Terje Ringen hjá norska bílavefnum BilNorge fjallaði um stöðuna á bílasölunni í Evrópu frá sjónarhóli þeirra í Noregi:
Nýlegar tölur frá Jato Dynamics sýna mikinn samdrátt í bílasölu í Evrópu í nóvember. Í Noregi er staðan allt önnur og þó eru biðlistar þar lengri en nokkru sinni fyrr.
Tölfræði frá Jato sýnir að skráningartölur á 25 mörkuðum í Evrópu voru 18 prósentum lægri en í sama mánuði í fyrra. Ef við berum saman við nóvember 2019, áður en heimsfaraldurinn skall á, er samdrátturinn allt að 29 prósent.
Samkvæmt Jato er þetta lægsta skráningartalan í nóvember í þrjá áratugi með 855.281 bíla – lækkun úr 1,03 milljónum árið 2020 og 1,19 milljónum árið 2019.

Betri staða í Noregi
Í Noregi er staðan hins vegar allt önnur. Samkvæmt OFV (Opplysningsrådet for veitrafikken sem er sambærilegt við Samgöngustofu hér á Íslandi) voru skráningartölur fyrir nóvember 21,9 prósentum hærri en í nóvember 2020 og þola þær enn betur samanburð við tölur 2019 – þá sýnir árið 2021 hækkun upp á allt að 52,3 prósent.
„Þó að markaðurinn hafi ekki náð sér að fullu eftir heimsfaraldurinn eru núverandi vandamál ekki vegna lítillar eftirspurnar, heldur dráttar á afhendingu,“ segir Felipe Munoz sérfræðingur hjá Jato.
Þess vegna sýnir uppsöfnuð sala í Evrópu það sem af er ári aðeins 0,4 prósenta aukningu eftir 11 mánuði. Noregur sker sig aftur úr með uppsafnaðri aukningu upp á 28,9 prósent á sama tímabili.
Nýir rafbílar 73,8 % af nýskráningum í nóvember.
Í Noregi voru rafbílar 73,8 prósent af nýskráningum bíla í nóvember og það sem af er ári er hlutfallið 64,2 prósent. Endurhlaðanlegu tvinnbílarnir eru einnig mjög vinsælir með 17,4 prósent hlutdeild í nóvember og 21,4 prósent uppsafnað.

Noregur hefur með sínum fjölmörgu hvötum verið brautryðjandi fyrir „græna bíla“ en nú er restin af Evrópu líka að vakna. Samkvæmt Jato voru bílar með tengihleðslu 26 prósent af heildarskráningum í nóvember með 217.709 bílum – 41 prósent meira en dísilbílar.
Bensínbílar eru þó vinsælastir í Evrópu með meira en tvöfalt fleiri bíla en þeir sem eru endurhlaðanlegir. Í Noregi voru bensín- og dísilbílar samanlagt fimm prósent af heildinni í nóvember.
Aukin eftirspurn eftir vistvænum bílum má að hluta rekja til meiri áhuga almennings, sem og aukinnar áherslu framleiðenda „og yfirvalda“ á slíka bíla.
„Líkurnar eru miklar á því að fólk sem kaupir nýjan bíl í dag velji rafbíl vegna sífellt betri drægni og hvata frá yfirvöldum,“ segir Munoz.

Tesla 3 á toppnum í Evrópu
Í Evrópu var Tesla Model 3 mest seldi rafbíllinn í nóvember, á undan Renault Zoe og Dacia Spring. Einnig í Noregi var Tesla á toppnum, en hér með Model Y á undan Model 3 og Audi Q4 e-tron í þriðja sæti.
Mest seldi endurhlaðanlegi tvinnbíllinn í Evrópu var Peugeot 3008 á undan Volvo XC40 og Ford Kuga.
Þegar við skoðum heildarskráningartölur fyrir Evrópu lítur tölfræðin nokkuð öðruvísi út en í Noregi með Renault Clio á toppnum á undan Dacia Sandero, Peugeot 208 og með 2008 í fjórða sæti. Á milli þessara fjögurra voru innan við 200 bílar.
Að sögn Jato urðu frönsku framleiðendurnir minna fyrir barðinu á skorti á örflögum og hálfleiðurum en Volkswagen og Toyota, sem lækkuðu um 72 prósent í heildarsölu á bílum sínum, Golf og Yaris, um 72 og 65 prósent.
Rafmagnið toppar einnig hér á landi
Ef vefur Samgönustofu fyrir innflutning í sama mánuði, nóvember, er skoðaður út frá nýskráningu bíla eftir orkugjöfum sést að rafmagnið er einnig að „toppa“ hér á landi!


Í nóvember voru rafbílar sem nota eingöngu rafmagn efstir með 533 skráningar, en í öðru sæti er eitthvað sem Samgöngustofa nefnir „óþekkt“ með 462 bíla og tengitvinnbílar eru síðan með 436 skráningar. Af „hefðbundnum“ orkugjöfum er það dísilbíllinn sem hefur vinninginn yfir bensínbílinn, 436 á móti 279.



