Fyrsti Peugeot 3008 kom á markað árið 2009 sem MPV – fjölnota bíll sem blandaði saman „jepplinga” eiginleikum og fólksbíl.
Árið 2017 kom önnur kynslóð sem gerði 3008 að fullvöxnum sportjepplingi (SUV), og nú árið 2025 fáum við að kynnast þriðju kynslóðinni: Peugeot E-3008 – rafmagnsbíl sem sameinar glæsilega hönnun, tæknivædda innviði og akstursupplifun sem hittir beint í mark.

Kúpubakslagið gefur nýjum E-3008 sportlegt og skemmtilegt yfirbragð.
Sveigjanleiki fyrir mismunandi þarfir
Það sem vekur strax athygli er hvað valmöguleikarnir með E-3008 eru margir – sama hvort þú sért að keyra innanbæjar eða takast á við lengri ferðir.
Við prófuðum GT-útgáfuna og vorum hrifin af aflinu og mýktinni í akstri – en þeir sem vilja borgarbíl með aðeins minni drægni eða fjórhjóladrifi, hafa úr miklu að moða:
- Allure og GT með 73 kWh rafhlöðu bjóða um 525 km drægni og 210 hestöfl.
- Long Range útgáfurnar með 96,9 kWh rafhlöðu bjóða allt að 700 km drægni með 230 hestöflum.
- GT AWD fær tvo rafmótora – einn að framan og einn að aftan – sem gefa alls 320 hestöfl og um 500 km drægni.

LED ljósin gefa bílnum mjög sterkan svip. Takið eftir hvernig ljósarandirnar á stuðaranum mæta lýsingunni í aðalljósunum.
Orkunýtingin er sérstaklega góð miðað við stærð og afl, og það kom okkur skemmtilega á óvart hvað hann heldur vel orku – jafnvel eftir akstur á Reykjanesbrautinni á leiðinni til og frá Keflavík.
Jafnvægi og nákvæmni
Það er eitthvað við hvernig E-3008 liggur á veginum sem fær mann til að slaka á. Fjöðrunin er miðlungsstíf, sem þýðir að hann tekur ójöfnur nokkuð vel en er samt alveg stabíll í beygjum og við hraðabreytingar.
Hann minnir að mörgu leyti á stærri bróður sinn E-5008 – en er aðeins léttari og snarpari í stýri.

Hér er vandað til verka að hætti frakka, efnisval og útlitshönnun eru hér eins og bragðbesti konfektmolinn í kassanum.
Í sportstillingu bregst bíllinn við áreiti af meiri krafti – stýrið þyngist, rafmótorarnir toga örugglega og bílstjórinn fær þau „tengsl“ við bílinn sem margir sækjast eftir.
Þú og bíllinn verða eitt. Það er þessi breyting sem gerir E-3008 svo skemmtilegan – hann getur verið allt frá venjulegum borgarbíl yfir í fjörugan sportara.








Stemning
Þegar maður sest inn í E-3008 blasir við einstaklega vel hannað innanrými. Þetta er ekki bara bíll – þetta er rými sem maður vill vera í.
Sætin eru þægileg, með góðan stuðning og næga dýpt – og í sumum útfærslum koma þau með hita, nuddi og rafstillingum sem gera jafnvel lengstu ferðir notalegar.

Stýrið er sporöskjulagað og lítið, minnir einna helst á go-kart bíl. Það gerir aksturinn léttan og skemmtilegan. Virkilega sportlegur fílingur.
Hljóðvistin er góð, þó aðeins meira heyrist í E-3008 en í E 5008 – en það er hvergi yfirþyrmandi. Bíllinn er vel einangraður og aksturinn rólegur.
Innstig og útstig er líka sérstaklega þægilegt – sem margir meta mikils, ekki síst fólk á besta aldri sem vill ekki þurfa að „klifra“ inn í bílinn eða stíga niður úr honum.

Meðalpláss í aftursætum.

