Reynsluakstur:
Hyundai Ioniq 5
,
árgerð
2022

Hefði einhver farið með tímavél árið 1980 nokkra áratugi fram í tímann, segjum til ársins 2021, hefði sá hinn sami eflaust gengið út frá því að nokkrir bílar nútímans væru hreint ekki bílar heldur geimskip.

Hljóðlát geimskip á hjólum. Hyundai Ioniq 5 er einn þeirra bíla sem er ákaflega framúrstefnulegur útlits og ef hann væri geimskip þá þætti mér hann afar fallegt geimskip.

En hann er ekki geimskip, Georg gírlausi á heima í Andrésblöðum og tímavélin sömuleiðis. Sem betur fer, segi ég nú bara.

Rafbíllinn Ioniq 5 er splunkunýr. Hann er risastór. Eldsnjall og kom mér heldur betur á óvart! Vissi ég að þetta væri ekki „hefðbundinn“ rafbíll; hann hefur of margt sem gerir hann einstakan til að hægt sé að „meðalgera“ hann.

Forvitinn hestur kom og skoðaði bílinn. Hann virtist heillaður af nýstárlegri hönnuninni og staldraði lengi við.

Notalegur orkutankur

Orkutankur er kannski ekki fallegt orð en það er lýsandi þegar það er sett í samhengi við þá staðreynd að bíllinn er búinn 800V rafhlöðukerfi. Bíddu nú aðeins! Hvað þýðir það eiginlega?

Jú, það þýðir til dæmis að hægt er að hlaða hann á ótrúlega skömmum tíma. Sé hann tengdur við 220 kW hraðhleðslustöð þá er hægt að hlaða hann úr 10% í 80% á aðeins átján mínútum! Maður rétt nær að leysa tvær miðlungs Sudoku gátur eða hlusta á hádegisfréttirnar á RÚV á meðan. Eða leggja sætið niður (meira um þá snilld seinna í greininni) og láta þreytuna líða úr sér.  

Þetta gerist svo hratt! Einn-tveir og þrír! Hviss-bang-búmm! En auðvitað heyrist ekkert hviss, bang eða búmm. Allt gerist með svo yfirveguðum hætti í kringum Ioniq 5 að maður getur ekkert verið með læti. Það er ekki einu sinni hægt að skella hleðslulokinu; með því að snerta það lokast það undurblítt.

En aftur að 800 volta kerfinu. Það er frekar ótrúlegt að geta bætt við 100 kílómetra drægni á 5 mínútum. Þetta á auðvitað við um hraðhleðslu. Þeir sem sleipir eru í enskunni og vilja lesa meira um hvaða forskot á rafbílamarkaði 800V rafhlöðukerfið veitir Hyundai er bent á góða grein sem er aðgengileg hér.

Það sem dregur máttinn úr rafbílum

Flest erum við sennilega meðvituð um það að þegar við lesum í auglýsingu að einhver rafbíll komist „allt að 400 kílómetra“ á hleðslunni (tek 400 sem dæmi út í bláinn) þá er rétt að taka því með fyrirvara.

Sú drægni sem gefin er upp miðast við bestu mögulegu aðstæður og sé gengið út frá því er nokkuð ljóst að þær aðstæður eru EKKI á Íslandi. Ekki einu sinni á bestu dögum Íslandssögunnar hvað veður snertir. Þetta voru kannski ýkjur en samt ekki.

Rafhlöður rafbíla eiga sér kjörhitastig og við það hitastig er nýting þeirra best. Kjörhitastigið sem um ræðir er í kringum 21°C. Það er að sem sagt ekki dæmigert íslenskt hitastig nema þá einna helst innanhúss.

Hér er alveg frábært tól (því miður ekki með nýjustu árgerðirnar inni en samt þokkalegt) sem er hitareiknir til að meta drægni rafbíla.

Það er ekki einungis kuldinn hér úti og veðurhamurinn sem beinlínis dregur máttinn úr rafbílunum, heldur einnig viðbrögð okkar; við kveikjum á miðstöðinni til að hita farþegarýmið og sömuleiðis til að bægja frá raka og frostrósum innan á rúðunum. Þar með fer risastór hluti orkunnar í það en ekki í drægni.

