Myndband með þessari grein!
Það er eiginlega erfitt að tengja nafnið Smart við þennan bíl – nema til að segja að Smart hafi loksins orðið… smart. Því Smart #5 er gjörólíkur öllu sem Smart hefur áður sett á markað.

Skemmtilegur liturinn á Summit Edition bílnum, hermannagrænn og svo gerir toppgrindin bílinn nokkuð „túristalegan“. Svo er hann líka með mattri lakkáferð.
Fyrirtækið sem eitt sinn var þekkt fyrir tveggja sæta smábíla fyrir borgarlíf í Evrópu hefur nú stigið inn í nýja veröld stórra, aflmikilla og tæknihlaðinna rafbíla – með Smart #5 sem flaggskip.
Lúxus sportjepplingur
Uppruna Smart vörumerkisins má rekja aftur til samstarfs Mercedes-Benz og Swatch á síðustu öld, þegar markmiðið var að búa til nettan borgarbíl sem gæti lagt þvert í stæði og eytt ekki meiri orku en brauðrist.

Smart #5 er veglegur bíll með frábæru innanrými – rúmgóður og gott að ganga um bílinn.
Smart Fortwo varð táknmynd smábíla í Evrópu – en hann var líka bundinn við mjög þröngt hlutverk.
Eftir samruna Smart og kínverska bílarisans Geely tók nýr tími við. Húsbændurnir ákváðu að Smart ætti ekki lengur að vera aðeins „borgarleikfang“ heldur raunverulegur keppinautur í millistærðar flokki rafbíla.

Ég þurfti að „gúggla“ hvar skottið er opnað utan á bílnum. Ekkert mál að opna með fjarstýringunni samt.
Fyrsta afurðin af þessu nýja samstarfi var Smart #1 – en Smart #5 er bíllinn sem tekur hugmyndina alla leið: stærri, aflmeiri, betri fjöðrun, stærri rafhlaða, meiri lúxus og mun breiðari notagildi.
Þrjár útfærslur – allar alveg hrikalega öflugar
Hjá Öskju er Smart #5 boðinn í þremur útfærslum:
- Pulse og Summit Edition – báðar með 588 hestafla tvírafmótora fjórhjóladrifinni uppsetningu
- Brabus – þar sem allt er skrúfað upp í ellefu, með tæplega 640 hestöflum

Gróf hönnun blandast saman við mjúkar línur sem gera bílinn mjög sérstakan í útliti miðað við marga aðra samkeppnisbíla.
Þetta er ekki bíll sem „lætur lítið fyrir sér fara“. Þvert á móti – þegar maður stígur á inngjöfina finnur maður hvernig allur líkaminn þrýstist niður í sætin á þann hátt sem maður þekkir frekar úr sportbílum en fjölskyldujeppum.
Hröðun sem krefst gaumgæfni
Lipurð er eitt af aðalsmerkjum bílsins. Hann liggur vel en samt örlítið „laus“ þegar maður gefur honum fullt afl, eins og hann sé að toga sig áfram með svolitlum samstarfsvandræðum milli vélarafls og gripstýringar.
Þetta gerir aksturinn skemmtilegan en krefst þess að ökumaður haldi vel við stýrið þegar hann setur í Sport-stillinguna.
Þá nær bíllinn slíkum viðbragðshraða að aftur minnir maður sig á: þetta er ekki venjulegur sportjepplingur – þetta er villidýr í sparifötum.

Farangursrýmið er um 630 lítrar og með niðurfellingu sæta má ná allt að 1530 lítra greymsluplássi. Skíðalúga er í miðjusætinu.
Fjöðrun og þægindi
Fjöðrun bílsins er frábærlega stillt. Hún er á mýkri kantinum án þess þó að verða svampkennd eða óstöðug. Þetta þýðir að bæði malbikaðir og holóttir vegir eins og nokkrir á Suðurnesjum, voru teknir með yfirvegun og ró – jafnvel þegar rok og rigning lamdi á okkur á Stafnesinu.

Pláss er allstaðar gott í bílnum. Eftirtektarvert eru stórar afturhurðir sem opnast vel og gera aðgengi auðvelt og þægilegt.
Hljóðeinangrun sem kemur á óvart
Við ókum bílnum í íslensku haustveðri þar sem rigningin lamdi rúður og vindurinn reyndi sitt besta – en inn í bílnum heyrðist… lítið sem ekkert.
Hvorki veg- né vindhljóð – aðeins mjúkt hljóð dekka sem svifu eftir blautu malbikinu.
Þetta er ansi vel af sér vikið og hástig þæginda sem margir dýrari bílar ná ekki að jafna.