Það er ekki hægt að kvarta yfir plássinu aftur í. En hávaxnir gætu verið með höfuðið alveg upp í toppnum ef þeir sitja hátt í sætinu.
Við sjáum E-3008 fyrir okkur sem frábæran bíl fyrir:
- Fjölskyldufólk sem þarf pláss fyrir börn, töskur, leikföng og ferðadót
- Hjón á besta aldri sem vilja bíl sem er þægilegur, stílhreinn og með góðu aðgengi
- Fólk sem ferðast mikið, sækir sumarbústaðinn eða nýtur útiveru um helgar
- Þau sem vilja tæknivæddan og stílhreinan borgarbíl – en vilja líka geta farið í ferðalag án þess að stoppa stanslaust til að hlaða.

Sætinu eru mögnuð í Peugeot, halda sérlega vel við, sportleg og efnisval er virkilega flott.
Tæknilegur
Það er erfitt að tala um Peugeot E-3008 án þess að nefna tæknina. Peugeot Panoramic i-Cockpit grípur sannarlega augað – með uppsetningu sem minnir meira á mælaborð í einhverju framtíðar farartæki en bíl.
Skjáirnir eru bjartir og skýrir, GPS-kerfið þokkalega hraðvirkt, og þráðlausa símahleðslan handæg á mjög þægilegum stað – næstum undir mæalaborðinu. E-3008 eru búinn lyklalausu aðgengi og með sjálfvirkri læsingu og opnun þegar lykill er í nálægð.
GT-útgáfurnar fá jafnframt:
- Fjarlægðarstillanlegan hraðastilli með Stop & Go
- Drive Assist Plus – með hálfsjálfvirkri akreinaskiptingu
- 360° myndavél og háþróað öryggiskerfi.
Það er þessi blanda af notagildi og fágun sem fær mann til að vilja keyra hann aftur og aftur. Myndavélakerfið er reyndar mjög flott, kýrskýrar myndir og nægilegas stórir skjáir.

Felgurnar á þessari gerð gefa sterkan svip.
Skott og sveigjanleiki
Farangursrýmið í E-3008 er til fyrirmyndar. 520 lítrar með sætin uppi og allt að 1480 lítrar með þau niðri.
Farangursgeymslan er á tveimur hæðum sem gerir skipulagið sveigjanlegt og hentugt – hvort sem þú ert með Bónuspoka, hjól eða helgarfarangur í skottinu.

Skottið er ágætt, hægt að hækka og lækka gólfið í farangursrýminu.
40/20/40 skiptingin í aftursætum gerir auðvelt að taka með sér hluti sem annars myndu ekki komast fyrir – án þess að fórna mestu af sætaplássinu.
Hleðsla og dagleg notkun
Eins og fleiri Peugeot rafbílar, þá nýtir E-3008, 160 kW hraðhleðslu og 11 kW heimahleðslu. Það þýðir að þú ert að hlaða 20–80% á 35 mínútum í hraðhleðslu, eða fyllir heima á 4–6 klst. eftir rafhlöðustærð.
Þetta er nákvæmlega það sem skiptir máli í raunveruleikanum – bíll sem er alltaf tilbúinn.

Grátt áklæðið sem lítur út eins og tweedefni gefur innanrýminu sterkan svip. Virkilega flottur frágangur og skemmtilegar hugmyndir hjá hönnuðum Peugeot.
Niðurstaðan – E-3008, vel heppnuð þriðja kynslóð
Það eru sumir bílar sem maður metur út frá skynsemi – og aðrir sem maður kýs með hjartanu. Peugeot E-3008 gerir hvort tveggja.
Hann er fallegur, frábær í akstri, einstaklega vel útbúinn og með drægni sem hentar raunveruleikanum.
Hvort sem þú ert að leita að fjölskyldubíl, ferðafélaga eða einfaldlega bíl sem fær þig til að brosa í hvert skipti sem þú sest undir stýri – þá er E-3008 skref í rétta átt.

Peugeot E-3008 er fjölskyldubíll sem hentar vel í borgarsnattinu – sem og lengri ferðum.
Myndband
Helstu tölur:
Verð frá 6.579.000 – 8.290.000 kr.
Afl: 210/320hö.
Tog: 155/235 Nm.
Rafhlaða: 73 kWh/97 kWh.
Drægni: 500/700 km. skv. WLTP.
Lengd/breidd/hæð – mm: 4.542/1.895/1.641
Myndataka og myndvinnsla: Radek Werbrowski
Klipping myndbands: Pétur R. Pétursson
Reynsluakstur: Radek Werbrowski og Pétur R. Pétursson