Óvænt endurkoma Kevins Magnussen

136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Enginn annar en Kevin karlinn Magnussen hefur skrifað undir samning við Haas-liðið í Formúlu 1. Daninn kemur í stað Rússans Nikita Mazepin sem liðið rifti samningi við sl. helgi.  

Fjallað var um Magnussen hér í fyrra eftir að bók hans kom út en hann hætti í Formúlu 1 að keppnistímabilinu loknu 2020. Fyrst keppti hann fyrir McLaren (2014-15) svo Renault (2016) og síðustu árin (2017-2020) fyrirr Haas.

Þetta er helst til óvænt endurkoma Magnussen í Formúlu 1 en hann var kominn á fleygiferð í IndyCar og var auk þess genginn til liðs við Peugeot í World Endurance Championship. Hann sagði að þar hefði hann mætt miklum skilningi og hann skilið í góðu.

Steiner er ánægður með endurkomu Magnussen.

Orðljóti liðsstjórinn sem ég held svo mikið upp á, Guenther Steiner, sagði í viðtali sem birtist á F1.com að hann væri himinlifandi með það að fá Magnussen aftur:

„Það var engin spurning í okkar huga að hann væri sá ökumaður sem myndi styrkja stöðu liðsins til muna.“

Þeir Mick Schumacher og Kevin Magnussen verða því fulltrúar Haas í keppninni í Bahrain.

Magnussen sagði í viðtali við sama vef að hann hafi orðið hissa þegar hann fékk símtalið en jafnframt kampakátur og ekki síst þakklátur.

Tengt efni: 

Kevin Magnussen leysir frá skjóðunni

Innrás Rússa veldur usla í Formúlu 1

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Svipaðar greinar