Þá ók blaðamaður inni í húsi og uppi á þaki

136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Frumsýning á Fiat 500e vekur upp gamlar minningar

Ísband í Mosfellsbæ frumsýndi í gær rafdrifinn Fiat 500e, sem strax við fyrstu sýn virðist vera hinn fullkomni „borgarbíll“ – lítill og nettur, rafdrifinn, með gott og rúmgott innanrými og síðast en ekki síst þriðju hurðina við götubrún sem auðveldar aðgengið mjög.

En frumsýningin á þessum nýja rafbíl frá Fiat vekur upp minningar frá þeim tíma þegar Fiat var raunverulegur „bíll fólksins“ um alla Evrópu, og einnig hér á landi.

Fiat 500 árgerð 1969.

Á síðustu árum síðustu aldar var það Fiat Uno sem átti hug og hjörtu bílakaupenda um alla Evrópu. Þessir bílar náðu góðri hylli kaupenda hér á landi og eitt árið seldust meira en eitt þúsund Uno hér á landi.

Meira að segja blaðamaður Bílabloggs eignaðist einn slíkan, árgerð 1987 með 999cc vél; Fiat Uno 45, sem þjónaði fjölskyldunni í mörg ár og þegar upp var staðið höfðu þrír Uno-bílar átt leið um hlaðið hjá okkur.

Fyrsti bíllinn sem blaðamaður Bílbloggs eignaðist á sínum tíma sem var „nýr úr kassanum“ var einmitt svona Fiat Uno 45.

Á þessum árum var oft boðið í reynsluakstur á Fiat Uno þegar nýjar gerðir komu fram á sjónarsviðið, og ein þessara ferða var sérlega minnisstæð vegna nokkurra atriða.

Kappakstursbraut á þaki verksmiðjunnar

Þannig hagaði til í Tórínó, heimabæ Fiat að á efstu hæð gömlu verksmiðjubyggingarinnar, Lingotto, í hjarta borgarinnar hafði Fiat látið búa til reynsluakstursbraut, eiginlega raunverulega „kappakstursbraut“, þar sem nýjum bílum var reynsluekið.

Kappakstursbrautin í notkun skömmu eftir vígsluna 1923.

Í þessari tilteknu heimsókn var löngu búið að leggja af bílaframleiðslu í þessari 6 eða 7 hæða byggingu, en enn var hægt að aka upp hringlaga braut í miðri byggingunni.

Hér var ekið innanhúss, alla leið upp á topp.

Við blaðamennirnir sem vorum frá mörgum löndum Evrópu byrjuðum á því að aka þessari nýju gerð af Uno upp hringinn innanhúss og fara svo nokkra hringi á brautinni uppi á þaki gömlu verksmiðjunnar.

Arkitektinn Giacomo Mattè-Trucco öðlaðist frægð fyrir hönnun verksmiðjunnar en hún var í byggingu frá 1916 til 1923.

En eftir nokkra hringi var leikurinn stöðvaður og okkur sagt að leggja bílunum og fylgja kynningarstjóra Fiat á annan stað á brautinni.

Þar beið okkar röð af eldri gerðum frá Fiat; allt frá gamla og góða „Topolino“ til nýrri gerða.

Mér var úthlutaður þarna fallegur Fiat 500 árgerð 1969, sem skyldi verða „minn bíll“ þennan daginn.

Kíkt í heimsókn til Ferrari

Byrjað var á því að fara nokkra hringi á brautinni á þakinu á Lingotto, en síðan lá leiðin niður alla hringina, niður á jafnsléttu og síðan var brunað úr borginni út í sveit.

Þá tók við ferðalag um sveitirnar í nágrenni Tórínó. Stoppað var í litlu þorpi, þar sem sumir fengu sér kaffi en nokkrir sturtuðu í sig bjór eða heilli hvítvínsflösku og svo var aftur farið „út að aka“.

Þegar komið var undir kvöld var meira að segja komið við hjá Ferrari í Maranello, þar sem við fengum að skoða Ferrari safnið áður en haldið var til baka til Tórínó. Ógleymanlegur dagur!

Svipaðar greinar