Reynsluakstur:
Mercedes Benz B Class
,
árgerð
2019
Umboð:
Askja

Stjarna fyrir alla fjölskylduna

Ef þig vantar bíl sem svarar kalli fjölskyldunnar um pláss, áreiðanleika, fallega hönnun, gæða samsetningu og frábæra tækni þá er Mercedes Bens B-Class eitthvað fyrir þig.

Við Íslendingar erum án efa dugleg að kaupa okkur jepplinga fyrir fjölskylduna okkar. En hvað ef þig langar ekki í svoleiðis? Hvað ef þig langar í fólksbíl sem býður uppá nægt pláss fyrir alla fjölskylduna og hundinn líka? Þá er Mercedes Bens B-Class málið. Fjölnota fjölskyldubíll sem mætir á svæðið pakkaður snjöllum lausnum fyrir fjölskyldur.
Hurðir B-Class opnast vel og veita góðan aðgang um bílinn. Auðvelt er að hlaða barnabílstól í aftursætið, jafnvel þótt hann sé bakvísandi.

Fjórar hurðir og fimm sæti

Allar hurðir B-Class opnast vel og veita góðan aðgang að sætum bílsins. B-Class stendur frekar hár á vegi fyrir fólksbíl sem gerir það að verkum að þegar maður sest inn í hann er það eins og að setjast inn í jeppling því þú sest beint inn í sætið, ekki upp og ekki niður. Fyrir aftursætin er aðgengið svakalega gott. Hurðirnar eru ekki breiðar og er því einfalt mál að leggja í þröng bílastæði landsins en samt geta opnað þær það vel að hægt sé að koma barnabílstól í aftursætið. Ég prófaði að koma fyrir bakvísandi barnabílstól af stærstu gerð og var það ekkert mál. ISIOFIX festingarnar voru á sínum stað og vissu Mercedes menn það mætavel að þessi bíll væri gerður fyrir fjölskyldur svo þeir voru ekkert að hafa fyrir því að setja plasthlífar yfir ISIOFIX festingarnar. Það finnst mér snilldar lausn enda munu eflaust margir bílar vera seldir með týndar plasthlífar fyrir ISIOFIX festingarnar á næstu árum.

Eitt af búnaði bílsins eru krókar í handföngum fyrir afturhlera sem gera þér kleift að hengja jakka eða úlpur upp. Þeir kunna þetta hjá Mercedes.

Aftursætin eru líka fremur hástæð og nægt fótapláss fyrir aftursætisfarþega. Þar er líka höfuðpláss til fyrirmyndar og gæti ég hafa auðveldlega komið mér fyrir með pípuhatt í aftursætinu og setið þar frá Patreksfirði til Siglufjarðar með viðkomu á Flúðum. Jafnvel miðjusætið er þægilegt í styttri ferðir. Plássið í framsætunum er ekki síðra og eru þau gífurlega þægileg og veita afbragðs góðan stuðning fyrir framsætisfarþega. Þau eru líka upphituð og bílstjórasætinu er stýrt úr hurðinni.

Mælaborð B-Class kemur með fallegum og einföldum skjá yfir það allt. Hann er tvískiptur og bjartur. Það vantar bara að geta streymt Stubbunum á miðjuskjáinn.

Töff tækni sem virkar og er einföld

Mælaborð B-Class er áhugavert og frekar framúrstefnulegt. Það virðist vera einn stór skjár alveg frá gluggapóstinum bílstjóramegin og fram yfir miðju mælaborðsins. Og af því að þetta er bara einn stór skjár þá finnst manni stillimöguleikarnir vera endalausir. Ef þú vilt bara hafa hraðamæli en ekki snúningshraðamæli, ekkert mál. Viltu hafa kortið fyrir framan þig á meðan útvarpið er í miðjunni, ekkert mál. Viltu hafa hann bláan eða grænan, það er ekkert mál heldur.

Þarna ber fyrir augum stjórnborðið fyrir afþreyingarkerfi bílsins. Það er ekki með neinum tökkum, en þegar þrýst er á það gefur það ljúfan og þægilegan smell til baka.

Það besta er þó að til að tengjast blátannarbúnaði bílsins berðu símann að stjórnborði á milli sætanna og það gerist sjálfkrafa. Ekkert vesen. Í gegnum öflugt hljóðkerfið verður svo ekkert mál að spila alla helstu smelli Disney, nú eða Kardemommubæinn.

Fjórar leiðir til að stjórna

Já þú last rétt, fjórar. Það eru fjórar leiðir til að eiga samskipti við afþreyingar- og stjórnkerfi B-Class. Sú fyrsta er að nota hnappa á stýrinu. Önnur er í gegnum snertiföt á milli sætanna, sem skilur handskrift. Sú þriðja er að einfaldlega snerta skjáinn sjálfan og nota hann eins og spjaldtölvu. Að lokum er fjórða aðferðin sú að einfaldlega tala við bílinn. Þú segir “Hey Mercedes” og segir það sem þú vilt. Því miður er kerfið ekki gott þegar kemur að íslenskum staðarheitum en það getur þó fundið næsta bílastæðahús, verlsunarmiðstöð og þess háttar. Það er því hægt að segja að það er aðferð fyrir alla til að stýra B-Class.

Ljósahönnun B-Class er vel heppnuð eins og allur bílinn. Fullbúinn með LED ljósum bæði að framan og aftan.

Útlit sem heillar

Gamli B-Class fannst mér alltaf hafa verið hannaður með afgangs ljós frá Mercedes varahlutatunnunni. Það sama er alls ekki hægt að segja um hinn nýja. Ég ók rakleiðis frá Öskju í nýbyggt bryggjuhverfi á höfuðborgarsvæðinu til að bera gripinn augum í almennilegu ljósi. Útlitið er svo sannarlega úr ættartré Mercedes og gefur hann öðrum bílum ekkert eftir. Framendinn finnst mér einkar vel heppnaður og þá sérstaklega hönnunin á grillinu með öfluga Mercedes stjörnuna á sínum stað. Afturendinn er ekkert síðri og á bílnum sem við höfðum til prufu voru þessar fínu álfelgur.

Mercedes B-Class er öflugur í útliti og sterkur framendin sæmir sér vel. Hver myndi ekki vilja hafa þetta útsýni úr aftursýnisspeglinum?

Lokaorð

Þegar jafn öflugur bíll og Mercedes B-Class er í boði fyrir fjölskyldur landsins er erfitt að átta sig á af hverju fólk myndi frekar fá sér lítinn jeppling með jafnvel minna plássi. B-Class mætir á svæðið vel útbúinn og býður uppá frábæra aksturseiginleika með feikinógu plássi fyrir alla. Hann er þægilegur í umgengi og fallegur í útliti. Ég mæli með B-Class fyrir alla þá sem vilja þægilegan og skemmtilegan bíl sem býður uppá mikið af möguleikum til að gera hann persónulegan. Ég mæli með honum í rauðu eins og prufubílinn, og í progressive útfærslu. Ef þú vilt svo sérpanta þér bíl þá mæli ég alveg sérstaklega með 190 hestafla fjórhjóladrifsútfærslunni.

Ef þér lýst á’ann, keyptann!

Myndir: Óskar Bílakall.
Gefið út þann:
17/4/19
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.