Stundum gerist það að gamlar fréttir fara á flug og það er vissulega í lagi ef þær eru réttar og allt í gildi sem fram í þeim kemur. Þegar þessi frétt var í flugtaki vinsælda í gærdag ákvað blaðamaður að uppfæra fréttina og hér er hún aftur komin, frétt frá september 2020 um áhrif útgöngubanns vegna heimsfaraldurs, á loftmengun: Dró úr loftmengun eða ekki?
Það er sannarlega ekkert undarlegt við það að frétt um loftslagsmál fari á flug þótt „gömul“ sé. Áhugi fólks á loftslagsmálum er eðlilega meiri vegna aukinnar þekkingar og almennt er fólk meðvitaðra um þær loftslagsbreytingar sem orðið hafa á undanförnum árum og nú er stóra málið hvernig við tökum á málunum.
Rannsóknin í grundvallaratriðum
Institute for Social Marketing and Health við Stirlingháskóla vann rannsóknina, sem þeir áhugasömustu geta lúslesið hér, sem ber yfirskriftina Changes in outdoor air pollution due to COVID-19 lockdowns differ by pollutant: evidence from Scotland en Dr. Ruaraidh Dobson leiddi rannsóknina.
Verulega dró úr fjölda bíla á skoskum vegum fyrsta mánuð útgöngubannsins. 65 prósent færri bílar voru á flandri miðað við í venjulegu árferði og því var auðvelt að hrapa að ályktunum á borð við að verulega hefði dregið úr loftmengun þegar svo mjög dró úr umferð.
Þar af leiðandi ætti að sama skapi tíðni krankleika, á meðal þeirra sem eru viðkvæmir fyrir loftmengun, t.d. hjá þeim sem þjást af öndunarfærasjúkdómum, að lækkka.
Þetta var rannsóknarefnið og gefum nú Dr. Ruaraidh Dobson orðið (aftur í tímann – munið að þetta er frétt frá 2020):
„Niðurstöður rannsóknar okkar voru þvert á niðurstöður rannsókna sem gerðar voru á svipuðum tíma annars staðar í heiminum, eins og í Wuhan í Kína og Mílanó. Við gátum ekki sýnt fram á að í útgöngubanninu hér í Skotlandi hefði dregið úr svifryki og öðrum smáögnum í loftinu,“ sagði hann.
Það var því ekki hægt að skella skuldinni á þær agnir sem oft eru taldar svífa um loftin vegna bílaumferðar. Nei, ekki í Skotlandi alla vega.
„Þetta er vísbending um að bílar skipa ekki stærsta hlutverkið í þessari mjög svo óheilnæmu loftmengun í Skotlandi.“

Skellurinn
Jæja, lesendur góðir. Hér kemur svo skoski skellurinn:
„Það þýðir að fólk er líklegra til að anda að sér óheilnæmu lofti heima hjá sér. Einkum og sér í lagi þegar verið er að elda í illa loftræstu rými, eða þegar reykt er,“ sagði doktor Dobson.
Ekki ætlar undirrituð að freistast út í það fúafen sem bresk matargerð getur reynst. Það er erfitt að standast freistinguna en það er einfaldlega ekki við hæfi að fjalla um hryllilega brasaðan mat og allt-djúpsteikt-viðhorfið sem Skotar eru ekki saklausir af. Ojæja, þarna kom þetta nú samt: Matargerðarrausið.

Hvað reykingar varðar þá er Bretland á miðjum evrópska „reykingalistanum“ en skoða má þann öskubakkaúrskurð hér en samkvæmt nýjustu tölum reykja þar 19.20%. Til samanburðar er hlutfallið hér á landi 13.80%.
Frekara lesefni um rannsóknina má finna t.d. hér og aðra frétt um niðurstöðurnar má lesa hér.