Nýr MG ZS Hybrid+ afhjúpaður: fyrirferðarlítill rafmagns sportjepplingur á undir fjórum milljónum út úr búð í Bretlandi.
Nýi Dacia Duster keppinauturinn notar sömu fullblendings aflrásina og hinn margverðlaunaði MG3 ZS

Nýr MG ZS hefur verið kynntur og hinn vinsæli jeppi er með stílhreint nýtt útlit. Hingað til hefur aðeins sést í hann á örfáum óskýrum myndum en nýju gerðina er hægt að panta núna. Fyrstu eintök berast viðskiptavinum í október.
Hann verður með tvinnaflrás og verðið undir fjórum milljónum króna – ríflega 700 þúsund krónum minna en á nýjum Ford Puma í Bretlandi.
Í byrjun er nýr MG ZS aðeins fáanlegur með einni Hybrid+ aflrás – sömu uppsetningu og er í núverandi margverðlaunaða MG3. Hann er búinn 1,5 lítra fjögurra strokka bensínvél og rafmótor sem skila samanlögðu afli upp á 193 hestöfl. Allt að 134 hestöfl af því koma frá rafmótornum, auk 250Nm togs. 0-100 km/klst. tekur 8.7 sekúndur, að sögn MG.

1,83kWh rafhlaða gerir kleift að keyra hreint á rafmagni í stuttan tíma, sem aftur hjálpar ZS Hybrid+ að ná allt að 5,1 ltr/100km og losa 115 g/km af CO2. Með svo lítilli rafhlöðu er engin þörf á að stinga í samband, í staðinn er hún hlaðin frá endurnýtingarhemlun eða vélinni sjálfri.
Okkur hefur verið sagt af yfirmanni vöru og skipulags MG í Bretlandi, David Allison, að nýr ZS verði einnig fáanlegur með hreinni bensínvél snemma á næsta ári, en það verður ekki rafknúin útgáfa.
Þess í stað verður arftaki núverandi MG ZS EV allt annar rafjeppi byggður á MG4 hlaðbaknum.
Stíllega séð eru mikil líkindi á milli nýjasta MG ZS, MG3 ofursmábílsins og nýja MG HS millistærðarjeppans.
Rétt eins og systkini hans er nýi ZS með mjög breitt og áberandi framgrill sem er brotið upp með þunnum loftinntökum á hvorri hlið.
Það er líka dæmigert átthyrnt MG merki á nefinu, og hlífðarplata á stuðaranum að aftan skapar skemmtilegar andstæður. Það er síðan full LED lýsing að framan og aftan.



Nýi MG ZS er með 443 lítra farangursrými, sem er fimm lítrum minna en gamla gerðin en samt meira en það sem Nissan Juke og Peugeot 2008 bjóða upp á.
Auk þess skapast 1.457 lítra geymslupláss með því að fella niður aftursætin – 82 lítrum meira en forverinn gat rúmað.
MG ZS Hybrid+ er hægt að panta í SE eða Trophy útfærslum. Staðalbúnaðurinn inniheldur 12,3 tommu miðlægan snertiskjá með innbyggðu gervihnattakerfi, Apple CarPlay og Android Auto tengingu, sjö tommu stafrænan margmiðlunarskjá, bakkmyndavél, bílastæðaskynjara að aftan og lyklalaust aðgengi.

Fyrir rétt rúmar 450.000 kr. aukalega bætir Trophy gerðin við 18 tommu álfelgum, 360 gráðu myndavél, hita í framsætum og stýri, sex liða stillanlegu ökumannssæti og leðuráklæði.
Sérhver gerð kemur einnig með sjö ára/130.000 km. ábyrgð og ‘MG Pilot’ kerfinu sem býður upp á gnótt af öryggis- og ökumannsaðstoðarkerfum. MG Pilot sameinar virka neyðarhemlun með greiningu gangandi vegfarenda og reiðhjóla, viðvörun um þverumferð að aftan, aðlagandi hraðastilli, blindsvæðisskynjun, akreinaraðstoð og umferðarteppuaðstoð.
Uppruni: Autoexpress
Umræður um þessa grein