Rými og innrétting
Smart #5 er 4,7 metrar að lengd – sem gerir hann í raun örlítið stærri en Skoda Enyaq, og hann er bæði breiðari og hærri. Innstig er einstaklega þægilegt og rýmið inni í bílnum minnir frekar á stærri lúxusjeppa.

Framsætin eru nokkuð góð og halda vel við. Rafstilling er í sætum á hurð sem sótt er til Mercedes-Benz. Seturnar mættu þó vera örlítið lengri og það á við um fleiri bíla í þessum stærðarflokki.
Innréttingunni er augljóslega hönnuð með aðkomu Mercedes – hún hefur þann lúxusblæ sem við þekkjum úr nýjustu C- og E-Class, bæði hvað varðar áferð, lýsingu og yfirlit yfir skjá- og stjórnbúnað.

Skjákerfið er hið glæsilegasta og nokkuð einfalt í notkun. Hinsvegar er þetta skjákerfi ekkert frábrugðið öðrum hvað uppsetningu varðar – þú þarft að smella nokkrum sinnum til að gera einföldustu hluti.
Tveir 13 tommu skjáir prýða mælaborðið nánast heilt yfir og 10.25 tommu mælaborðsskjár sem settur er upp af nákvæmni og sýnir allt sem þarf að sjást.
Skottrými er með ágætum þó að það toppi ekki Tesla Model Y en skottið í nýja Smart#5 er um 630 lítrar og stækkanlegt upp í 1530 lítra með niðurfellingu sæta 40/60.
Dráttargeta er um 1600 kg. og drægnin uppgefin skv. WLTP um 540 km.
Útlitið er líka skemmtilega marghliða: maður sér bæði „dass” af Land Rover Discovery og jafnvel Mini Countryman – blanda af sportlegu, stækkuðu fjölskylduformi og ofurbílafasa.
Hleðsluhraði sem rasskellir samkeppnina
Ásamt 100 kWh rafhlöðu sem tekur við allt að 400 kW DC hleðslu, þá er 10–80% hleðsla uppgefin um 15 mínútur, sem gerir Smart #5 hraðhleðslu meiri en bæði Porsche Macan Electric og Tesla Model Y.

Við ókum bílnum í íslensku haustveðri þar sem rigningin lamdi rúður og vindurinn reyndi sitt besta – en inn í bílnum heyrðist… lítið sem ekkert.
Í heimahleðslu tekur hann við allt að 22 kW, sem einnig setur hann í eitt af efstu sætum fyrir sveigjanlega hleðslugetu.
Verð sem kemur á óvart miðað við afköst
Miðað við afl, stærð, hleðsluhraða og búnað er verðið athyglisvert:
Frá 7.590.000 kr.
Reynsluakstursbíllinn – Summit Edition – frá 8.090.000 kr.
Þetta setur Smart #5 í sama verðflokk og vel útbúnar gerðir af til dæmis Enyaq eða ID.4 – en með mun meira afli og hleðsluhraða.
Niðurstaða
Smart #5 er ekki bara nýr bíll – hann er nýr tilgangur fyrir vörumerkið Smart. Frá því að vera framleiðandi smábíla fyrir þröngt borgarumhverfi hefur það nú breyst í fullburða keppinaut í millistærðar lúxus sportjeppa.
Hann er tæknivæddari, kraftmeiri, með meiri lúxus og hleður hraðar en flestir keppinautar hans.
Ef Smart var eitt sinn bíll fyrir þá sem vildu vera sniðugir – þá er Smart #5 bíll fyrir þá sem vilja aka kúl bíl sem hefur allt sem þarf.
Myndband
Helstu tölur:
Verð: frá 7.590.000 kr. Reynsluakstursbíll af Summit Edition gerð 8.090.000 kr.
Hestöfl: 588.
Rafhlöðustærð: 100 kWh
Hröðun 0-100 km/klst: 4.9 sek.
Eigin þyngd: 2.300 kg.
Heimahleðslugeta (AC): 22 kW
Lengd/breidd/hæð í mm. 4695/1920/1705
Myndbandsupptaka: Ólöf A. Þórðardóttir
Ljósmyndun: Pétur R. Pétursson