Wartburg ferðafélagi úr fortíðinni
Wartburg bílaheitið var best þekkt sem Austur-Þýsk bíltegund en uppruna nafnsins á bílnum er hægt að rekja frá árinu 1898 til Þýska keisaraveldisins. Nafnið er dregið af Wartburg kastala sem stendur á einni af hæðunum við bæinn Eisenach en þar voru bílarnir framleiddir. En Heinrich Ehrhardt stofnaði verksmiðjuna Fahrzeugfabrik Eisenach (FFE) í Eisenach 3. desember 1896.
BMW eignaðist verksmiðjuna í nóvember 1928. Frá 1950 var Wartburg (fyrst undir öðru nafni) með þriggja strokka tvígengismótor með aðeins sjö stóra hreyfanlega hluti (þrír stimplar, þrjár stimpilstangir og einn sveifarás) inni í vélinni. Framleiðslan leið undir lok í apríl 1991 en Opel eignaðist verksmiðjuna.

Horfið endilega á eftirfarandi myndband um hinn sögufræga Wartburg kastala.
Fyrri tíma notkun Wartburg nafnsins
Wartburg bílaheitið á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1898 þegar bíll frá Automobilwerk Eisenach fékk nafnið Wartburgwagen. Sú sjálfrennireið var greinilega byggð á hestvögnum samtíðarinnar. Sjálfrennireiðin sú státaði af tveggja strokka, 765 rúmsentimetra vél. Topphraðinn var 40 km/klst.
Hætt var að nota nafnið Wartburg við eigendaskipti árið 1904 en það birtist aftur skamma stund á BMW 3/15 DA-3 Wartburg (1930 og 1931) sem var fyrsti sportbíll BMW, það er hægt að sjá myndir af honum hér.

Seinni tíma notkun Wartburg nafnsins

Nafnið var endurvakið árið 1956 af VEB Automobilwerk Eisenach (AWE) og gefið uppfærðri útgáfu af IFA F9 bíl fyrirtækisins sem hafði verið í framleiðslu frá árinu 1950. Nýi bíllinn, Wartburg 311, var með öflugri útgáfu af þriggja strokka tvígengisvélinni og var framhjóladrifinn með nýja yfirbyggingu. Á þessum tíma hafði Þýskalandi verið skipt í tvö lönd; Austur- og Vestur-Þýskaland og Wartburg verksmiðjan var í Þýska alþýðulýðveldinu, sem sagt austan megin við járntjaldið.
_02.jpg)

Útflutningur til Vestur-Þýskalands hófst árið 1958 og snemma á sjöunda áratugnum var bíllinn fluttur út til annarra landa, þar á meðal Bretlands og Bandaríkjanna. Fyrstu bílarnir með stýri hægra megin (fyrir vinstri umferð) voru framleiddir árið 1963 og fluttir út til Kýpur, þar sem breskir kaupendur kynntust bílnum árið 1964. Hins vegar voru aðeins 550 bílar (450 stallbakar og 100 skutbílar) seldir í Bretlandi. Þetta voru tveggja lita bílar seldir á sama verði og grunnútgáfan af Mini og höfðuðu aðallega til eldra fólks.
311 bíllinn var framleiddur í mörgum útgáfum, þar á meðal pallbíll, stallbakar og tveggja sæta opinn sportbíll. Blæjubíll var auglýstur í Austur-Þýskalandi árið 1957 en framleiðslan fór aldrei yfir 350 eintök.


Vélin var stækkuð í 992 rúmsentimetra árið 1962 og alveg nýr bíll var framleiddur 1966. Þessi útgáfa, 353, kom 1. júní 1966 og var seld sem Wartburg Knight (Wartburg Riddarinn) í nokkrum löndum, þar á meðal Bretlandi en skutbíllinn var seldur sem the Tourist (Ferðamaðurinn). Sú bifreið var áfram til sölu til ársins 1976 og þá höfðu tæplega 20.000 eintök verið seld. Þá hætti framleiðsla Wartburg með stýrið hægra megin en bílar með stýrið vinstra megin voru áfram fluttir inn til Bretlands og að minnsta kosti einum var breytt svo stýrið var hægra megin.

