Þriðjudagur, 20. maí, 2025 @ 9:40
Bílablogg
Advertisement
  • Heim
  • Greinar
    • Bílaframleiðsla
    • Bílaheimurinn
    • Bílasagan
    • Bílasýningar
    • Fornbílar
    • Fréttatilkynning
    • Hugmyndabílar
    • Mótorsport
    • Tækni
    • Umferð
  • Okkar álit
    • Atvinnubílar
    • Fólksbíll
    • Jeppi
    • Skutbíll
    • Sportjeppar
  • Myndbönd
  • Um okkur
  • Samband
Ekkert fannst
Skoða allt
  • Heim
  • Greinar
    • Bílaframleiðsla
    • Bílaheimurinn
    • Bílasagan
    • Bílasýningar
    • Fornbílar
    • Fréttatilkynning
    • Hugmyndabílar
    • Mótorsport
    • Tækni
    • Umferð
  • Okkar álit
    • Atvinnubílar
    • Fólksbíll
    • Jeppi
    • Skutbíll
    • Sportjeppar
  • Myndbönd
  • Um okkur
  • Samband
Bílablogg
Ekkert fannst
Skoða allt
Bílablogg
Ekkert fannst
Skoða allt

Bókin „Bílar í lífi þjóðar” eftir Örn Sigurðsson er komin út

Pétur R. Pétursson Höf: Pétur R. Pétursson
12/10/2023
Flokkar: Bílasagan, Fréttatilkynning
Lestími: 11 mín.
360 27
0
185
DEILINGAR
1.7k
SMELLIR
Deila á FacebookDeila á Twitter

Forlagið hefur gefið út bókina Bílar í lífi þjóðar eftir Örn Sigurðsson, en hún skartar rúmlega 900 ljósmyndum í fjórum stórum köflum sem tileinkaðir eru meginþáttum bílamenningarinnar.

Bílar hafa löngum verið eitt helsta einkenni þéttbýlis, á sama tíma og þeir greiða leiðir ferðafólks um sveitir og öræfi.

Í upphafi var bíllinn einkum atvinnutæki, ýmist notaður til fólks- eða vöruflutninga og sem slíkur á hann sér merka sögu.

En það er svo með bílinn eins og mörg önnur mannanna verk, hann hefur einnig sínar dökku hliðar, líkt og umferðaróhöppin bera vitni um, að ógleymdu öllu baslinu sem bílamenn voru duglegir að koma sér í. Öllu þessu er komið til skila í þessari vönduðu bók sem er 320 blaðsíður að lengd í stóru broti.

Nýmalbikuð Suðurlandsbraut

Næsta stóra íbúðahverfi Reykjavíkur mun brátt rísa á Ártúnshöfðanum, en hann var áratugum saman eitt helsta iðnaðarsvæði borgarinnar, með steypuvinnslu, röragerð og malbikunarstöð.

Hér er nýlokið lagningu bundins slitlags á Suðurlandsbrautina, eins og glöggt má merkja á tjörutunnum malbikunarstöðvarinnar sem ennþá liggja eins og hráviði við gömlu Elliðaárbrýrnar.

REO-rúta frá Póstmálastjórn tekur stefnuna úr bænum á meðan drekkhlaðnir Ford- og Dodge-vörubílar halda til borgarinnar, en á þessum árum voru Elliðaárnar við ystu mörk hennar. Eins og sjá má í fjarska er töluverð umferð upp gömlu Ártúnsbrekkuna þennan sumardag árið 1950.

Viðamesta gatnagerð síns tíma

Árið 1955 hófust framkvæmdir við helstu umferðaræð Reykjavíkur sem síðar var réttilega nefnd Miklabraut. Svæðið við Klambratún var erfitt viðureignar, enda mýrlendi, og grafa þurfti hyldjúpt niður á fast.

Hefði verið næsta einfalt að steypa götuna í stokk neðanjarðar, líkt og menn láta sig dreyma um núna.

Í þá daga var umferðin hins vegar mun minni en síðar varð og fallegar breiðgötur þóttu borgarprýði. Næst okkur er þéttsetinn Volvo-strætisvagn, en á undan honum skjótast Kaiser og Fiat.

Á hinni akreininni eru tveir bílar frá Ford, sendiferðabíll og vörubíll, en við Miklubrautarhúsið standa hvítur Chevrolet og svartur Buick, báðir frá 1947.

Síðasta áfylling fyrir jól

Það er jólalegt um að litast á bensínstöð BP við Álfheima í Reykjavík og sú hugsun hvarflar að manni hvort að þessi mynd hafi verið notuð á jólakort Olíuverslunar Íslands árið 1960.

