Reynsluakstur:
Renault Clio RS
,
árgerð
2020
Umboð:
BL
Akstursupplifun, lipur, hljóðkerfi
Pláss afturí

Eitursnjall og fagur

Það vantar ekki að Frakkar kunna að hanna fallega bíla. Það á sannarlega við um Renault Clio og frá því hann „endurfæddist“ útlitslega árið 2012 (Clio IV) þá hefur mér þótt hann með eindæmum fagur á að líta. Litaúrvalið er líka virkilega skemmtilegt.

Útlitið er vissulega ekki allt en þó fyrirfinnast þeir kaupendur sem velja bíla eingöngu eftir útlitinu. Við þá mæli ég algjörlega með hinum fagra Clio.

Nú er kominn á markað Clio V, fimmta kynslóðin og má framleiðandinn eiga það að mikill og góður búnaður er í bílnum og verður vikið nánar af því hér síðar.

Sá bíll sem prófaður var þessu sinni kallast Clio RS Line EDC og skartar hann sportlegra útliti en hefðbundinn Clio. Varast ber þó að rugla honum saman við sportbílinn Clio RS sem er 200 hestafla tryllitæki. Þessi er með 1300cc bensínvél, sjálfskiptur og 130 hestöfl.

17” RS álfelgur eru undir bílnum, RS Sport leðurstýri, innréttingar, pedalar og allt í þeim dúr. En munum; þetta er bara útlitið. Engir sport eiginleikar og ekkert sportlegt við akstur bílsins enda er þetta ekki sportbíll!

Rými sem nýtist vel

Það var ljómandi gott að aka bílnum. Hann er lipur og vel fór um ökumann og farþega í framsæti. Ég klikkaði alveg á að setjast aftur í bílinn þannig að fátt er um rýmið þar að segja. Það leit í það minnsta út fyrir að rúma vel tvo krakka, jafnvel þrjá ef þeir eru af smærri gerðinni.

Farangursrýmið er nokkuð gott, eða 391 L og má koma mörgum innkaupapokum þar fyrir og jafnvel golfsetti! Leggi maður aftursætin niður fæst auðvitað enn meira pláss (1464 L) og þá er hægðarleikur að koma fyrir mörgum golfsettum og kerrum, sé maður þannig þenkjandi.

Snjallbíll fyrir allan peninginn

Í heimi þar sem flestir eiga snjallsíma og snjallúr er ekki annað hægt en að fagna snjallbílum. Renault Clio er heldur betur snjall! Í fyrsta lagi tekur bíllinn manni fagnandi, nánast eins og hann sé gæludýr, þegar maður gengur að honum. Ljósin kvikna og speglarnir fara í rétta stöðu án þess að maður geri neitt. Það eina sem þarf er að vera með fjarstýringuna í veskinu eða vasanum og þá er bíllinn tilbúinn til brúks. Einn takki til að ræsa græjuna og svo af stað.

Margmiðlunarbúnaðurinn er mjög vandaður og væri hægt að skrifa helling um hann ef ég hefði fengið aðeins lengri tíma til að prófa hann. Þó get ég greint frá því að afar einfalt var að tengja farsímann við búnaðinn og það sem kallast EASY LINK. Með því að nota Apple Carplay (eða Android Auto) er hægt að birta forrit úr símanum á svaka stórum og fínum skjá (9.3” og í háskerpu) við mælaborðið. Herlegheitunum má stjórna með raddskipunum eða með því að snerta skjáinn.

Gaman hefði verið að prófa forritið MY Renault en með því má t.d. nota staðsetningarbúnað sem hefði verið fínt að hafa hér á árum áður þegar maður ráfaði um fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna leitandi að bílnum sínum.

Hljóðkerfið í Clio er einstaklega gott. Það er sérhannað af BOSE og Renault og samanstendur af átta hátölurum og bassahátalara sem nefnist Fresh Air. Ekki veit ég hvað nafnið á að fyrirstilla en það var virkilega frískandi að hlusta á tónlist í þessum líka fínu græjum.

Allt sem mögulega getur stuðlað að auknu öryggi bílstjóra og farþega virðist vera til staðar í hinum endurskapaða Clio. Aksturshjálp, aðstoð við að leggja í stæði,  fjarlægðarskynjarar hér og þar, 360°myndavél og svo mætti lengi telja. Bíllinn gerir greinarmun á hjólandi- og gangandi vegfarendum og er sérstök neyðarhemlun sem tekur völdin áður en bílstjóri gerir einhverja gloríu. Sem betur fer reyndi ekki á þetta í reynsluakstrinum en eftir sem áður er þetta snjallt.

Clio fékk fullt hús stiga í öryggisprófunum EuroNCAP, eða fimm stjörnur, og þær stjörnur tala sínu máli.

Lítið um píp og baul

Mörgum okkar þykir óþolandi þegar endalaus baul og píp heyrast frá mælaborði; útihitastigið er lægra en fjórar gráður, akreinavarinn er virkur, þú ert að bakka bifreiðinni, bensínið er að klárast, mamma þín er að hringja, o.s.frv. Stöðugt áreiti sem fer í taugarnar á manni. Þetta er sko ekki í Clio! Hann lætur mann vita af því sem þarf að berast með titringi í stýrinu og má stilla styrk titringsins.

Sennilega er þessi óbeit manns á bauli, tísti og pípi hverskonar í bílum tilkomin af því hversu marga gamla skrjóða maður hefur átt um ævina. Öll svona hljóð í eldri apparötum gefa iðulega til kynna að eitthvað sé að. Eitthvað bilað.

Í það minnsta er fínt að vera laus við þetta!

Verð, eyðsla og samantekt

Bíllinn eyddi að meðaltali 6 lítrum á hundraðið í bíltúrnum mínum og er það vel. Það er hægt að stilla bílinn á umhverfisvænni stillingu sem aðeins var prófuð stutt og því ekki marktækt hvernig eyðslan væri í þeirri stillingu.

Verðmiðinn á Clio RS Line EDC er 4.190.000 krónur en hægt er að fá Clio frá 2.990.000 krónum. Staðalbúnaðurinn í ódýrustu gerðinni er mikið til sá sami og farið var yfir hér þannig að verðið hlýtur að teljast tiltölulega sanngjarnt.

Í heildina litið var mikil tækniupplifun að prófa þennan nýja Clio og ljóst að mikið Frakkarnir hafa sett mikið púður í hönnunina. Útkoman er í það minnsta góð og býst ég við að eigendur slíkrar sjálfrennireiðar fái ekki fljótt leið á henni því það virðast endalausir möguleikar, t.d. í gegnum EASY LINK og MY Renault. Svona eins og spennandi takkabretti fyrir takkaóða!

Ljósmyndir: M. Brand og Þórður Bragason

Myndir innan úr Clio: Renault

Gefið út þann:
20/11/20
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.