Undarlegt ár að baki en bjart yfir bílgreinum
Það er engum blöðum um það að fletta að nýliðið ár var vægast sagt sérstakt. María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, fór ásamt blaðamanni Bílabloggs yfir það sem hæst bar á liðnu ári sem og hvernig nýtt ár lítur út innan bílgreina hér á landi.
Óvissa en þó söluaukning
Sala á ökutækjum var með skrautlegasta móti, ef svo má segja, árið 2020. „Mest sáum við 74 prósent minnkun á milli mánaða, á milli 2019 og 2020 en við sáum líka 44 prósent aukningu í öðrum mánuði svo að sveiflurnar voru miklar,“ segir María.
Sé fyrrihluti árs 2020 borinn saman við seinni hluta þess þá var samdráttur um 42,5 prósent en seinnihluta árs var aukning sem nam 16,7 prósentum.

„Það sem kemur á óvart er aukning í sölu fólksbíla til almennings og til fyrirtækja en þar var rúmlega sjö prósent aukning frá fyrra ári og það er mjög jákvætt. Nýorkubílar seljast meira og eru að sækja í sig veðrið. Það er líka fyrir tilstuðlan stjórnvalda að vera með ívilnanir fyrir þessi ökutæki sem gerir þeim kleift að vera samkeppnishæf í verði.“
57,9 prósent allra nýskráninga bíla árið 2020 voru nýorkubílar og þar af voru 25,2 prósent „hreinir“ rafmagnsbílar, þ.e. ekki tvinnbílar.
Úr 6.700 bílaleigubílum í tæplega 2.000
Bílaleigur hafa sprottið upp eins og gorkúlur á haugi síðasta áratuginn eða svo og bílaleigubílar því stór hluti ökutækjaflotans. Segir María að um 40 prósent nýskráðra bíla á ári hafi verið bílaleigubílar og þannig hafi það að jafnaði verið undanfarin ár.
„En á síðasta ári voru þetta ekki nema tuttugu prósent. Þetta voru tæplega tvö þúsund bílaleigubílar. Við getum til dæmis borið saman við árið 2019 þegar nýskráðir bílaleigubílar voru tæplega 4.900 og árið þar á undan um 6.700,“ segir hún.
Samdrátturinn þar er augljóslega mikill en hefur hann haft áhrif á sölu notaðra bíla? Maður veltir því fyrir sér og sannarlega er María rétta manneskjan til að svara þeirri spurningu.
„Við erum reyndar ekki komin með síðustu tölur en markaður notaðra bíla hefur gengið ótrúlega vel og mikil sala verið.“ Þar sem dregið hefur úr sölu nýrra bíla en notaðir bílar seljast vel er eðlilegt að ætla að meðalaldur bílaflotans fari ögn upp á við. Förgunartölur desembermánaðar eru ekki komnar en tölur frá janúar til og með nóvember 2020 sýna að 9.328 ökutækjum var fargað á tímabilinu.
„Árið þar á undan var 10.789 bílum fargað og ég geri ráð fyrir að þeir verði færri í ár og við munum sennilega ekki skrá eins mikið af nýjum bílum,“ segir María og minnir á að þarna vantar, sem fyrr segir, tölur desembermánaðar. Verður áhugavert að bera tölurnar saman þegar þær verða aðgengilegar, sem og að rýna í meðalaldur þeirra bíla sem fargað var árið 2020.
Bjart yfir bílgreinum á Íslandi
Fagfólk í bílgreinum hefur vissulega fundið fyrir áhrifum heimsfaraldursins, rétt eins og aðrir. En það er þó bjart yfir.

„Við erum mjög þakklát stjórnvöldum fyrir að hafa komið bílgreininni inn í verkefnið „Allir vinna“ þannig að það er hægt að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðgerðum á ökutækjum og þetta skiptir mjög miklu máli fyrir greinina á þessu ári,“ segir María og segir jafnframt flesta sem hún hefur rætt við vera nokkuð bjartsýna og að ágætlega hafi gengið.
Atvinnuleysi innan greinarinnar sé ekki eins mikið og innan margra annarra greina. „Jú, það voru vissulega fleiri án atvinnu 2020 en árið á undan en í heildarhlutfallinu þá er það að lækka.“
Árið 2019 voru 174 (innan bílgreina) á atvinnuleysisskrá en 287 á tímabilinu janúar til ágúst 2020. Tölur fyrir allt árið eru ekki komnar. „Auðvitað er þetta aukning en við sjáum þetta ekki fara eins hátt og í síðasta hruni,“ og þar gegnir „Allir vinna“ stóru hlutverki, eins og komið var inn á áður.
„Við ætlum að fara ágætlega bjartsýn inn í þetta ár. Vextir af lánum eru tiltölulega lágir, fréttir af bóluefni bárust í desember og er það stór liður í því hvernig ferðamannaiðnaðurinn mun vera á þessu ári. Við erum að áætla í spálíkani okkar sölu á 11.000 nýjum fólksbílum og það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður,“ segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins að lokum.
Nánar um spálíkan Bílgreinasambandsins fyrir árið 2021 má lesa hér.
Myndir: Jóhannes Reykdal og Bílgreinasambandið.



