Flott að eiga bílaplötuspilara

136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Sjálf er ég mikill „plötuspilari“. Það er að segja manneskja sem hefur gaman af að setja góða plötu á fóninn. Þó hef ég enn ekki gerst svo fræg að eiga bílaplötuspilara. Þeir urðu kannski ekkert svakalega vinsælir hér á landi en vissulega voru þeir til.

Þegar ég var lítil sagði faðir minn heitinn mér frá bílaplötuspilaranum sem hann var með í bílnum sínum í gamla daga. Fyrst hélt ég að hann væri að sprella í mér því í mínum eyrum hljómaði þetta álíka ruglað og að segjast vera með píanó í bílnum.

En svo útskýrði hann þetta og jú, þá skildi ég aðeins betur rispurnar á sumum „litlu“ plötunum, eins og ég kallaði 45 snúninga plöturnar. Pabbi átti flestar Bítla- og Stonesplöturnar sem fengust 45 snúninga en þær hefur hann passað sérlega vel upp á því margar eru þær alveg órispaðar með öllu. Swinging Blue Jeans, Kinks, Hollies og fleira og fleira hefur eflaust ratað á fóninn í bílnum.

George Harrison brasar við spilarann

Virkuðu þokkalega

Mig minnir að pabbi hafi sagt að bílaplötuspilarinn hans hafi virkað ágætlega. Lítið hafi verið um hökt og nálarhopp, en hljómgæðin í græjunum verið fremur slök. Minnir mig.

Einhverja kagga var víst hægt að kaupa með innbyggðum spilurum og í Bandaríkjunum kom  „Highway Hi-Fi“ spilarinn fyrstur og fékkst hann sem aukabúnaður t.d. Í 1956 árgerðum af ákveðnum gerðum Chrysler, Desoto, Dodge, og Plymouth.

 „Highway Hi-Fi“ spilarinn

Annars var algengara að fólk keypti bílaplötuspilara sem var með innbyggðan hátalara eða sem tengdur var við græjur bílsins.

Athyglin oft á plötuspilaranum

Það er kannski ekkert undarlegt að  athygli ökumanna hafi beinst að bílaplötuspilaranum því á 45 snúninga plötu voru nú yfirleitt aðeins tvö lög á hvorri hlið og því nóg að gera við að snúa plötum og skipta.

Auglýsing fyrir bílaplötuspilarann

Árið 1960 kom sniðugt tæki á markað: RCA Victrola sem raða mátti 14 plötum í og sá tækið um skemmtunina og bílstjórinn fylgdist með veginum.

Fáir af þessum bílaplötuspilurum virðast vera til sölu á eBay en eflaust eru sérhæfðari safnarasíður sem eiga svona spilara til.

Skjáskot af eBay

Tengt efni: 

5 hlutir úr bílum fortíðar

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Svipaðar greinar