Árið 1966 kom Wartburg einnig með alsamhæfðum gírkassa sem var hannaður til að fríhjóla sem átti að bæta eldsneytisnýtingu og vernda vélina, sem þýddi að ef stöng undir stýristúpunni var ekki notuð til að gera fríhjólunina óvirka þá naut bíllinn ekki góðs af vélarhemlun.
Vegna þess að vélin var tvígengismótor þurfti rétta bensínblöndu (tvígengisolíu og bensín, í hlutfallinu 1:50) til að smyrja vélina.
Með fríhjólunarbúnaðinn óvirkan gat vélin orðið svelt af smurningu og fest sig ef farið var niður langar brekkur nema gefið væri inn endrum og eins. Engu að síður var mælt með því að gera fríhjólunina óvirka til að fá vélarhemlun þegar ekið var í snjó og ís.
Wartburg 353 var hægt að fá með þremur mismunandi yfirbyggingum. Limousine (stallbakur), Tourist (skutbíll) og Trans (pallbíll). 353W útgáfan sem var framleidd frá 3. mars 1975 var með nýtt, kringlótt mælaborð og svartlitað grill.
Týpan var einnig búin diskabremsum að framan. 353S útgáfan var með ný ferköntuð framljós sem voru innfelld í grillið sem fékk nýtt útlit og var heilt og samlitað. Í De Luxe útgáfunni var rafræn kveikja, 5-gíra gírkassi, þokuljós framan og aftan á bílunum, þjófaviðvörunarkerfi og samlæsingar.
Við venjulegar aðstæður gat þessi útgáfa náð um 150-155 km / klst. Þar að auki var vatnskassinn færður á bak við grillið en var áður fyrir aftan vélina.
Vél bílsins var 50, 55 eða 57 hestafla (37, 41 eða 43 kW – fer eftir framleiðsluári og þær voru með blöndungi). Eldsneytiseyðsla var varla ásættanleg fyrir snatt eða innanbæjarakstur. Tilboð Volkswagen um að flytja umfram vélasamsetningarlínu til Austur-Þýskalands, sem greiða átti af með framleiðslu, var samþykkt af stjórnvöldum á grundvelli minni eldsneytiseyðslu.
Árið 1988 kom nýr Wartburg 1.3 í stað gamla 353S, með áreiðanlegri en þó fyrirferðarmikilli fjórgengisvél úr Volkswagen Golf.
Nýja vélin var mun fyrirferðarmeiri en sú gamla svo að það þurfti að gera miklar breytingar á vélarrýminu.
.jpg)
Endalokin
VW vélin var 64 hestöfl. Hinn nýi Wartburg var skammlífur vegna sameiningar Þýskalands; framleiðslan var óhagstæð og gat ekki keppt við vestur-þýska framleiðendur. Framleiðslu lauk í apríl 1991 og var verksmiðjan keypt af Opel.
Hér er hægt að sjá myndir úr yfirgefinni verksmiðjunni.
Það komu fram fleiri Wartburg bílar en hafa verið nefndir hér, sumir voru hugmyndabílar og aðrir framleiddir í mjög fáum eintökum.
Enn eru nokkrir bílar í góðu ástandi á vegum erlendis og klúbbar Wartburg eru til um alla Evrópu. Sumir Wartburgar eru enn notaðir sem rallýbílar.
