annálaður veiðimaður og átti mörg metin hér og þar. Hafa ýmsir því bent á að hann hefði fremur orðið stoltur af svo fágætri bráð heldur en óttasleginn vegna bölvunar sem slíkum feng kynni að fylgja.

Önnur skýring er af netfræðingum (sem sumir eru fremur götóttir eins og margar netadræsur) sögð vera sú að bíllinn hafi einfaldlega verið andsetinn vegna innviða hans eða vegna blóðrauðrar málningar bílsins.

Margt dettur mönnum í hug og þegar samsæriskenningar eru annars vegar þá er veraldarvefurinn hyldýpi eða hreint út sagt svarthol.

Árgerð 1910: Fimmtán í valnum fyrir árið 1930

Sem fyrr sem fyrr segir er „bölvaður“ bíllinn varðveittur á safninu í Vínarborg og er engum blöðum um það að fletta. Svo því sé haldið til haga áður en næsta þverbeygja er tekin í þessari umfjöllun.

Árið 1981 birtist grein í blaðinu Weekly World News þar sem umfjöllunarefnið var að meira en tólf manns hefðu beðið bana í þessari 1910 árgerð af Gräf & Stift.

Byggði greinin, sem Rob Robbins var skrifaður fyrir, á „ummælum“ safnvarðar herminjasafnsins í Vínarborg, Karl Brunner, sem hann átti að hafa látið falla einhvern tíma að styrjöld lokinni, á þriðja áratug síðustu aldar.

Sagan fylgir hér til gamans og ber ekki að taka alvarlega. Þeir sem eru að flýta sér skulu einfaldlega fara beint yfir í næstu millifyrirsögn en um það bil svona er sagan sem blaðið birti:

Safnvörðurinn, Brunner, lagði blátt bann við því að sýningargestir príluðu upp í „draugabílinn“ og rakti hann svo sögu bílsins fyrir gestum.

Ríkisstjóri Júgóslavíu eignaðist bílinn eftir stríð, 1918, og lét gera hann upp. Gräf & Stift varð sem nýr. En eftir fjögur bílslys (landstjórinn missti hægri handlegginn í einu þeirra) taldi hann rétt að bílnum yrði hreinlega fargað. Nú væri nóg komið!

Vinur landstjórans, læknir að nafni Sikris, var honum ekki alls kostar sammála og beinlínis hló að sögusögnum þess efnis að á bílnum hvíldi bölvun. Hann hló ekki lengi því að sex mánuðum liðnum velti hann bílnum. Þegar komið var að bílnum fannst líflaus líkami læknisins kraminn undir honum.

Áfram heldur sagan og næsti eigandi var sömuleiðis læknir. Þegar hjátrúarfullir sjúklingar hættu að leita til hans ákvað hann að losa sig við bílinn og svissneskur kappakstursbílstjóri mun hafa keypt hann. Í kappakstri í Dólómítafjöllunum „kastaði bíllinn“ bílstjóranum yfir steinvegg með þeim afleiðingum að Svisslendingurinn hálsbrotnaði og dó.

Næst, segir í frásögninni, eignaðist bóndi nokkur bílinn. Dag einn þegar bóndi var á leið á markað drap bíllinn á sér. Annar bóndi kom hinum til hjálpar og ákváðu þeir að draga bílinn á verkstæði. Skyndilega hrökk kvikindið í gang og allt fór í rauðabotn. Dráttarbílnum ruddi hann úr vegi og bændurnir húrruðu með þeim fyrrnefnda niður á hraðbrautina og, jú bændirnir létu báðir lífið. Er þetta orðið dálítið þreytt og fyrirsjáanlegt? Kannski, en ekki getum við hætt hér!

Nú er nefnilega komið að síðasta eiganda þessa bíls en hann sá málin frá allt öðru sjónarhorni. Hann, Tiber Hirchfield, taldi nefnilega að það eina sem þyrfti að gera við bílinn (sem ætla má að hafi verið farinn að láta á sjá) væri að mála hann almennilega! Í mildari lit. Hann lét mála gamla bílinn í björtum bláum lit og bauð fimm félögum sínum far til brúðkaups í nýmáluðum bílnum.