Sætis- og stýrishitari notar afar lítið rafmagn en miðstöðin er algjör padda hvað þetta varðar. Því hærra sem hitastigið sem miðstöðin blæs út í farþegarýmið, þeim mun meira er notað af rafhlöðunni.

Framleiðandinn hefur greint frá því að Ioniq 5 verði fáanlegur með glerþaki sem í eru sólarsellur. Það er ekki í þessum bíl en verður gaman að fylgjast með hvernig sá búnaður kemur til með að reynast. Þangað til njótum við sólarinnar með hefðbundnum hætti en sólarlagið hér á myndinni er aðeins ýkt.

Hið ótrúlega gerist

Já, af þessum leiðindum þarf að taka mið þegar litið er til drægni rafhlöðu. Oftar en ekki kemst rafbíll hér á landi aðeins helming þess kílómetrafjölda sem gefinn er upp í tölum frá framleiðanda.

Hyundai Ioniq 5 fæst hér á landi annars vegar með 58 kWh rafhlöðu og hins vegar 73 kWh rafhlöðu. Bíllinn sem var prófaður er með 58kWh rafhlöðunni og sú drægni sem gefin er upp fyrir þann bíl er 384 kílómetrar.

„Oh, ekki er það nú mikið,“ hugsaði undirrituð, minnug óþægilegrar og örvæntingarþrunginnar stundar uppi á Hellisheiði á rafbíl af ónefndri gerð sem gaf skyndilega til kynna að rafhlaðan væri á hraðferð niður á við í hleðslu og ég tæplega hálfnuð á leið heim.

Já, og skyndilega tók hleðsluprósentan á þeim ónefnda bíl ólympískt stökk, úr 40% niður í 14%.

Þetta var ekki gott. Enda 30 kílómetrar eftir. Skítt með þá sögu en þrátt fyrir allt minnist ég þessa og hef haft varann á og gefið lítið fyrir þær tölur sem til viðmiðunar eru.

Hér komum við að því ótrúlega.

Að morgni dags hlóð ég Ioniq 5 alveg upp í 100% og hélt af stað í bíltúr. Langan bíltúr. Mælirinn sýndi að á hleðslunni kæmist bíllinn (og þar með ég) 379 kílómetra.

Hann hefði eflaust sýnt 384 kílómetra, eins og vera ber, ef bílstjórinn hefði ekki verið svona spenntur að fara af stað og leyft hleðslunni að síast alveg inn en ekki taka úr sambandi á sömu sekúndu og hleðslan fór úr 99% í 100%, en það er aukaatriði í þessu samhengi.  

Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum rúmri klukkustund síðar þegar mælirinn sýndi eftirfarandi:

Þarna var nokkuð ljóst að Ioniq 5 hafði gefið mér tæpa þrjá kílómetra í plús. Uppgefin drægni frá framleiðanda var lægri en raunveruleg drægni! Það er nú heldur betur eitthvað nýtt.

Það ótrúlegasta af því ótrúlega

Þetta hefði komið mér á óvart í logni að sumarlagi hér á Íslandi. En í þessu tilviki var kalt, eins og glöggir geta greint á seinni myndinni. Fjórar gráður. Þá voru fjórar gráður. En ég var að koma af Hellisheiði þar sem voru 2°C og snjófjúk. Já, það var ekki einu sinni logn!

Þarna hefði rafhlaðan hæglega getað tekið ólympíska dýfu eða alla vega langstökk niður á við. En það gerði hún heldur betur ekki og það sem meira var: Ég var ekki í algjörum sparakstri. Ég notaði miðstöðina að vísu sparlega og var með bílinn í ECO í stað Normal eða Sport-mode. En ég notaði skriðstillinn (e. Cruise Control) um það bil helming tímans og þar með akreinastýringu og akreinaaðstoð sem ég veit ekki hve mikillar orku krefjast.

Á þessum tímapunkti var hafði reynsluaksturinn snúist upp í raunsanna athugun á drægni og það var sko gaman! Ég var of hissa til að muna eftir almennum atriðum daglegs lífs, eins og að borða og svoleiðis. Bíllinn „borðaði“ lítið af rafhlöðunni og ég nærðist á ánægjunni og undruninni sem fylgdi því að komast að sannindunum þeim er fólust í tölunum frá Hyundai. Svo ekki sé minnst á snilldina í nýtingu Ioniq 5 á raforkunni.  

