Reynsluakstur:
Mazda CX30
,
árgerð
2019
Umboð:
Brimborg
Akstursþægindi, útlit og sæti
USB og AUX tengi ekki afturí

Innpakkaður konfektmoli

Mazda CX30 er nýjasti konfektmolinn í konfektkassa Mazda. Mazda CX30 er byggður á hinum nýja Mazda 3 bíl sem slegið hefur í gegn í sínum flokki. Sjö sm styttri en tíu sm hærri en Mazda 3 má segja að Mazda CX30 detti beint inn í jepplingaflokkinn. Hugmynd Mazda var að hanna bíl sem hentaði ungum barnafjölskyldum sem vildu eiga bíl sem gott væri að ganga um.

Svartir listar undirstrika sportlegt útlit.

Gott aðgengi

Og það er sannarlega gott að ganga um bílinn. Hurðir opnast vel og þú stígur beint inn í bílinn en sest ekki niður í hann. Sama er að segja um aftusætin. Vel fer um leggjalangan ökumann og plássið sitthvoru megin við fæturna er ásættanlegt. Á milli sætanna frammí er frekar hár stokkur og auðvelt að komast að stjórntækjum sem þar eru.  

Gott aðgengi bæði frammí og afturí.
Þar er til dæmis snúningsrofi sem stýrir aðgengi á tæplega 9 tommu, breiðum og vel sýnilegum skjá uppi á mælaborði bílsins. Með snúningsrofanum má stýra öllu sem viðkemur afþreyingu, vegaleiðsögukerfi og öppum.  
8.8 tommu skjár er ofan á mælaborðinu og þar er að finna meðal annars fullkomið afþreyingarkerfi.

Þar má nefna Apple CarPlay og Android Auto. Skjárinn er ekki snertiskjár og það er útaf fyrir sig álitamál hvort það sé betra eða verra. Allar stillingar eru í seilingarfæri hægra megin við ökumanninn og ekki þarf að teygja sig í skjáinn til að hækka eða lækka í útvarpi.

Tvöföld tölvustýrð miðstöð.

Í grunninn mjög vel búinn bíll

Það er í raun sama hvert litið er yfir bílamarkaðinn á Íslandi í dag. Flest umboð keppast við að bjóða grunnútgáfur með miklum búnaði. Mazda er þar enginn eftirbátur.  

Flottur afturendi Mazda CX30.
Grunnútgáfan af Mazda CX30 er hlaðinn staðalbúnaði s.s. skynvæddum hraðastilli, neyðarhringibúnaði sem staðsetur bílinn, umferðaskiltalesara, lyklalaust aðgengi með sjálvirkri læsingu, framrúðuskjá (head up display), veglínuskynjurum, ökumannsvaka (án myndavélar), snjallhemlunarkerfi sem stöðvar bílinn ef til dæmis manneskja hleypur fyrir bílinn, nálægðarskynjarar að aftan ásamt helling af öðrum þægindum.
Sver sig algjörlega í ættina og stílhreinn framendi gerir bílinn enn fallegri.

M-hybrid

M-hybrid (Mild-hybrid) tækni Mazda er snjöll og hugvitssöm. Kerfið er tölvustýrt og algjörlega sjálfvirkt en það nýtir hreyfiorkuna við hemlun og hjálpar síðan vélinni þegar á meira afli þarf að halda. Með tækninni þarf vélin ekki að nota orku í eins mikla rafmagnsframleiðslu og við það sparast eldsneyti.  

Veghæð Mazda CX30 er um 17.5 sm.
Skyactive G bensínvelin er eyðslugrennri miðað við stærð og hefur Mazda verið að halda í rúmtak véla sinna og ná niður eyðslu um leið.  Vélin í reynsluakstursbílnum er tveggja lítra Skyactive G bensínvél sem skilar 122 hestöflum og togar 213 nM við 4000 snúninga.  
Afturljósin eru kringlótt og svolítið sérstök.

Hátt þjöppunarhlutfall vélarinnar eða 13:1 nýtir eldsneytið betur og minnkar losun mengandi efna.

Skyactive X og i-Active

Mazda CX30 verður í boði með nýrri og fullkominni Skyactive X- bensín vél og i-Active fjórhjóladrifi. Sérstaða Mazda er hér algjör en enginn annar bílaframleiðandi byggir vélar sínar á þessari tækni enn sem komið er. Skyactive X vélin skilar 180 hestöflum og togar 224 nM við 4000 snúninga. Tækni þessi er hrein snilld en hún byggir á sömu eiginleikum og dísel vél en gengur samt fyrir bensíni. Hún styðst við brunaferli, þjöppukveikingu (compression ignition) sem sparar eldsneyti og minnkar útblástur koltvísýrings.

Innréttingin er falleg og hagnýt.  Efnisval er frábært og allskyns smáatriði gera lífið enn ánægjulegra í Mazda CX30.
Mazda CX30 verður einnig í boði fjórhjóladrifinn. Fjórhjóladrif Mazda CX30 er tölvustýrt aldrif sem búið er fjölda skynjara sem gerir aksturinn öruggan og þægilegan í hverjum þeim aðstæðum sem ekið er í.
16 eða 18 tommu felgur.

Farangursgeymsla bílsins er svipuð og í öðrum sportjeppum en kemur ekkert sérstaklega á óvart samt. Það rúmar 430 lítra en það sem helst mætti finna að er að í því eru engar festingar eða snjöll hólf sem geyma mætti smáhluti í undir gólffletinum. Söknuðum líka tengimöguleika USB og AUX afturí.

Nýtískulegur og hentugur sportjeppi

Mazda CX30 svarar þörfum þeirra sem vilja bíl sem kemst aðeins meira en bara í hreinum bæjarakstri eða á hraðbrautinni.  

Eftirtektarvert hvað bíllinn keyrði vel vatnsfylltum hjólförum í ausandi rigningu.
Bíllinn er búinn fínni fjöðrun og er án efa skemmtilegur á aðeins hrjúfara yfirborði en malbiki.

Útlit Mazda CX30 klikkar ekki frekar en á öðrum gerðum Mazda enda hefur Mazda í gegnum árin skilað fallegum og vel hönnuðum bílum á markað. Að innan er allt efnisval til fyrirmyndar og það vekur athygli að svart og blátt er notað saman í mælborði sem gerir samsetninguna eftirtektarverða og skemmtilega.

Bakkmyndavélin nokkuð skýr en hefði mátt nýta meiri breidd skjásins.

Helstu tölur:

Tilboðsverð frá: 4.550.000 (sept. 2019).

Vél: 1.998 rms

Hestöfl: 122 við 6.000 sn.

Newtonmetrar: 213 við 4000 sn.

0-100 k á klst: 10,6 sek.

Hámarkshraði: 187 km

CO2: 116 g/km

Eigin þyngd: 1.021 kg

L/B/H 4395/1795/1540 mm

Gefið út þann:
26/9/19
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.