Viðtal við Ingvar Helgason um Wartburg
Hér fylgir „spjall“ sem Jóhannes Reykdal átti við Ingvar Helgason árið 1992 og hefur hvergi verið birt áður að ég held.
Wartburg vakti athygli fyrir góða fjöðrun
„Við byrjuðum að selja Wartburg vorið 1978,“ sagði Ingvar Helgason í spjalli við mig á sínum tíma, „og hann fékk strax góðar viðtökur.“
„Fyrsta eintakið af bílnum kom til okkar í janúar 1978 og vakti strax mikla athygli. Hann er framleiddur af sömu aðilum og framleiða Trabant, en í annarri verksmiðju í Eisenach, sem framleiddi BMW-bíla fyrir stríð og í stríðinu,“ sagði Ingvar.
Þetta spjall var vegna þess að við fórum nokkrir blaðamenn á vegum Ingvars Helgasonar og Bílheima í heimsókn til Eisenach í tilefni af því að Opel var að opna nýja verksmiðju í þessari borg sem var fræg fyrir að hafa framleitt fyrst BMW og síðar Wartburg. En það var greinilegt í þessari heimsókn árið 1992 að andi Wartburg sveif enn yfir vötnunum og meðal starfsmanna í þessari nýju verksmiðju Opel voru menn sem höfðu unnið í verksmiðjunni sem smíðaði Wartburg á sínum tíma og voru greinilega stoltir að hafa tekið þátt í því, en framleiðslu á Wartburg lauk í apríl 1991 og Opel keypti verksmiðjuna.
En þetta er útúrdúr og höldum áfram með upphafið að Wartburg.
Með bestu fjöðrunina
„Ég fullyrði að enginn bíll á okkar vegum hefur betri fjaðrabúnað“, sagði Ingvar í spjallinu. „Allir sem fara út á land á okkar vegum, sækjast eftir að fá að fara á Wartburg, því hann flýgur yfir þvottabrettin“.
Wartburg var með 70 hestafla tvígengisvél og eyðslan var aðeins um 8,5 lítrar á hundraðið, framhjóladrifinn og nokkuð hár frá vegi sem var kostur á þessum árum.
Þegar Wartburg kom á markað kostaði fólksbíllinn, Wartburg de luxe um 1300 þúsund krónur, en stationgerðin var á um 1500 þúsund sem var umtalsvert lægra verð en sambærilegir Vestur-Þýskir fólksbílar kostuðu á þessum árum
Í ársbyrjun 1983 kom ný gerð af Wartburg til Ingvars Helgasonar, „pick-up“ eða bíll með húsi fyrir tvo og góðum palli, og vakti mikla athygli fyrir lágt verð, en hann kostaði ekki helming af því sem sambærilegir japanskir bílar kostuðu. Einn kostur við bílinn að það var auðvelt að byggja ofan á hann hús því hann var byggður á grind.
„En stationbíllinn var alltaf meira og meira notaður sem snúningabíll eða jafnvel sendibíll fyrir smærri fyrirtæki og sem ferðabíll einstaklinga, enda er mjög gott pláss í bílnum og það fór vel um alla“, sagði Ingvar Helgason í spjalli árið 1992.
-JR

