Reynsluakstur:
VW ID.4
,
árgerð
2021
Umboð:
Hekla
Aksturseiginleikar, drægni, verð og hönnun
Framsæti mættu vera dýpri, ekki þráðlaus símhleðsla í staðalbúnaði

Bíll sem markar tímamót í samkeppninni

Það er óhætt að segja að þessi bíll hafi vakið mikla eftirvæntingu þegar tilkynnt var um komu hans. Það var spáð í drægni, verð, hagkvæmni, þægindi og um fram allt framúrstefnulega hönnun. Já, VW ID.4, litli bróðir VW ID.3 sem kom sá og sigraði fyrir skömmu – er bíll fólksins, á því leikur enginn vafi.

Mjúkar, rafmagnaðar línur. Takið eftir hversu felgurnar samsvara sér vel við hönnun bílsins.

Hvað getur svona bíll?

Stóra spurningin er þessi: Dugar venjulegri fjölskyldu eitt stykki ID.4 til allra hefðbundinna nota – dagleg notkun sem fjölskyldubíll og til lengri og skemmri ferðalaga?  

Svarið er já. Drægnin er skv. WLTP staðli um 500 km.

Raundrægni gæti verið að meðaltali um 350-400 km. en þar spila margir þættir inn í eins og veður, hiti, vegyfirboð og svo að sjálfsögðu hvernig bílnum er ekið.

VW ID.4, 1st Edition kemur á 20 tommu Drammen álfelgum.

Reynsluakstursbíllinn var af 1st Edition gerð. Það er sú gerð sem VW setur á markað í sérútgáfu og með blönduðum búnaði áður en hinar hefðbundnari gerðir koma síðan á markað.

Hekla býður 1st Edition bílinn í vel útbúinni grunnútgáfu og síðan 1st Edition Max sem hlaðinn er búnaði.

Hér má skoða allt um ID.4 hjá söluaðila.

LED ljós allan hringinn.

Kraftmikill og hagkvæmur rafmótor

Það er svolítið skrítið þegar maður kíkir undir bílinn – hann er algjörlega sléttur og ekkert sem getur tekið niðri. Rafmótorinn skilar 204 hestöflum og togar um 310 Nm. Krafturinn er því nægur. Hægt er að velja um fjórar mismunandi aksturstillingar en þær eru Eco, Comfort, Sport og síðan er hægt að sérsníða sína eigin.

Munur milli stillinga er aðallega fólginn í afli rafmótorsins en akstursstillingarnar gefa manni mismunandi upplifun í akstrinum.

Framendinn er sérlega vel heppnaður og á MAX útgáfunni tengjast framljósin með ljósborða á milli.

Er eitthvað vesen að hlaða svona bíl?

Nei, aldeilis ekki. Sagt hefur verið að daglegur aksturs meðal Reykvíkings og nærsveitarmanna séu um 40 kílómetrar á dag. Gefum okkur að við búum í Reykjanesbæ og vinnum í Garðabænum. Þá ökum við um 80 kílómetra fram og til baka, notum bílinn svo eitthvað í hádeginu og sækjum síðan börnin í tómstundir og kíkjum svo í kaffi til Grindavíkur um kvöldið en frá Reykjanesbæ til Grindavíkur er um 24 kílómetrar.

Þá erum við komin í um 60 kílómetra plús eitthvað snatt í búðina og skutl og skrepp með krakkana.

Segjum 70 kílómetrar á venjulegum degi – talsverður akstur, ekki satt?  ID.4 er með 11 kWh hleðslugátt sem fyllir bílinn af rafmagni í heimahleðslustöð á um 7.5 tíma.

Og það gerist oftast á nóttinni. Svo þetta er ekkert vesen!

Þægilegt aðgengi fyrir ökumann og farþega. Þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.

Akureyri – hér komum við

Ein algengasta spurning til okkar Bílabloggs hópsins varðandi prófun rafmagnsbíla er sú hvort bíllinn komist til Akureyrar á hleðslunni. Fyrst fannst okkur ekkert skrítið að fólk vildi vita þetta – en núna er öldin önnur. Bílaframleiðendur eru að finna sína fjöl í rafbílaframleiðslu.

Stærstu hluti notkunar bílsins fer fram í borgarakstri og margir bílaframleiðendur stíla sérstaklega sína framleiðslu inn á þann hluta markaðarins.

En ID.4 getur farið alla leið, til Akureyrar, á hleðslunni, án þess að stoppa.

Hins vegar hef ég aldrei keyrt norður á Akureyri nema með stoppi. Pulsa, kók, ís í brauðform og svo kannski heitur pottur í leiðinni. Á meðan myndi ég sko hlaða.

