Reynsluakstur:
MG ZS
,
árgerð
2022
Umboð:
BL

Áfram heldur umfjöllunin um rafbíla! Það er orðið langt síðan maður hefur reynsluekið bíl sem er með brunahreyfli eingöngu. Þetta er auðvitað ekkert til að furða sig á heldur má fagna því góða úrvali bíla sem nota annan aflgjafa en dísil eða bensín. Reyndar vildi ég alveg sjá fleiri vetnisbíla en það er önnur saga! Hér er nefnilega til umfjöllunar alrafmagnaður MG ZS!

Hann hefur gengist undir „andlitslyftingu“ og hún tókst vel. Bíllinn er ljómandi snotur, það er óhætt að lýsa þeirri skoðun yfir. Ekki nóg með það að hann sé orðinn snoturri heldur hefur drægnin verið aukin. 440 kílómetrar er drægnin sem gefin er upp og kom bíllinn ágætlega út í þessari íslensku vetrarprófun minni. Rétt er að geta þess að bíllinn er framhjóladrifinn en MG Marvel fæst með fjórhjóladrifi.

Situr hátt og sér vel út

Maður sér vel út og spilar þar inn í sætisstaðan og hönnun. Lítið er um „blinda bletti“ sem svo nefnast, þannig að hönnunin er ekki á kostnað útsýnis, eins og stundum er. Það er nefnilega óhindrað og speglarnir góðir og stórir.

Lofthæðin er býsna góð í farþegarýminu aftanverðu (sést kannski á myndum) og flennistór og breið þaklúgan hleypir birtunni inn nema það sé dimmt úti auðvitað. En þetta var nú lélegt grín.

Í það minnsta nýtist rýmið vel og farangursrýmið er 448L og aftur í eru 60/40 sæti sem fella má niður.

Enginn G-kraftakubbur

Það er fínt að aka bílnum og áfram fer hann og aftur á bak, allt eftir því hvað ökumaðurinn óskar en það gerist ekki mjög hratt. Hröðunin er sem sagt bara venjuleg og alls ekkert til að kvarta yfir. En það er eitt sem hið annars ágæta bílaumboð BL gerir sem mér líkar fremur illa og það er að kynna bílinn með hröðunina 3,6 sekúndur úr 0 upp í… 50 km/klst.

Skjáskot af kynningarsíðu MG

Þetta hef ég bara séð hjá Bílabúð Benna og verð að segja að þetta er kemur mér undarlega fyrir sjónir. Reyndar virðist Benni hættur að notast við þessa aðferð og það er flott. Hvet ég BL til að gera slíkt hið sama því það er mun betra að segja að hröðun sé 7,2 sekúndur, eða hver hún nú er, frá 0 upp í 100 km/klst. Þetta er fínn bíll og engin þörf á svona löguðu.

G-kraftarnir þrykkja þeim sem í bílnum eru ekkert aftur en það er í lagi fyrir flesta að svo sé ekki. Hinir finna sér öðruvísi bíla. Athugið að bíllinn er alls ekki hægur - hann er bara ekkert ofursnöggur.

Að innan

Bíllinn er sérlega smekklega hannaður að innan og utan. Innréttinngin er glæsileg og viðmót afþreyingarkerfis gott og þægilegt. Já, og gaman er að greina frá því að hið hæga viðbragð sem hefur áður truflað mig í snertiskjám MG bíla varð ekki vart í þessum bíl og allt virkaði eins og vera ber. Búnaður er mjög góður og ríkulegur en best er að renna yfir litstann hér.

Fleiri myndir af bílnum neðst í greininni.

Veghljóð er dálítið aftur í, sögðu farþegar mínir, en það truflaði svo sem ekki. En það heyrist að bíllinn sé á ferð og það ætti nú aldeilis að vera í lagi innan eðlilegra marka.

Sanngjarnt verð

Það að segja að bíll sé ódýr er alveg voðalega erfitt, nema hreinlega um leikfangabíl sé að ræða. Nýr bíll kostar sitt og það er nú ein ástæða þess að mörg okkar hafa aldrei á ævinni átt nýjan bíl! Sanngjarnt verð er hins vegar metið út frá verði í samanburði við aðra sambærilega bíla. Hef reyndar aldrei heyrt eða lesið um ósanngjarnt verð… en það er annað mál!

MG ZS kostar frá 5.499.000 kr. Hvað er svona sanngjarnt við það? Sjáum til!

Bíllinn hefur verið (t.d. á síðum Carsguide, WhatCar og CarWow) borinn saman við Kia e-Niro, Hyundai Kona, Peugeot e-2008 og Nissan Leaf.

Bíllinn er á sama grunnverði og Kia e-Niro (drægnin er 455 km)  hér á landi,.Hyundai Kona með stærri rafhlöðunni (484 km drægni) kostar hálfri milljón meira, Peugeot e-2008 með 320 km drægni kostar í grunninn rúmri milljón minna en ZS (4.470.000 kr) og Nissan Leaf með 385 kílómetra drægni kostar 5.290.000 kr.

Af þessum samanburði má sjá að MG ZS er alla vega langt frá því að vera verðlagður á ósanngjarnan hátt. Svo er annað mál hvort samanburðurinn sé sanngjarn en halda þyrfti um þetta málþing einhvern daginn frekar en að halda hér áfram út í hið óendanlega.

Gríðarlega vinsæll í útlöndum

Það er svolítið sniðugt að greina frá því að bíllinn seldist upp á „nó tæm“ á Indlandi. Auðvitað búa þar rosalega margir en í það minnsta er eftirspurnin svo mikil víða að allir bílar hafa jafnvel selst upp í forsölu. Ástralir eru voðalega spenntir en þar verða fyrstu bílar afhentir í byrjun júlí.

Ástæðurnar eru margar en verð og drægni spila það stórt hlutverk sem og lúxusinn og elegansinn. Hann er nefnilega mjög „elegant“ eins og sagt var hér í gamla daga.

Sænsku sérfræðingarnir hjá Teknikens Värld völdu MG ZS sem bíl ársins og var hann því sigurvegari „Teknikens Världs Stora Bilpris 2022“. Af hverju? Lítum nánar á það.  

Þetta sögðu Svíarnir að væru helstu ástæður fyrir valinu: Hann er ódýr smájeppi með góða veghæð (161 mm) og hægt er að fá hann (í Svíþjóð) á rekstrarleigu sem ódýrasta kost í flokki rafbíla.

Teknikens Värld framkvæma ýmsar prófanir á bílum og eru þetta alvöru prófanir á borð við sjálft elgsprófið. MG ZS stóðst bæði öryggisprófanir þeirra og Euro NCAP með glans og það var enn ein rós í „hnappagatið“.  

Drægni, allt að 440 km. er enn einn plúsinn sem var nefndur sem og sú staðreynd að verðið á bílnum í Svíþjóð (399.990 sek) gerir það að verkum að hinn almenni kaupandi ætti að hafa ráð á honum, að því er dómnefndin sagði í umsögn sinni.

Þessu getur undirrituð verið sammála að mestu, nema hvað sænski bílamarkaðurinn er ekki aðalatriði í okkar tilfelli. Hvað um það: Bíllinn er á verði sem talist getur sanngjarnt, hann er vel búinn, öruggur, drægnin er góð og svo er hann ljómandi snotur í þokkabót!

Myndir: Óðinn Kári og Malín Brand
Myndir innan úr bíl (allar nema ein þeirra): MG Motors Europe
Gefið út þann:
4/4/22
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.