Enn voru 86% eftir af hleðslunni og því fullsnemmt að fagna. Þetta gat verið tilfallandi og eftir sem áður væri þetta merkilegt. En áfram hélt athugunin.

Síst er ætlunin að þreyta lesendur með myndum af prósentu- og kílómetratölum, hvað þá með ítarlegri frásögn af framkvæmd athugunar minnar á nýtingu rafhlöðunnar. Þær upplýsingar eru til og velkomið að deila þeim með áhugasömum en hér er best að vinda sér beint í niðurstöður athugunarinnar:

Þær tölur sem framleiðandi gefur upp um drægni rafbílsins Hyundai Ioniq 5 standast algjörlega og það í fúlu rammíslensku haustveðri með tilheyrandi kulda. Það gefur vísbendingu um að hann komist mun lengra á hleðslunni en upp er gefið þegar vel viðrar. Þetta er afar merkilegt og ég ber fyrir vikið aukið traust til framleiðandans sem og virðingu. Þarna nýtur viðskiptavinurinn vafans.

Hestur skoðar „hestaflageymslu“ eða kannski var hann að velta skemmtilegu afturljósunum fyrir sér. Eða hryssuna sem stóð á tveimur fótum og hélt á myndavél með framfótunum...

Það er að mínu mati asnalegt að hinn almenni kaupandi (sem ekki hugsar um og prófar bíla alla jafna) kaupi bíl á „fölskum“ forsendum. Nú bendi ég ekki á neinn framleiðanda sem vísvitandi blekkir fólk en það er nú svo að neytendur eru ekki endilega sérfróðir um það sem þeir „þurfa“ að kaupa.

Það er eðlilegt að neytandi gangi almennt út frá því að það sem gefið er upp um vöruna, í þessu tilviki rafbíl, sé satt og rétt. Hann ætti ekki að þurfa að leggjast í útreikninga auk slatta af eðlis-, vind og veðurfræði sem smyrja þarf ofan á, draga svo frá og deila með sextán.

Svona lagað er ekki endilega á matseðlinum kvöldið fyrir kaup á rafbíl.

Við sem erum af málabraut höfum fæst bolmagn í slíkar hundakúnstir, sérstaklega ef við erum þreytt. Þess vegna er rosalega gott að geta gengið út frá því að upplýsingar komi heim og saman við raunveruleikann.

Er fleira gott við bílinn?

Eftir síðustu reynsluakstursgrein mína kvörtuðu nokkrir lesendur yfir því að ég hafi ekki fjallað um hvernig var að aka sjálfum bílnum er til prófunar var. Ég hafi skrifað um tæknileg atriði og nördalegt dót út í eitt. Ekki vil ég leika lesendur grátt og reyni nú að gera betur hvað viðvíkur sjálfri akstursupplifuninni. Upplifun er ofnotað orð að margra mati svo nú er rétt að orða þetta einfaldlega svona: Og hvernig var að aka apparatinu?

Það var, skal ég segja ykkur lesendur góðir, afskaplega gott. Auðvitað var ekkert mas frá vélarsal þar sem engin er vélin. Hljótt svífur maður áfram, eða aftur á bak þegar þannig stendur á, og bíllinn líður áfram án þess að skrokkurinn hafi undan nokkru að kvarta.

Akstur yfir hraðahindranir og brunnlok fór fram án þess að maður yrði þess var. Sætin í Ioniq 5 eru þau bestu sem ég hef nokkru sinni prófað í bifreið. Hröðunin er virkilega góð og átakalaus - svo jöfn er hún og veghljóðið útilokað vandlega að auðvelt er að gleyma sér og fara of geyst yfir. Þá koma til sögunnar hjálpartæki á borð við hraðaáminningu (kallast reyndar því flotta nafni „Skynvæddur hraðatakmarkari“) og SCC (Smart Cruise Control) sem hafa vit fyrir manni áður en skaði hlýst af eða sekt.

