Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Verslunar og þjónustu segir fjárlagafrumvarpið boða miklar skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti.
Benedikt ræddi við okkur um hugsanlegar afleiðingar hækkun vörugjalda á bílageirann.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Umfangsmiklar hækkanir
Nýtt fjárlagafrumvarp fyrir 2026 boði umfangsmiklar breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Hann segir að þær breytingar muni hækka kostnað við bifreiðakaup verulega og skapa óvissu bæði fyrir innflytjendur og neytendur.
Raunin er sú að veittur er styrkur upp á 900 þúsund krónur á hverja fólksbifreið sem telst hreinorkuökutæki og hefur minna en 10 milljón króna útsöluverð. Að óbreyttu lækkar styrkfjárhæðin í 500 þúsund krónur á næsta ári, samkvæmt 21. grein reglugerðar.
Kílómetragjaldið óljóst
Benedikt segir að tafla 4.2 í fjárlagafrumvarpi 2026 sé sérstaklega áhugaverð og að tvennt veki mesta athygli. Annars vegar ólögfestar breytingar kenndar við kílómetragjald af ökutækjum sem eigi að auka tekjur ríkissjóðs um 3,3 milljarða króna árið 2026, og hins vegar 7,5 milljarðar króna í viðbótartekjur vegna þess sem kallað sé „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.
Auknar tekjur vegna kílómetragjalds séu áætlaðar mun hærri en þegar frumvarp í þá veru lá fyrir á síðasta löggjafarþingi. Þá var gert ráð fyrir tekjuauka upp á 2,7 milljarða króna og meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hafi lagt til breytingar sem hefðu átt að lækka gjaldið. Nú óttist hann að ekkert verði af þeim breytingum sem meiri hlutinn hafi lagt upp með og að jafnvel standi til að herða á skattlagningunni.
66,2% hækkun er tímaskekkja
Forsendur skatttekna má finna í fjárlagafrumvarpinu en þegar bornar eru saman tölur í töflu 4.2 og ríkisreikninga 2023 og 2024 komi ýmislegt í ljós. Tekjur vegna vörugjalda af ökutækjum eigi að hækka um 66,2% miðað við tekjuhorfur 2025. Tekjur vegna vörugjalda af bensíni, olíugjaldi og núverandi kílómetragjaldi eigi með kerfisbreytingu kílómetragjalds að hækka um hátt í 3,8 milljarða króna ef miðað sé við horfur 2025. Tekjur af kolefnisgjaldi eigi að hækka um 2,1 milljarð króna eða 17,2% og sú hækkun tengist að hluta áformum um breytingar á kílómetragjaldi. Samanlagt eigi tekjur ríkisins af skattlagningu ökutækja og eldsneytis að hækka um 19,3% eða rúma 13,4 milljarða króna á næsta ári.

Tafla 4.2
Greinargerð með fjárlagafrumvarpi gerir grein fyrir flestum forsendum nema hækkun tekna vegna vörugjalds af ökutækjum. Þar sé einungis vísað til „endurskoðunar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.
Gerist á versta tíma
Benedikt segir að á heildina litið boði fjárlagafrumvarpið mjög mikla skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óbeinir skattar hafi áhrif á verðlag og það sé algerlega óljóst hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þessara 7,5 milljarða króna sem merkt séu „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“. Flest bendi til að það verði gert með því að hækka vörugjöld af ökutækjum.
Það er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur séu um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs. Ef svona skattahækkanir verði að veruleika sé ljóst að þær áætlanir geti ekki staðist.
Veruleg hækkun á verði nýrra bíla
Meðalinnkaupsverð á nýrri rafmagnsbifreið var 5.972.323 krónur á síðasta ári og að við það hafi bæst tæpar 300 þúsund krónur í vörugjald. Ef vörugjaldið hækki um 66,2% muni innkaupsverðið að viðbættu vörugjaldi hækka um um 200 þúsund krónur og ofan á það bætist virðisaukaskattur. Á sama tíma muni styrkur vegna rafbílakaupa lækka um 400 þúsund krónur. Kaupverð slíkra ökutækja geti því hækkað um hátt í 700 þúsund krónur áður en tekið sé tillit til álagningar og annars kostnaðar.
Hann bætir við öðru dæmi: Meðalinnkaupsverð á nýrri lítilli bensín- eða dísilbifreið hafi verið hátt í 2,7 milljónir króna á síðasta ári. Vörugjaldið hafi verið 133 þúsund krónur en muni, miðað við sömu forsendur, nema 221 þúsund krónur. Að meðtöldum virðisaukaskatti hafi verðið hækkað um 110 þúsund krónur án þess að taka tillit til álagningar.
Í öllu falli boðar fjárlagafrumvarpið mjög harkalega skattahækkun á einstaklinga og fyrirtæki og að þetta muni hafa áhrif á verðlag og áætlanir bæði hjá innflytjendum og neytendum.
Að lokum segir Benedikt að mikilvægt sé að stjórnvöld útskýri áform sín skýrar áður en slíkar breytingar verði að veruleika.
Viðtal: Pétur R. Pétursson og Jóhannes Reykdal.




