Það er eitthvað sérstakt við að stíga upp í nýjan Volkswagen ID.Buzz GTX. Þótt útlitið minni á klassíska VW rúgbrauðið sem margir tengja við frelsi og ferðalög, þá lætur þessi nýjasta útgáfa ekki velkjast í vafa um að hér sé á ferðinni tæknivæddur og nútímalegur rafbíll.

Einstaklega fallegar línur í nýjum ID.BUZZ GTX.
Kraftur og aksturseiginleikar sem koma á óvart
Við tókum GTX útgáfuna í prufuakstur um Reykjanesið og það má segja að akstursupplifunin hafi verið hreint út sagt frábær. Með 250 kW (340 hö) afli og fjórhjóladrifi var alltaf nægur kraftur til staðar, hvort sem við tókum fram úr á þjóðvegi eða keyrðum upp smá brekkur við nýbakaða hraunið við Grindavík.
Hröðunin úr kyrrstöðu í 100 km/klst á aðeins 6,4 sekúndum er ekkert annað en áhrifamikil fyrir jafn stóran bíl, og við fundum fyrir smá sportbílatilfinningu í bíl sem samt býður upp á rými líkt og sendibíll.

Hér er alveg nóg pláss. Allt að 2.500 lítra farangursrými.
Stýringin er nákvæm og lipurð bílsins kom okkur skemmtilega á óvart – beygjuradíus frá 11,8 metrum gerir hann meðfærilegan í þröngum götum þrátt fyrir næstum 5 metra lengd.
Bíllinn liggur vel á vegi og fjórhjóladrifið veitir öryggi, sérstaklega á möl og holóttum vegum.
Veghljóð var þó aðeins meira en vænta mátti í bíl af þessum klassa, sérstaklega á grófum íslenskum vegum, en það truflaði þó ekki upplifunina verulega.

Þú situr hátt í bílnum og nýtur útsýnisins eftir því.
Þægindi og fjölhæfni
ID.Buzz GTX er fjölhæfur bíll. Hann hentar þeim sem vilja lúxus í daglegum akstri, rými fyrir alla fjölskylduna, en jafnframt möguleikann á að leggja í langt ferðalag um landið án vandræða með pláss eða drægni.
Með val um 6 eða 7 sæta útfærslu, nuddi í framsætum og þriggja svæða loftkælingu er vel hugsað um alla farþega.


Hægt er að fá bílinn í 6 eða 7 sæta útfærslu.
Innréttingarnar eru bæði stílhreinar og praktískar. Upphituð framsæti með mjóbaksstuðningi, armpúðar og stór miðjustokkur með geymsluhólfum gera lengri bíltúra ánægjulega.
Stemningarlýsingin með 30 litum gefur innanrýminu hlýlegt yfirbragð og pedalar með „Play“ og „Pause“ merkjum minna mann á leikgleðina sem fylgir akstrinum.

Takið eftir miðjustokknum. Hann er dýnamískur og hægt að fjarlægja ef vill.
Tækni sem bætir lífið á ferðinni
Það er gaman að sjá hversu mikið Volkswagen leggur í notendavæna tækni í þessum bíl. Stór 12,9” Discover Pro snertiskjár með íslensku leiðsögukerfi er skýr og auðveldur í notkun, og hljómkerfið með 9 hátölurum skila góðum hljómi hvort sem þú ert að hlusta á podcast á leiðinni í vinnu eða tónlist á ferðalagi með fjölskyldunni.
Þráðlaus tenging fyrir bæði Apple CarPlay og Android Auto kemur sér vel, og mörg USB-C tengi með allt að 45W hleðslugetu tryggja að tækin þín verða aldrei straumlaus á langferðum.


Sætin eru á pari við það besta í bransanum. Hægt er að lengja setur og fá mjókbaksnudd.
Hleðsla – hraði og V2V möguleikar
86 kWh rafhlaðan gefur allt að 473 km drægni (WLTP), sem gerir ferðalög auðveld í skiplagningu en borgarakstur er bara ekki neitt mál með þessa hleðslu.
Hraðhleðsla með allt að 185 kW DC gerir þér kleift að ná 80% hleðslu á aðeins 30 mínútum, sem er sérstaklega þægilegt á ferðalögum.

ID.BUZZ er hægt að fá í fjölda lita og einnig í tvítóna litasamsetningu.
Það sem gerir GTX útgáfuna enn fjölhæfari er möguleikinn á að nýta bílinn sem rafmagnsgjafa fyrir hluti í kringum þig með V2V (Vehicle-to-Vehicle) virkni. Þú getur hlaðið raftæki, hjól eða jafnvel annan bíl úr batteríinu á Buzz, sem getur skipt sköpum á útilegum eða þegar hjálpa þarf öðrum rafbílaeiganda í neyð.
Hönnun sem vekur athygli
Útlitið er í senn retro og framtíðarlegt með stórum 20” álfelgum, skyggðum rúðum og kraftmiklu yfirbragði. LED ljósabúnaður, bæði að framan og aftan, gefur honum sportlegt yfirbragð og glæsilega viðveru á veginum.
Innréttingin heldur áfram sama þema með flottu efnisvali og þægilegum sætum sem gera lengri ferðir að ánægjulegri upplifun.

Niðurstaða – einn bíll fyrir allt
Volkswagen ID.Buzz GTX er ekki bara bíll – hann er ferðafélagi sem sameinar lúxus, afköst, rými og framtíðartækni. Hann hentar jafnt sem daglegur fjölskyldubíll, vinnubíll eða ferðabíll fyrir lengri ferðir um Ísland.
Þó að smávægilegt veghljóð heyrist, þá er það lítið mál miðað við alla kosti sem þessi bíll býður upp á.






Ef þú ert að leita að bíl sem sameinar kraft, þægindi, öryggi, fjölhæfni og nýjustu tækni, þá er Volkswagen ID.Buzz GTX bíll sem þú ættir klárlega að prófa.
Myndband
Helstu tölur
Verð: 12.530.000
Afl: 335 hestöfl.
Hámarkshleðslugeta: 185 kW í hraðhleðslu og 11 kW í heimahleðslu
Drægi: 502 km. skv. WLTP.
Farangursými: 1340/1878 ltr.
Þyngd: 2.78 tonn.
Lengd/breidd/hæð mm.: 4.962/1.985/1.924
Myndataka: Radek Werbrowski og Ólöf A. Þórðardóttir
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson
Reynsluakstur: Radek Werbrowski og Pétur R. Pétursson