Tæplega 26% aukning nýskráninga á milli ára
16.552 bílar skráðir það sem af er þessu ári á móti 13.143 á sama tíma í fyrra
Samgöngustofa opnaði í síðasta mánuði nýjan og betri bifreiðatöluvef. Með nýjum vef er aðgengi að tölfræði um ökutæki á Íslandi stórbætt og framsetningin býður upp á ýmsa möguleika sem ekki voru áður til staðar.
Með nýja vefnum er m.a. fjölmiðlum og almenningi auðveldað aðgengi að upplýsingum vegna umfjöllunar um ökutæki á Íslandi.
Á þessum nýja bifreiðatöluvef er m.a. hægt að:
- Skoða upplýsingar úr ökutækjaskrá með notendavænum og skilvirkum hætti.
- Bera saman nýskráningar ökutækja eftir orkugjöfum.
- Gera samanburð á ýmiskonar tölfræði milli ára.
- Skoða bifreiðaskráningu eftir bæjarfélögum.
Toyota á toppnum, en Kia og Hyundai fylgja skammt á eftir
Þega tölfræði er skoðuð nánar á þessum vef með tilliti til nýskráninga sem af er árinu, sést að Toyota trónir á toppnum með 1842 nýja bíla, en Kia kemur þar skammt á eftir með 1664 bíla og Hyundai er síðan í þriðja sæti með 1167 bíla.

Þaðan er síðan svolítið hopp niður í fjórða sætið en þar er Volkswagen með 757 bíla. Þar nánast jafnfætis situr Tesla með 754 bíla og þar er næst Suzuki með 700 bíla.
Outlander í efsta sæti af einstökum gerðum
Þegar við skoðum hins vegar stöðuna á einstökum gerðum bíla, þá kemur í ljós að Mitsubishi Outlander er í efsta sæti með alls 624 bíla skráða hjá Samgöngustofu það sem af er árinu.
Athyglisverðar tölur, því í raun er þessi bíll dottinn út af markaði í Evrópu, og þar með talið hér á landi, en greinilega hafa fundist bílar til að svara eftirspurninni sem var dágóð, og bíllinn vinsæll hér á landi.
Sú undirgerð sem er í öðru sæti á landinu í dag er Toyoya RAV4 með 555 bíla og Hyundai Tucson í þriðja sæti með 507 bíla. Þessar tölur segja svo enginn vafi leikur á að „kaupendamarkaðurinn“ á Íslandi í dag er hrifinn af fólksbílum með „jeppaeiginleika“, sem eru ekki alvörujeppar, miklu frekar það sem við höfum verið að vandræðast með sem skilgreininguna „sportjeppi“.
Aukin rafbílavæðing skilar sér svo í fjórða sætinu með rafbílinn Tesla Model 3 í 438 eintökum.
En það er svo „alvöru“ jeppi í fimmta sætinu; Toyota Land Cruiser með 354 bíla skráða á árinu það sem af er.
Rafmagnið sækir á
Þessi tölfræðivefur sýnir okkur einnig hvernig innflutningurinn skiptist eftir orkugjöfum. Þar sækir rafmagnið verulega á, því í efsta sæti eru bílar með blandaða orkugjafa – bensínvél að viðbættri raftengingu – sem alls eru 3.402 skráðir bílar.
Hefðbundnir dísilbílar eru í öðru sæti með 3.317 eintök, en rafbílar, sem eingöngu nota rafmagn frá rafhlöðum koma þar ekki langt á eftir með 3.079 skráða bíla, og hefðbundna bensínvélin er þarna eiginlega á pari, með aðeins tveimur færri skráða nýja bíla, eða 3.077 bíla.
Fyrir þá sem hafa gaman af að skoða svona tölur liggur beinast við að fara á þennan tölfræðivef Samgöngustofu og skoða betur.



