Það eru til bílar sem maður prófar og gleymir, og svo eru til bílar sem grafa sig inn í vitundina. Polestar 3 Long Range Dual Motor í Performance útgáfu tilheyrir hinum síðarnefndu.
Eitt sunnudagssíðdegi, fékk ég Polestar 3 LRDM í Performance útgáfu að láni hjá Brimborg – með því vorum að að loka prófunum á öllum þeim Polestar gerðum sem í boði eru hjá fyrirtækinu. Orðið „geggjaður“ greyptist inn í heilabörkinn áður en fyrstu kílómetrarnir voru á enda.

Polestar 3 er óneitanlega öðruvísi bíll. En flottur er hann.
Þú ert ekki bara að aka bíl
Performance-útgáfan skilar um 380 kW, sem jafngildir um 517 hestöflum, og 910 Nm í togi. Hröðunin úr kyrrstöðu í 100 km/klst. tekur aðeins 4,7 sekúndur og hámarkshraði er 210 km/klst.

Afturhlutinn minnir hressilega á Volvo frá fyrri tíð.
En það skemmtilegasta er hvernig þessi kraftur skilar sér: mjúkt, agað og hiklaust. Það er þessi tilfinning að bíllinn sé alltaf örlítið á undan þér í ákvarðanatöku — þú hugsar um að taka framúr og hann er byrjaður áður en hugsunin er fullmótuð.
Hann sparkar ekki í botninn á manni (nema að þú setjir hann í Performance ham) heldur eykst hröðunin mjúklega.
Rafhlaðan er 111 kWh og rafkerfið byggt á 400 volta grunnkerfi. Drægnin samkvæmt WLTP staðli er um 561 kílómetrar í Performance, og orkuneyslan er um 21–22 kWh á hverja hundrað kílómetra.

Hér má sjá framhlutann sem prýddur er vindskeið til að lækka loftmótstöðu, einnig má sjá myndavél en radarkerfið er á bakvið „grillið.”
Þegar bíllinn er hlaðinn í hraðhleðslu fer hann úr 10 í 80 prósent á um hálftíma, þar sem hámarksafl hleðslu er 250 kW. Þá er 11 kW AC hleðsla sem hentar vel til að hlaða yfir nótt eða þegar bíllinn stendur á stæðinu fyrir utan heimili eða vinnustað.
Ró og spekt
Innra rými Polestar 3 er dæmi um nýja kynslóð rafbíla sem leggja áherslu á kyrrð, efnisgæði og skandinavískan einfaldleika. Polestar 3 býður upp á nægt pláss án þess að hönnunargæðum sé fórnað á nokkurn hátt, andrúmsloftið er þægilegt og hljóðlátt.
Það er ótrúlegt hvað verkfræðingum Polestar hefur tekist að útbúa hljóðlátt farþegarými.
Það eina sem þú heyrir er mjúkt suð, þegar dekkin mæta veginum. Farþegarýmið andar og bíllinn færir manni þá sérkennilegu tilfinningu að hann sé jafn mikið athvarf og farartæki.

Innanrými er plássmikið og vel hannað. Sætin halda vel við mjóbak og þau eru rafstýrð og þannig er auðvelt að finna sína stillingu.
Ekki er síður ánægjulegt hversu skipulega undirvagninn vinnur með manni. Virkt loftfjöðrunarkerfi stillir bílinn sjálfkrafa í samræmi við hraða og veglínu, fjöðrun og stýri tala saman með nákvæmni sem gerir bílinn þannig að hann grjótliggur í beygjum – nánast á hvaða hraða sem er.

Allt sem þarf, annars mínímalískt.
Þrátt fyrir þyngdina sem er nær 2.5 tonn, eru hreyfingarnar allar bundnar og mýkt sem segir: „Þú ert ekki að reyna á mig, við erum bara í venjulegum bíltúr saman – viltu kannski ís?“
Hemlabúnaðurinn styður við þá tilfinningu – stórar loftkældar bremsur vinna í sátt við endurhleðsluhemlun svo bíllinn nýtir orku og dregur úr álagi á íhluti á sama tíma og hraðastýringin heldur taktinum.







Allt þetta gerir aksturinn ekki bara áhrifaríkan heldur þægilegan. Það sem undirstrikar þægindin í Polestar bílunum er að þú setur sjálfkeyrandi búnaðinn á með einu handtaki, í stýrisarmi og svo stillir þú hraða og nálægð eftir þörfum í stýrinu.
Það er reyndar lítið um raunverulega takka í Polestar líkt og í mörgum nýjum bílum í dag – þó svo að Toyota sé þar sér á parti með alla sína takka enn, frá því um miðja tuttugustu öld. En takkar eru ekki bara takkar – það er notendaupplifunin sem gildir.