Ég hóf minn feril sem bifvélavirki á þjónustuverkstæði fyrir Ingvar Helgason snemma árs 1981. Frá fyrsta degi bæði gerði ég við og þjónustaði bæði Trabant og Wartburg. Þetta vann ég við í 11 ár með einhverjum hléum vegna frekara náms og kynntist því þessum bílum mjög vel (Trabant og Wartburg) enda skiptu bílarnir af þessum tegundum sem ég átti einhver handtök í mörgum hundruðum á þessu tímabili og sennilega fóru þeir langt yfir 1000 bíla og það er mjög varlega áætlað.
Það er ekki líklegt að tvígengismótorinn í Wartburg hafi verið 70 hestöfl eins og Ingvar heitinn sagði hafandi í huga að VW vélin var 64 hestöfl.
Líklega er eyðslutalan sem hann gaf upp miðuð við utanbæjarakstur, því þetta var ekki sparneytnasti mótorinn á markaðnum.
En ég er fullkomlega sammála með fjöðrunina, það var hátt undir bílinn og gott pláss fyrir alla í bílnum. Þetta var sterkur bíll á grind og ryðgaði ekki mikið minnir mig enda voru hurðir t.d. sprautaðar með einhverri kvoðu að innan og ég man ekki eftir því að þar hafi myndast ryð. Mögulega neðst á hurðunum þar sem var eingöngu lakk yfir.
Það var allt öðruvísi að keyra Wartburg en aðra bíla, mest var það gormafjöðrunin og það að hann var á grind. Maður sat hátt í bílnum og stýrið sem var „vöðvastýri“ eins og sumir vilja kalla það var mjög létt en stýrisvélin var tannstangarstýri með einhvers konar niðurgírun eða tvöfaldri tannstöng. En stýrisvélin bilaði aldrei svo að ég vissi af og því gat ég ekki gert „vísindalega“ rannsókn á því hvernig hún var uppbyggð.
Gírkassinn entist ágætlega minnir mig.
Kúplingin var veikleiki í þessum bílum og ökumaðurinn þurfti að vera mjög góður ef þær áttu að endast. En það var ekki á allra færi. Stundum kom það fyrir að fólk nánast kveikti í nýrri kúplingu eftir 200 metra akstur!
Einn þjóðþekktur maður sem verður ekki nefndur á nafn var sennilega verstur með þetta. Hann átti það til að taka af stað í þriðja gír og standa á kúplingunni.
Stundum gleymdi hann að skipta úr fyrsta gír og stóð allt í botni með vélina á hvínandi snúningi og eftir smá stund þá skiptir hann beint í fjórða gír á allt of litlum hraða þannig að vélin var alveg að koðna niður. Hann var mjög viðutan og mikill prófessor og var ekki að hugsa mikið um aksturinn.
Hugurinn var víðsfjarri og hann gat þess vegna ekið yfir á rauðu ljósi og svínað á aðra bíla án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. Hann var sjaldan í réttum gír. En þetta var mín reynsla og annarra sem urðu fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að vera farþegar í bíl með honum. Það þáði enginn far með honum tvisvar. En þetta var prýðismaður þó það hafi vantað mikið upp á að hann kynni að keyra.