Ioniq 5 er „svar við ákallinu um sjálfbærni“

Hér að ofan stóð eftirfarandi: „Sætin í Ioniq 5 eru þau bestu sem ég hef nokkru sinni prófað í bifreið.“ Ég ætla að útskýra þetta nánar en byrjum á byrjuninni:

Í fyrsta lagi er það dásamlegt að bílaframleiðendur séu margir hverjir farnir að nota vistvæn efni í innréttingar bíla. Volvo, Ford og Hyundai eru þar framarlega í flokki. Sjálfbærni er lykilatriðið í hönnun og hugmyndafræðinni að baki Ioniq 5 en það var einmitt út frá sjálfbærnihugsuninni sem þessi bíll varð til, eins og fram kemur hjá framleiðandanum sjálfum.

Í innréttingar og sætisáklæði í bílsins er meðal annars notaður sykurreyr, maís, plastflöskur, ull og pappi.

Við framleiðslu hvers eintaks af Ioniq 5 var eftirfarandi notað:

Allt að 32 endurunnar plastflöskur

730 grömm af sykurreyr og maís

294 grömm af ull

200 grömm af hörfræjaolíu

0.08 fermetrar af endurvinnanlegum pappa

Þegar ég var að leita að þessum nákvæmum tölum rakst ég á myndband sem mér fannst frekar flott og hér er það:

Komum nú aftur að sætunum góðu. Við framleiðslu sætisáklæðisins eru þessar 32 plastflöskur (sem nefndar voru hér að ofan) þrifnar vandlega, þær því næst pressaðar og svo tættar niður í plastflögur. Plastflögurnar eru bræddar og úr gumsinu spunninn fíngerður þráður sem áklæðið er að lokum ofið úr. Snjallt, ekki satt? Og mjúkt líka!

Það sem er úr leðurlíki í innréttingu Ioniq 5 er litað með hörfræjaolíu í stað olíu sem annars væri fengin úr dýraafurðum.

Sætunum má halla alveg aftur þannig að úr verður eins konar legubekkur. Sætin eru raunar kölluð „slökunarsæti“ og það er fallegt orð. Þá getur maður fengið sér kríu meðan á hleðslu stendur. Af þessu reyndist erfitt að taka mynd því ljósmyndarinn lokaði einmitt augunum og lét fara vel um sig. Svo flækir það málin enn frekar að ljósmyndarinn og greinarhöfundur eru ein og sama manneskjan og að ná sjálfsmynd af sér í miðri kríu reyndist ógerlegt. Þess vegna fylgir hér mynd frá Hyundai og konan á myndinni er mér alveg ókunnug með öllu.

Slökunarsætin eru mjög þægileg og þessi kona virðist alveg „sultuslök“. Mynd/Hyundai

Quiet mode og fleira fjölskylduvænt

Bíllinn er risastór í raun og veru. Án þess þó að vera einhver hlunkur. Hann er einstaklega rúmgóður og flatt gólfið ásamt hreyfanlegum miðjustokki gera það að verkum að manni finnst rýmið geta nýst vel og margvíslega og það er, í alvöru, hægt að „ganga“ um bílinn.

Ofur-fjölskyldubíll er flokkur sem Ioniq 5 getur vel átt heima í. Rýmið, hirslurnar, þægindin, tengingarmöguleikar fyrir snjalltæki og svo margt fleira gerir hann fjölskylduvænan. Umhverfis- og fjölskylduvænn bíll. Sem fyrr segir er hann með eindæmum hljóðlátur og veghljóðið er einhvers staðar annars staðar en í þessum bíl. Samt er valkostur sem nefnist „Quiet mode“ og það er sniðugur valkostur sem hefur ekkert með hljóð frá bílnum að gera.

Quiet mode: Gott að geta virkjað þann möguleika ef börn sofa aftur í á löngu ferðalagi. Þá eru hátalararnir aðeins virkir hjá bílstjóra og farþega fram í.

Nei, þetta er aðallega hugsað fyrir barnafjölskyldur; með því að virkja „Quiet mode“ berst hljóð frá útvarpi/afþreyingarkerfinu bara úr hátölurunum fram í og hljóðstyrkur takmarkast við 25. Þá geta litlu börnin dormað aftur í meðan hinir hlusta á fréttir.

Verð á Ioniq 5 er frá 5.990.000 kr. en nánari upplýsingar um verð og búnað er að finna hér.

Í dag, laugardaginn 2. október er bíllinn frumsýndur og því hægt að skoða þennan magnaða bíl á milli 12 og 16 hjá Hyundai í Kauptúni.

Ljósmyndir og texti: Malín Brand

Gefið út þann:
2/10/21
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.