Við dælurnar standa verðugir fulltrúar síns tíma; gamall Willys-jeppi með íslenskri yfirbyggingu og öllu nýlegri Mercedes-Benz, báðir mættir til að fá síðustu áfyllingu ársins.

Á þvottaplaninu í fjarska glittir í Chevrolet árgerð 1955, en þar er einhver húsbóndinn eflaust að gera heimilisbílinn hreinan fyrir hátíðirnar. Hér hefur lítið breyst í áranna rás, en það kann að skipast á annan veg í nánustu framtíð, því nú hverfa bensínstöðvar borgarinnar hver af annarri og lóðum þeirra fórnað undir fjölbýlishús.

Ekið yfir Skjálfanda

Elsta brúin yfir Skjálfandafljót var reist við Goðafoss árið 1883 og var því orðin nærri hálfrar aldar gömul þegar þessi mynd var tekin árið 1929. Í raun var um tvær brýr að ræða, sem báðar voru smíðaðar í Kaupmannahöfn, en brúarstöplana gerði Steinþór Bjarnason steinhöggvari.

Fljótsbrúin var í hugum margra einskonar prófsteinn á brúargerð yfir stórfljót á Íslandi og þá einkum hvernig hún myndi reynast í vatnavöxtum og jakaburði.

Hér réð úrslitum að hafa stöplana nógu háa, en þó var brúin hætt komin í nokkur skipti þegar ísjakar skullu á henni af miklum þunga. Endingartími trébrúa á Íslandi var yfirleitt 20 til 30 ár, en timbrið í gömlu fljótsbrúnni var þéttvaxin fura sem entist von úr viti.

Það var því ekki fyrr en árið 1930 sem ný járnbrú tók við hlutverki gömlu brúarinnar sem þá var rifin eftir langa og farsæla þjónustu.

Bedfordar á Fjöllum

Tveir breskir Bedford-trukkar frá Bjarna í Túni, annar með fólk en hinn með farangur, hafa stoppað í Faxasundi á leið sinni um Fjallabak og Skaftártunguafrétt sumarið 1953.

Þegar íslenskir bílstjórar eignuðust háfætta fjórhjóladrifsbíla var fátt sem stöðvaði þá við könnun öræfanna, enda héldust hér í hendur ævintýramennska og þráin eftir því að fara um framandi svæði, helst fyrstir allra ökumanna.

Húnvetnskir jeppakarlar

Á sjöunda áratugnum varð sprenging í jeppainnflutningi samhliða afléttingu gjaldeyrishafta og fjölgunar á tegundum.

Eftir stríð var Willys-jeppinn allsráðandi ásamt Land Rover, en þegar frá leið bættust Rússajeppar, Austin Gipsy, Scout og Bronco í hópinn.

Hún gat því verið nokkuð fjölbreytt jeppaflóran í hálendisferðum, líkt og hér árið 1968, þar sem húnvetnskir ferðafélagar eru komnir á fjarlæga slóð, kannski í leit að vatni fyrir árabátinn á þaki Scout-jeppans. Við hlið hans eru Rússajeppi og Land Rover.

Þungaflutningur á Norðurlandi

Á tímum stórframkvæmda voru öll tiltæk vinnutæki dregin fram og notuð til flutninga. Meðal þeirra var þessi Ford-vörubíll árgerð 1930 sem notaður var til að flytja inntaksrörið í fyrstu Laxárvirkjunina sem reist var á árunum 1938 og 1939.

Rörið var langt en vörubíllinn stuttur og því varð að hengja aftan í hann forláta kerru með gömlum vagnhjólum.

Árni Pálsson verkfræðingur, sem hannaði virkjunina, skér sig úr hópi norðlenskra verkamanna í ljósum frakka og vel burstuðum skóm.

Hann var lengi verkfræðingur hjá Vegagerðinni og hannaði meðal annars brúna yfir Hvítá í Borgarfirði, en hún var útnefnd verkfræðiafrek þriðja áratugarins á Íslandi.

Fordinn á Kristnesi

Af öðrum fornbílum ólöstuðum er gamli Kristnesbíllinn, Ford árgerð 1947, meðal merkilegustu sýningargripa Samgönguminjasafnsins á Ystafelli.

Grímur Valdimarsson á Akureyri byggði vandað hús yfir nýjan Ford-vörubíl sem síðan var notaður í ferðir á milli Kristness og Akureyrar með fólk og farangur á árunum 1948 til 1961.