Þegar kúplingin fór í Wartburg þá var grillið fjarlægt og mótorinn til að komast að henni. Mótorinn var oftast hífður upp í mótorgálga sem er rétta aðferðin eða fjarlægður af tveimur mönnum. Ég stalst til þess að prófa að taka mótorinn úr einn í eitt skiptið og komst upp með það.
Mótorinn var með steypujárnsblokk og álheddi minnir mig en heddið eða strokklokið var einn af veikleikunum í Wartburg.
En þessi þriggja strokka vél var meðalþung. Ég setti vélina aftur í einn. Þetta á maður aldrei að gera enda getur maður eyðilagt í sér bakið.
Mig minnir að þetta hedd eða strokklok hafi verið þannig að það mátti ekki plana eða hefla mikið af því. En í einu tilfelli sem það var gert varð viðskiptavinurinn alveg brjálaður og sagði að bíllinn væri kraftlaus eftir viðgerðina. Þau viðskipti enduðu þannig að viðskiptavinurinn rauk á dyr í miklu fússi, settist undir stýri, setti í gang og reykspólaði í burtu! Þvílíkt og annað eins kraftleysi!
Wartburg var stýrisskiptur eins og það er kallað. En þar var einn versti veikleikinn, því kúluliðir sem voru plastmánar áttu það til að þorna upp og detta úr sæti sínu. Feitin entist illa.
Talandi um feitina sem var notuð í Trabant og Wartburg: hún var mjög illa lyktandi og lyktin fór ekki af höndunum fyrr en eftir marga handþvotta. Það er ekki prenthæft nafnið sem þessari feiti var gefið á Íslandi. Samfélagsmiðlarnir færu á hliðina ef ég birti nafnið og Bílabloggið bannað um aldur og ævi.
Svo ég sleppi því en þetta þótti í lagi á þeim tíma en naumlega þó.
Læsingin á vélarhlífinni var einn veikleikinn í þessum bílum. Í eitt skipti þegar ég fór í prufuakstur til að sannreyna viðgerð áttaði ég mig á að vélarhlífin var ekki vel lokuð sem kæmi oftast ekki að sök nema í Wartburg.
Þannig er að fyrst fer húddið í öryggislæsingu og svo í aðallæsinguna og þá er það fulllokað. En sem sagt það var ekki fulllokað og það er þessi öryggislæsing sem á að vera til að koma í veg fyrir að vélarhlífin flettist upp á ferð ef aðallæsingin klikkar sem var veikleikinn.
Þannig að ég átta mig á þessu og þegar heilinn er nýbúinn að gefa hægri fætinum skipun um að hemla, þá flýgur húddið upp og fer yfir framrúðuna og gluggapóstana og ég sé að sjálfsögðu ekki neitt!
En vélarhlífin í Wartburg var úr áli og var mjög létt og slétt. Það fór þannig að allt slapp nema húddið sem formaðist fullkomlega eftir lögun framrúðunnar. Mér fannst þetta ekkert fyndið þá en núna þykir mér það rosalega fyndið!
Árlega sendu Trabant og Wartburg verksmiðjurnar menn sem gátu alveg verið verkfræðingar eða jafnvel Sovéskir njósnarar og komu við á þjónustuverkstæðunum. Þeir voru í eftirliti og fylgdust með því að við værum að gera rétt við bílana.
Oft var gert við startara o.fl. í þessum bílum en stundum kom það fyrir að það svaraði ekki kostnaði svo það var frekar skipt um enda voru varahlutirnir oft frekar ódýrir í þessa bíla á Íslandi en vinnustundin dýr.
Þetta skildu þessir ágætu herramenn frá kommúnistaríkinu alls ekki enda kostaði vinnustundin hjá þeim sáralítið í samanburði við verð á varahlutum sem oft var takmarkað framboð af og því var gert við alveg fram í rauðan dauðann frekar en að skipta um.
Þeir sögðu bara hátt og snjallt við vinnuveitanda minn, KAPITALIST! Þessir tveir minntu mig á Herr Flick og Von Smallhausen úr Allo Allo þáttunum.
Wartburg var örugglega mikið meiri og betri bíll en flestir gerðu sér grein fyrir þrátt fyrir sína galla. Þetta var einn albesti ferðabíll sem var í boði á sínum tíma og ég hefði ekki mikið á móti því að eiga einn í góðu ástandi til að ferðast um landið í sumar. Líklega er þó ekki möguleiki á að fá varahluti í Wartburg lengur.
Eins og við höfum komist á snoðir um er Wartburg ekki það sama og Wartburg. Fyrst var Wartburg hálfgerður hestvagn með mótor 1898 svo var Wartburg BMV sportbíll 1930-31 en almennt þekktum við ekki Wartburginn á Íslandi fyrr en 1978 þó 353 týpan hafi verið til löngu fyrir þann tíma.
Þetta var bíll sem var framleiddur af vanefnum eins og Trabant og það þurfti samþykki stjórnvalda fyrir öllu. Það sýndi sig m.a. í því að hann var lítt hljóðeinangraður og það var frekar hátt tunnuhljóð inni í honum. Að ráða rándýra bílahönnuði eða verkfræðinga til að bæta útlit bílsins var ekki inni í myndinni.
Wartburginn var ferðafélagi sem ég var samferða í 11 ár og ég sakna hans svolítið.
Þeir lesendur sem horfðu á myndbandið um Wartburg kastalann hafa eflaust tekið eftir því að Marteinn Lúter sjálfur dvaldi í þessum kastala um skeið og þýddi þar Nýja Testamentið úr grísku yfir á þýsku. Hefði hann mælt með Wartburg bílum eða mælt á móti þeim ef hann hefði haft tækifæri til þess? Það er mín trú að hann hefði mælt á móti bílunum en honum er velkomið að mótmæla því ef rangt reynist.

(Við gerð þessarar greinar var mikið stuðst við Wikipedia greinar og margar af myndunum koma þaðan, samtal Jóhannesar Reykdal við Ingvar Helgason og mitt eigið stopula minni.)
Umræður um þessa grein