Vatt mun kynna rafdrifinn Maxus pallbíl á næstu vikum
Er að vísu enn bara afturhjóladrifinn – en 4×4 er handan við hornið
Er líka að koma á markað í Noregi og vekur þar athygli
„Það er verið að vinna í því að sækja fyrstu bílana úr tolli. Og þeir verð komnir í sýningarsalinn hjá okkur innan fárra vikna“, sagði Úlfar Hinriksson framkvæmdastjóri hjá Vatt og Suzuki-bílum, þegar við vorum að forvitnast um nýja rafdrifna pallbílinn frá Maxus, sem við höfum áður fjallað um að sé á leiðinni, og er þessa dagana einnig að koma á markað hjá frændum okkar í Noregi.
„Við þurfum aðeins að vinna okkur í haginn og lagfæra sýninigaraðstöðuna, áður en við náum að frumsýna bílinn“, segir Úlfar.
Eins og þegar hefur komið fram í fyrri fréttum, þá eru þessi fyrstu bílar Maxus T90EV aðeins afturhjóladrifnir, en þurfum væntanlega að bíða eftir 4×4 útgáfu þegar sú gerð kemur væntanlega á árinu 2024.
Bílablogg mun fjalla nánar um þennan nýja rafdrifna pallbíl um leið og Vatt kynnir hann á markaði.

Rafdrifinn Maxus pallbíll þykir spennandi valkostur í Noregi
Við hér hjá Bílabloggi höfum áður fjallað um þennan nýjan rafdrifinn pallbíl sem er á leiðinni á Evrópumarkað. Í fyrra kom hann til sölu á Englandi og þessa dagana eru frændur okkar í Noregi að taka bílinn í sölu.
Pallbílar hafa tekið við sér á norska bílamarkaðinum og á árinu 2022 voru skráðir næstum 3.000 slíkir í Noregi.
Sumir þessara bíla eru ekki skráðir sem „fólksbílar“ í Noregi og eru því aðeins með tvö lögleg sæti.

En nú er nýr valkostur kominn sem gæti freistað suma þeirra sem vilja fimm sæta með hagnýtu skipulagi, segir bílavefurinn BilNorge.
Skoðum aðeins nánar hvað þeir segja um þennan nýja valkost á markaðinum:
Maxus er tilbúinn með fyrsta rafmagns pallbíl Norðmanna eT90. Og verðið? Frá 584.900 NOK (um 7.973.000 ISK) sem fimm sæta fólksbíll.

Bíllinn er svokallaður Double Cab með fullum þægindum fyrir farþega fyrir allt að fimm manns.
Hann er 5,37 metrar að lengd, er 1,9 metrar á breidd og hæðin á bílnum er 1,8 metrar.
Hjólhafið er rúmir 3,15 metrar og veghæðin er gefin upp 187 mm.
Og pallurinn er 1485 mm á lengd og 1510 mm á breidd.

Hagnýtur
Eiginþyngd er 2300 kg og hægt að hlaða 1000 kg auk þess að draga 1000 kg eftirvagn.
Hagnýtur vinnuhestur, með öðrum orðum, segir BilNorge um bílinn.

Bíllinn er afturhjóladrifinn, fjórhjóladrifin útgáfa kemur ekki fyrr en árið 2024, hann er með 177 hestafla vél (130 kW) með 310 newtonmetra hámarkstog.
Rafhlöðupakkinn hefur afkastagetu upp á 88,5 kWh sem ætti að endast í 334 kílómetra drægni miðað við WLTP-ferlið.
Hámarks hleðsluafl 80 kW ætti að fylla rafhlöðurnar frá 20 til 80 prósent á þremur stundarfjórðungum við kjöraðstæður.

Margir bílar á leiðinni til Noregs
Innflytjandinn segir bílinn státa af rúmgóðri og nútímalegri innréttingu með meðal annars 10,3 tommu snertiskjá, stillanlegum framsætum á sex vegu, Apple CarPlay og tvíhliða stillanlegu leðurstýri.
Þeir geta líka lofað hröðum afhendingum þar sem hátt í 1.000 bílar eru á leiðinni til Noregs.

„Við höfum lengi hlakkað til að setja fyrsta rafmagns pallbíl Evrópu á markað og loksins eru bílarnir komnir til landsins. Bílar hafa verið sendir til allra söluaðila undanfarnar vikur og viðbrögðin eru mjög góð, segir Bernhard Jahnsen, sölustjóri hjá Maxus Norway.
Margir tengja pallbíla við fjórhjóladrif, en Jansen býður efasemdarmönnum að heimsækja söluaðila og fara í reynsluakstur.
Eiginleikar eT90 í akstri, og torfærum, eru mjög góður vegna staðsetningar vélar og rafhlöðupakka sem gefur frábæra þyngdarpunkt og tryggir mjög gott veggrip.
Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá fyrstu tilraunaökumönnum, segir Jahnsen
(frétt byggð á upplýsingum frá Vatt á Íslandi og BilNorge)