Yfirbyggingin þótti mjög vönduð smíði, en tíminn lék hana grátt eins og flest önnur mannanna verk.

Þegar bíllinn var orðinn nær ónýtur af ryði og fúa tók Sverrir Ingólfsson á Ystafelli sig til og gerði hann upp frá grunni. Hér er Fordinn kominn á gamlar slóðir við Kristneshæli og við hlið hans stendur María Pálsdóttir leikkona, sem starfrækir merkilegt safn um sögu berklahælisins.

Tímamót

Fyrsta stóra tölvan var flutt til landsins árið 1964, en „rafeindaheilinn“, eins og fyrirbærið var kallað þá, kom frá IBM í Bandaríkjunum.

Hér er verið að skipa heilanum upp úr Goðafossi og koma honum fyrir á palli GMC-vörubíls í Reykjavíkurhöfn. Þaðan var stefnan tekin á höfuðstöðvar Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar, þar sem þessu plássfreka apparati var ætlað að létta mönnum störfin við reikningagerð og launaútreikninga.

Halda mætti að hér hafi verið um algjöra ofurtölvu að ræða, en þrátt fyrir mikið umfang og nærri þriggja tonna þyngd var vinnslugeta hennar álíka mikil og hjá nútíma snjallsíma.

Brotist um vegleysur öræfanna

Þessi einstaka mynd er talandi dæmi um þær erfiðu aðstæður sem íslenskir ökumenn bjuggu við á fyrstu árum bílaaldar, sérstaklega ef þeir ætluðu sér út fyrir hið frumstæða þjóðvegakerfi.

Hólmgeir Sigurgeirsson bóndi í Suður-Þingeyjarsýslu átti þennan forláta Ford-vörubíl árgerð 1931 og lét smíða yfir hann vandað fimm manna hús og farþegaboddí á pallinn.

Á þessum árum voru bílar sýslunnar með H-númer, sem er tilvísun í Húsavík.

Sumarið 1933 hélt Hólmgeir suður Ódáðahraun ásamt vöskum félögum sínum, en sú leið hefur aldrei verið greiðfær. Hér búa þeir sig undir að koma bílnum ofan af brattri hraunhellu og þurfa að taka á öllu sínu svo hann komist klakklaust niður.

Skondið óhapp

Fyrir daga almennilegra gangstéttarkanta gátu menn greinilega lent í furðulegum uppákomum, líkt og hér þar sem ´42 Plymouth hefur oltið ofan í hlaðið heima hjá sér.

Eigandinn er heldur lúpulegur með báðar hendur í vösum á meðan aðkomumenn virða fyrir sér þetta einstaka afrek, sem fáir hafa leikið eftir, og velta eflaust fyrir sér hvernig bílstjóranum hafi tekist að koma sér í þetta klandur.

Meira að segja ungu drengirnir við húsvegginn eru hálf undrandi á öllu saman.

Tveir Willys-jeppar með mismunandi gerðir íslenskra yfirbygginga aka hægt fram hjá slysstaðnum og halda sig fjarri viðsjárverðri vegbrúninni.

Endastöðin

Gamla Vökuportið í Síðumúla var endastöð margra bíla, en þegar þessi mynd var tekin um miðjan sjöunda áratuginn var stutt í að fyrirtækið flytti upp á Höfða og um leið var megnið af bílhræjunum urðað í Geirsnefinu.

Hér eru margir eðalvagnar sem fornbílamenn vildu gjarnan eiga í dag, en í þá daga var litið á þá sem ónýtt rusl.

Næst okkur er ´55 Cadillac, en hann er reyndar ennþá á númerum, sem bendir til þess að verið sé að laga hann fremur en að koma honum fyrir kattarnef.

Öðru máli gegnir um ´53 Buick Roadmasterinn til vinstri, en hann virðist vera gjörónýtur. Fyrir miðri mynd er nokkuð heillegur ´49 Chevrolet og fyrir framan hann beyglaður ´57 Ford. 

Fyrri grein

BMW X2 stækkar, bætir við iX2 fullrafmagnsútgáfu

Næsta grein

Jaguar kynnir fyrsta tengiltvinnbílinn F-Pace PHEV

Pétur R. Pétursson

Pétur R. Pétursson

Vefstjóri og blaðamaður

Svipaðar greinar

Þjónustudagur Toyota

Þjónustudagur Toyota

Höf: Pétur R. Pétursson
16/05/2025
0

Árlegur þjónustudagur Toyota verður á laugardag, 17. maí frá kl. 11 – 15. Valdir þjónustuaðilar taka vel á móti Toyota-...