Í hroðalegri bílveltu á leiðinni dó Hirchfield og fjórir af fimm farþegum hans.

Þarna þótti yfirvöldum tímabært að grípa inn í og stöðva hamfarasögu bílsins með að gera hann upptækan og koma honum fyrir á safninu í Vínarborg.

Hafið í huga, lesendur góðir, að hér er verið að endursegja frásögn Weekly World News og hún endar svona:

„Dag nokkurn, síðdegis, vörpuðu bandamenn sprengju á safnið, sem varð að rjúkandi rúst. Hvorki fannst tangur né tetur af safnverðinum, Karli Brunner, né heldur bílnum bölvaða. Ekkert nema illa tættar hendur sem ríghéldu í stýrisbrot.“

Jæja, þarna fór hann alveg með það! Á þessum tímapunkti líður manni eins og fífli að hafa lesið alla söguna og svo er þessu í lokin skellt framan í mann eins og aprílgabbi.

Þetta var að mestu bull: Safnið var ekki sprengt, Karl Brunner var ekki til, enginn ríkisstjóri var í Júgóslavíu árið 1918, bíllinn er ekki rauður og ber ekki merki ótal óhappa.

Æsifréttablaðið Weekly World News var gefið út í Bandaríkjunum frá 1979 til 2007. Auðvitað sagði ritstjóri þess að iðulega væri farið með rétt mál í blaðinu en eyðum ekki meiri tíma í þann snepil!

Í Vínarborg er margt að sjá. Þar á meðal bílinn fræga. Mynd/Unsplash.

En er sannleikskorn í einhverju sem fram hefur komið?

Það hefur ekki verið stundað á Bílabloggi að flytja „falsfréttir“ eða segja ósannar sögur. Og ekki byrjum við á því hér. Höfum í huga heimildina sem fyrst var vísað til: Greinin sem birtist í Vísi árið 1938.

Blaðamaðurinn Mike Dash skrifar um sagnfræði í tímariti Smithsonian. Árið 2013 rakti hann og hrakti söguna úr Weekly World News og var gróflega misboðið, eins og undirritaðri.

Hann skrifaði jafnframt að sögurnar um bölvunina á bílnum hafi ekki komið fram fyrr en árið 1959 í bók Franks Edwards, Stranger Than Science. Dash las greinilega ekki Vísi!

Eitt var það sem honum fannst þó mun áhugaverðara en sögurnar af bölvuninni og það eru númeraplöturnar á bílnum sem Franz Ferdinand og frú létu lífið í: AIII 118.

Dularfull tenging við lok styrjaldarinnar

Það var víst breskur sagnfræðingur, Brian Presland, sem heimsótti herminjasafnið í Vínarborg og gerði uppgötvun sem vakti heimsathygli. Þetta var árið 2004 og Presland virti fyrir sér hinn sögufræga bíl sem erkihertoginn og frú enduðu lífið í. Þar sem hann horfði á númeraplötuna framan á bílnum fann hann ónotahroll hríslast um sig.

Númerið AIII 118 eða eins og hann útskýrði í viðtali sem lesa má hér að sé númerið lesið svona: „A 11 11 18“ þá megi fá út eftirfarandi: A, standi fyrir „Armistice“ (vopnahlé) og það sem á eftir kemur sé einmitt 11. nóvember 1918. Dagurinn þegar stríðinu lauk.

Fréttastofa Sky hefur fjallað um málið sem og fjölmargir aðrir miðlar sem ekki teljast almennt tilheyra ruslflokki. En það breytir því ekki að málið er og verður sérstakt og tilviljunin heldur áfram að vera áhugaverð.

Eftir að hafa farið um víðan völl í þessari umfjöllun, þykir greinarhöfundi áhugaverðast það sem fram kom í Vísi árið 1938 en látum þetta gott heita að sinni.

Ef þið, lesendur góðir, komið til með að heimsækja Vínarborg í framtíðinni, þá er það vel þess virði að skoða Heeresgeschichtliches Museum, herminjasafnið og sjá bílinn með eigin augum.

Býst ég við, burtséð frá bullfréttum og sögusögnum, að rétt reynist að bannað sé að setjast inn í ökutækið.

Sett inn
11/4/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.