Afturhlerinn opnast vel. Farangursrýmið rúmar 543 lítra en allt að 1570 lítrum með sætin niður.

Einstaklega fallegur bíll

ID.4 er sérlega vel heppnaður útlitslega séð – og á það við um bæði að innan og utan. Mjúkar línur, nýtískuleg samsetning, LED ljós að framan og aftan mynda samfellu og bíllinn er rammaður inn með flottum gerðum af stórum og miklum felgum. 1st Edition bíllinn kemur á 20 tommu Drammen felgum en 1st Edtion Max kemur á 21 tommu Narvik felgum – sérlega flottum.  

Á 20 og 21 tommu felgunum eru afturdekkin breiðari. Bíllinn er afturhjóladrifinn en kemur í aldrifsútgáfu seinna í mánuðinum (apríl 2021).

Hægt er að velja um tvær gerðir rafhlaða, aðra 52 kWh og þá stærri 77 kWh. Í framhaldinu koma svo fleiri gerðir – allt frá City og Style með minni rafhlöðunni og Life, Business, Family, Tech og Max – sem allt eru gerðir með mismunandi búnaði, allt eftir því hvernig þú vilt hafa bílinn. Hér má sjá frekari búnaðarlýsingu og verð.

Frábærir aksturseiginleikar

VW ID.4 er sérlega skemmtilegur í akstri. Bíllinn lætur vel að stjórn, léttur og nákvæmur í stýri og fjöðrunin svíkur ekki. Það er mjög sérstök tilfinning að aka þessum bíl yfir hraðahindrun því hreyfingar bílsins eru talsvert ólíkar öðrum bílum sem við höfum reynsluekið.

Sætin eru úr velúr efni sem gefur bílnum sérstakan stíl og hliðar sætanna eru klæddar rauðbrúnu gervileðri.
ID.4 er rúmgóður fjölskyldubíll og það fer vel um allavega tvo fullvaxna einstaklinga afturí.

Hann einhvernveginn svífur yfir án þess að maður finni fyrir því en samt er bíllinn með frekar stinna fjöðurn – án þess að hún sé of mjúk.

Ökutækið svínliggur og ekki að undra því batteríið sem er neðst í bílnum er þyngsta einingin og þyngdarpunkturinn alveg í 50/50 hlutföllum.

Týpa 2 hleðslugátt

ID.4 getur drukkið í sig allt að 125 kWh í hraðhleðslu og tekur þá um 40 mínútur að hlaða upp í 80%. Í heimahleðslu tekur hann við 11 kWh á klukkustund og býður Hekla upp á hleðslustöðvar sem henta.

Bíllinn kemur síðan með hleðslukapli sem hleður bílinn í gegnum venjulega heimilisinnstungu en þá er hleðslutíminn talsvert langur. ID.4 kemur með varmadælu sem staðalbúnaði og dregur þannig úr orkunotkun t.d. við notkun miðstöðvarkerfis.

Innrétting í ID.4 er vel heppnuð og allt viðmót hannað með notandann í huga. Það er einfalt og þægilegt.
Hurðir lokast yfir sílsa og varna því að óhreinindi festist í glufum og dreifist í föt.

Einfalt mál að segja bless við bensínið

Nú, á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021 er rafbílatjúttið að hefjast. Með þessum glæsilega valkosti sem VW býður nú upp á, er brotið blað í rafbílasögunni – hér er kominn afar rúmgóður bíll sem hentar mörgum, á góðu verði og fallegur.

Nú í apríl verður ID.4 síðan kynntur með aldrifi og mætti segja að þá sé komin nokkuð fullkomin rafbílalausn sem rafbílaframleiðendur gætu þurf að miða við í samkeppninni.

Botn bílsins er algjörlega sléttur en rafhlaðan situr neðst á hinum nýja MEB grunni sem VW notar fyrir alla rafbíla samsteypunnar.
Þarna kennir margra grasa og öllu haganlega fyrirkomið.

Helstu tölur:

Verð frá 5.090 þús. (Reynsluakstursbíll kr. 6.490 þús).

Rafhlaða: 52-77 kWh.

Drægni: -340-500 km. skv. WLTP.

Hestöfl: 204.

0-100 km á klst. 8,5 sek.

Hámarkshraði: 160 km/klst.

CO2: 0 g/km.

L/B/H: 4584/1852/1631

Veghæð: 164mm.

Eigin þyngd: 2.124 kg.

Hleðslutími AC 7,5 klst.

Hleðslutími DC (30-80%) 40 mín.

Dráttargeta: 1000 kg.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson

Gefið út þann:
15/4/21
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt
Litríkur karakter
Flottur frá hlið

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.