Vision EQS er sýn Mercedes Benz á sjálfkeyrandi rafmagnsbíla


Enn á ný lítum við til IAA – alþjóðlegu bílasýningarinnar í Frankfurt og enn er það hugmyndabíll – Mercedes Vision EQS – sem sýnir hugmyndir vörumerkisins um hvernig, sjálfkeyrandi lúxus fólksbíll með núllútblástur gæti litið út í ekki of fjarlægri framtíð.
Vision EQS var kynntur á bílasýningunni í Frankfurt á þriðjudag. Hann er byggður á nýjum grunni rafbíla sem hægt er að aðlaga að stærð með auðveldum hætti, sem kallast EVA2. Þessi grunnur er að fullu breytilegur hvað varðar hjólahaf og sporbreidd til að koma til móts við ýmis ökutæki í mismunandi stærðum og gerðum.
Framleiðslugerð EQS væri rafknúið systkini flaggskips fólksbíla Mercedes.
Mikið afl
Bíllinn er knúinn af rafmótor á hverjum öxli sem saman framleiða 350 kílóvött afköst og gríðarlegt tog, eða 760 Newton metra, og hröðun EQS frá 0 í 100 km frá kyrrstöðu er innan við 4,5 sekúndur.
Dótturfyrirtæki Mercedes sem framleiðir rafhlöður, Accumotive, býr til 100 kwh rafhlöðupakkann. Drifrásin er nógu öflug til að skila allt að 700 km akstursvegalengd á einni hleðslu samkvæmt WLTP prófunarferlinu evrópska.

Hugmyndabíllinn getur notað öflugustu hraðhleðslustöðvar sem eru til og endurnýjað hleðslu rafhlöðunnar með 350 kílówöttum, á tíma sem tekur innan við 20 mínútur.


Vision EQS er einnig fær um að stjórna stigi 3 „handfrjálsum“ sjálfkeyrandi akstri á þjóðvegum og hægt er að uppfæra hann í fulla sjálfstjórn með viðbættum skynjurum.
Hönnun hugmyndarinnar skiptir bifreiðinni upp í efri og neðri helming sem er aðskilinn með tveggja tóna litasamsetningu.
Ljósdíóður (LED) skipta hér miklu máli
Nýtt útlit á grilli notar samtals 940 einstakar ljósdíóður sem stjórnað er af 188 aðskildum rafrásum til að gefa framendanum þrívíddaráhrif. Sem framljós er Vision EQS með tvær linsueiningar á hvorri hlið sem hægt er að snúa á við vel yfir 2.000 snúninga á mínútu til að búa til „heilmyndarútlit“ sem Daimler hefur kallað „Stafrænt ljós“.

Hver af 500 LED-perunum sem er minna en einn millímetar að lengd eru virkjaðar með aðskildum hætti og geta snúist á þremur mismunandi stigum til að framleiða fljótandi „þrívíddarsýn“, að því er fram kemur hjá Mercedes.


Vision EQS skortir einnig hefðbundin afturljós, sem venulega eru á svona bílum, en notar í stað þess „ljósbelti“ sem umkringir bílinn og samanstendur af litlum Mercedes stjörnum að aftan sem notuð eru til að gefa stefnumerki.
Mercedes sagði að lúxussnekkjur hefðu þjónað sem innblástur fyrir ljósu litina og efni í innanrými.

Mælaborðið, miðjustokkurinn og armpúðar sameinast í einn flæðandi þátt sem gefur vísbendingu um framtíðarstíl Mercedes hvað varðar lúxusfólksbíla.

Gert er ráð fyrir að framleiðsluútgáfa af EQS verði smíðuð í verksmiðju Daimler 56 í Sindelfingen, fyrstu kolefnishlutlausu verksmiðjunni í Þýskalandi.