Vígalegur 35″ Defender og fjallahjólhýsi á vorsýningu Land Rover á laugardag

Vígalegur 35″ Defender og fjallahjólhýsi á vorsýningu Land Rover á laugardag

Höf: Pétur R. Pétursson
16/05/2025
0

Land Rover við Hestháls heldur vorsýningu á helstu bílum sínum á laugardag, 17. maí milli kl. 12 og 16, þar...

Sumarsýning Heklu fer fram laugardaginn 17. maí, frá kl.12 til 16.

Sumarsýning Heklu fer fram laugardaginn 17. maí, frá kl.12 til 16.

Höf: Pétur R. Pétursson
16/05/2025
0

Hekla kynnir nýjan og glæsilegan Škoda Enyaq, nýtt og betra verð á Audi Q6, auk sértilboðs á Volkswagen ID.4 GTX. Nú...

Alrafmagnaður Isuzu D-MAX 4×4 á markaði Evrópu í haust

Alrafmagnaður Isuzu D-MAX 4×4 á markaði Evrópu í haust

Höf: Pétur R. Pétursson
14/05/2025
0

Isuzu Motor Group hefur hafið fjöldaframleiðslu á rafdrifnum D-MAX með fjórhjóladrifi fyrir Evrópumarkað í verksmiðju sinni í Samron í Tælandi....

Næsta grein
Jaguar kynnir fyrsta tengiltvinnbílinn F-Pace PHEV

Jaguar kynnir fyrsta tengiltvinnbílinn F-Pace PHEV

Umræður um þessa grein

Greinaflokkar

  • Aðsent
  • Bílaframleiðsla
  • Bílaheimurinn
  • Bílasagan
  • Bílasýningar
  • Fornbílar
  • Fréttatilkynning
  • Hugmyndabílar
  • Kynning
  • Mótorsport
  • Ritstjórn
  • Tækni
  • Umferð

Tögg

Cadillac Eldorado e power Hyundia Ioniq 6 klassík lögreglubílar mahindra Rafgmagnsbíll rafhlöður rafmagn Rafmagnsbíll Shanghai sjúkrabílar tata World car of the year

Óháður bílavefur

Bílablogg.is er sjálfstætt starfandi fjölmiðill sem skrifar með þarfir lesenda í huga. Við leggjum metnað okkar í að reynsluaka nýjum bílum og flytja fréttir af því helsta sem er að gerast í bílaheiminum, bæði heima og erlendis.

Greinar

  • Bílaframleiðsla
  • Bílaheimurinn
  • Bílasagan
  • Bílasýningar
  • Fornbílar
  • Hugmyndabílar
  • Mótorsport
  • Tækni
  • Umferð
  • Bílaframleiðsla
  • Bílaheimurinn
  • Bílasagan
  • Bílasýningar
  • Fornbílar
  • Hugmyndabílar
  • Mótorsport
  • Tækni
  • Umferð

Reynsluakstur

  • Atvinnubílar
  • Fólksbíll
  • Jeppi
  • Skutbíll
  • Sportjeppar
  • Atvinnubílar
  • Fólksbíll
  • Jeppi
  • Skutbíll
  • Sportjeppar

Nýjustu færslurnar

Álit

BYD Sealion 7 – fágaður lúxus og kraftmikið tæknibúnt

19/05/2025
Bílaheimurinn

Þjónustudagur Toyota

16/05/2025
Bílasýningar

Vígalegur 35″ Defender og fjallahjólhýsi á vorsýningu Land Rover á laugardag

16/05/2025

2023 © Bílablogg.is • Allur réttur áskilinn • Bílablogg sf • Kt. 5911211460

Welcome Back!

Skráðu þig inn á aðganginn þinn

Forgotten Password?

Retrieve your password

Please enter your username or email address to reset your password.

Log In
Ekkert fannst
Skoða allt
  • Heim
  • Greinar
    • Bílaframleiðsla
    • Bílaheimurinn
    • Bílasagan
    • Bílasýningar
    • Fornbílar
    • Fréttatilkynning
    • Hugmyndabílar
    • Mótorsport
    • Tækni
    • Umferð
  • Okkar álit
    • Atvinnubílar
    • Fólksbíll
    • Jeppi
    • Skutbíll
    • Sportjeppar
  • Myndbönd
  • Um okkur
  • Samband

© 2022 Bílablogg sf. - Allur réttur áskilinn.