Byggingarefni bílsins er allt rekjanlegt – annaðhvort endurvinnanlegt eða úr endurunnum efnum.
Í Polestar er stýrikerfi byggt á Google og þar er hugsað um notendaupplifun. Það er einfalt og auðvelt í notkun. Auðvitað þarftu að venjast því eins og tökkunum í Toyotunni – en það tekur ekki langan tíma.

Skjákerfið er einfalt og auðvelt í notkun. Þú ferð bara í smá bíltúr og fiktar aðeins og þú „fattar” strax uppbygginu kerfisins.
Segjum að þú viljir aka í Performance stillingu öðru hvoru, þá getur þú valið þér aðgerð á skjánum sem „shortcut” í þann akstursham – eða bara stöðvað bílinn og stillt á skjánum – tekur 15 sekúndur.

Performance bíllinn er með gulum áherslum eins og bremsum og öryggisbeltum.
Hljómtækin í reynsluakstursbílnum eru af Bower & Wilkins gerð og skilar hreinum, vel fylltum tónum um allan bíl – eins og þú sért á tónleikum í Royal Albert Hall enda 25 hátalarar sem láta í sér heyra – og meira að segja í höfuðpúðanum. Það er frábær fídus þegar maður talar í símann í gegnum kerfi bílsins.

Öflugt Bowers & Wilkins hljóðkerfi með 25 hátölurum og þar með talið í höfuðpúðanum.
Einfalt yfirbragð
Ytra útlit Polestar 3 er í anda vörumerkisins — hreinar og skarpar línur, sjálfsöruggt og án sýndarmennsku. Línurnar eru fallegar og kraftmiklar og hlutfall framhluta, þaks og afturhluta gefur bílnum jafnvægi sem gefur honum fyrst og fremst töff útlit á veginum.
Performance pakkinn bætir við litlum smáatriðum sem undirstrika aflið án þess að þau gleypi athyglina. Til dæmis gular bremsudælur og gul öryggisbelti.
Mál bílsins gera hann hagnýtan fjölskyldu- og ferðafélaga: hann er nær fimm metra langur með rétt tæplega þriggja metra hjólhafi, rúmgott farangursrými sem er um 484 lítrar. Hann er áberandi breiður án þess að virka fyrirferðarmikill. Innra byrði nýtist vel og fjarlægð frá framsætum til aftursæta tryggir að fullorðnir farþegar njóta þess að sitja aftur.

Nægt fótapláss fyrir þrjá fullorðna. Setur aftur í mættu þó vera aðeins lengri.
Dráttargeta upp á 2.200 kíló gerir hann einnig hagnýtan í og þægilegan ferðafélaga í lengri ferðum. Það eina sem við tókum eftir er að þegar þú situr aftur í mættu setur í aftursætum vera örlítið lengri en þær mæta baki mjög vel og halda vel við þegar setið er í þeim.


Loftlagsstýring og tengimöguleikar við aftursæti.
Performance eða Polestar 3 LRDM
Grunnbíllinn býr yfir 360 kW (um 489 hestöflum), nær 100 km/klst. á 5 sekúndum og býður drægni upp á 628 kílómetra. Orkunotkunin er lægri og hentar þeim sem vilja hagkvæmni án þess að fórna gæðum.

Heildarniðurstaðan
Það sem situr mest eftir er hvernig Polestar 3 bindur saman kraft og kyrrð í eina heild. Hann er ekki bíll sem öskrar á þig að taka eftir sér — hann lætur þig einfaldlega finna að þú hafir alltaf ætlað að aka honum.
Þar sem margir rafbílar leggja áherslu á tölur eða tilfinningu, tekst Polestar 3 að sameina hvort tveggja án þess að gerast tilgerðarmikill.

Hann er ekki bíll sem öskrar á þig að taka eftir sér — hann lætur þig einfaldlega finna að þú hafir alltaf ætlað að aka honum.
Þegar ég steig út eftir smá tíma með Polesatr 3, fann ég að tilfinningin sem sat eftir var ekki hávaði, adrenalín eða tæknifikt — heldur ró, kraftur og orð sem ég hef ekki losað mig við síðan: geggjaður!
Myndband
Helstu tölur:
Verð: frá 12.990.000 kr. Reynsluakstursbíll 13.990.000 kr.
Hestöfl: 489/517
Drægni: 560/628 km. skv. WLTP.
Rafhlöðustærð: 111 kWh
Hröðun 0-100 km/klst: 4.7/5 sek.
Eigin þyngd: 2.584 kg.
Heimahleðslugeta (AC): 11 kW
Hraðhleðslugeta (DC): 250 kW
Loftmótstaða: 0,29 Cd.
Lengd/breidd/hæð í mm. 4900/2120/1614
Myndbandsupptaka: Ólöf A. Þórðardóttir







