Ath. ekki sleppa mynbandinu í lok þessarar greinar.
Það er alltaf ánægjulegt þegar bíll kemur manni á óvart. Ekki endilega af því hann sé stærstur, hraðskreiðastur eða dýrastur – heldur af því hann nær einfaldlega að gera hlutina rétt.
Opel Grandland GS AWD er einmitt þannig bíll. Hann sameinar afl, stöðugleika, notagildi og akstursánægju á þann hátt að maður finnur strax að hér er ekki verið að elta tískustrauma heldur byggja upp heilsteypta upplifun.

Opel Grandland AWD er fullvaxinn sportjeppi.
Opel Grandland GS kemur í tveimur útfærslum, single motor sem er með drifrás að framan og dual motor með drifi á öllum hjólum, gerð sem við tókum í reynsluakstur og munum fjalla um hér.
Í fyrsta kastinu vekur bíllinn traust. Hann situr vel á veginum, stýrið er létt en nákvæmt og viðbrögðin skýr. Í akstri minnir hann fremur á sportlegan fólksbíl en hefðbundinn fjölskyldujeppa – sem kemur skemmtilega á óvart.
Fjöðrunin er stinn og heldur bílnum vel niðri í beygjum, án þess þó að verða óþægileg. Þetta er svona bíll sem hvetur mann ómeðvitað til að velja skemmtilegri leiðina heim.

Bíllinn er mínimalískur í anda þýskrar hönnunar en gæðin skína í gegn.
Reynsluaksturinn fór bæði fram á Vesturlandsveginum og í hefðbundnum bæjarakstri. Á þjóðveginum kemur stöðugleiki og þægindi sérstaklega vel fram; bíllinn svínliggur á meiri hraða, vind- og veghljóð eru hófleg og stýringin veitir góða tilfinningu fyrir vegyfirborðinu.
Í borginni er hann lipur, auðveldur í þrengslum og beygjuradíus er þokkalegur miðað við að þetta er aldrifsbíll með rafmótorum – á fram og afturás.
Ef eitthvað má nefna til smávægilegrar gagnrýni er aðeins meira veghljóð á grófara malbiki en sumir keppinautar bjóða upp á – en það truflar ekki heildarupplifunina og gleymist fljótt þegar aksturinn sjálfur kveikir ánægjulega upplifun.

Hefðbundin ljósaklasi á rafbílum í dag – allt sambyggt til að mynda heild sem sker sig úr í samkeppninni.
Fínt afl
Grandland GS AWD er búinn tveimur rafmótorum og skilar alls 320 hestöflum. Það er afl sem maður finnur strax – ekki bara í tölum á blaði heldur í raunverulegum akstri.
Hröðun er snörp, viðbrögð inngjafar tafarlaus og framúrakstur einfaldur og öruggur. Sérstaklega í Sport stillingu.
Rafmótorarnir vinna vel saman og fjórhjóladrifið tryggir gott grip við allar aðstæður, hvort sem ekið er góðum hraða út úr beygju eða á blautum vegi.

Hönnun bílsins er öll í átt hagkvæmni og hugsuð með notagildi í huga.
Akstursstillingarnar þrjár – Eco, Normal og Sport – breyta karakter bílsins töluvert. Í Sport stillingu verður hann beittari, stýrið þyngra og viðbrögðin meira á tánum, á meðan Eco slakar á kerfinu og hámarkar nýtni.
Sérstaklega skemmtilegt er að geta stillt og endurheimt orku með flipum við stýrið, sem gefur ökumanni meiri stjórn og þátttöku í akstrinum – eitthvað sem marga rafbíla skortir.

Stýrið er frekar grannt, miðjustokkurinn er stór án þess að trufla fótapláss fram í. Allt við hendina, efnisval og hönnun í sérflokki.
Rafhlaða, drægni og hleðsluhæfni
Rafhlaðan er 73 kWh og WLTP-drægni í AWD útgáfunni er allt að 492 km, með áætlaðri orkunotkun upp á 17,7 kWh á hverja 100 km. Framdrifsbíllinn fer lengra enda léttari bíll en WLTP á honum er um 521 km.
Í raunverulegum akstri mun drægni að sjálfsögðu ráðast af hraða, veðri, lofthita og aksturslagi, en þetta eru mjög traustar tölur fyrir bíl í þessum stærðarflokki og með þetta afl.

Mjó LED ljósin gefa bílnum sportlegan svip.
Bíllinn styður 11 kW AC hleðslu heima og allt að 160 kW DC hraðhleðslu. Við góðar aðstæður er hægt að hlaða rafhlöðuna úr 20% í 80% á um 35 mínútum, sem gerir langferðir mun þægilegri og dregur úr biðtíma. Varmadæla er staðalbúnaður og skiptir miklu máli á köldum dögum, bæði fyrir drægni og þægindi.
Forhitun er hægt að stýra í gegnum skjá bílsins eða með MyOpel appinu, sem er sérstaklega þægilegt á íslenskum vetrarmorgnum þegar gott er setjast inn í hlýjan og snjóbræddan bíl.
Sætin – þar skorar Grandland hátt
Eitt af því sem stendur sérstaklega upp úr eru sætin. Framsætin eru AGR-vottuð – vottun frá samtökum baklækna í Þýskalandi – og maður tekur strax eftir því að sætin eru eitthvað aðeins meira en venjulega.
Setan er góð, stuðningurinn vandaður og sætin halda líkamanum vel í lengri akstri án þess að valda þreytu eða stífleika. Og þú getur lengt setuna til að styðja betur við fætur í akstri.

Famsætin halda sérlega vel við líkamann og hafa verið vottuð af AGR, samtökum baklækna í Þýskalandi.
Í reynsluakstursbílnum sem er AWD eru sætin rafstillanleg með minni, auk þess sem hita er að finna bæði í fram- og aftursætum. Þetta eykur notagildi bílsins verulega fyrir íslenskar aðstæður, sérstaklega fyrir fjölskyldur og þá sem keyra mikið yfir vetrartímann.

Góðir tengimöguleikar og þráðlaus hleðsla fyrir snjallsímann.
Stýrið er upphitað, liggur vel í höndum og öll stjórnun er rökrétt uppsett. Innréttingin í heild er vönduð, einföld og þýsk í anda – ekki óþarfa flækjur heldur skýr virkni.
Rými, farangur og dagleg notkun
Grandland er ekki aðeins skemmtilegur í akstri – hann er einnig mjög praktískur. Farangursrýmið í AWD útgáfunni er 485 lítrar og stækkar upp í 1.580 lítra þegar aftursætin eru felld niður.
Sætin skiptast í 40/20/40 sem gerir auðvelt að flytja bæði farþega og lengri hluti samtímis. Þú finnur litla „skíðalúgu” í miðjunni. Og afturhlerinn er rafdrifinn.

Skottið er rúmgott og þægilegt að ganga um. Takið eftir skíðalúginni í miðju. Gólfið má lækka þannig að það taki enn meira af farangri.
Aftursætin bjóða gott fóta- og höfuðrými, þannig að fullorðnir farþegar sitja þar þægilega. Þetta er bíll sem hentar jafnt fyrir daglegt líf, helgarferðir, íþróttaiðkun barna eða einfaldlega fólk sem vill hafa pláss án þess að fórna akstursgleði.

Setur í aftursætum eru þægilegar, ná vel undir fætur og nægilegt fóta- og höfuðpláss. Tengimöguleikar í miðjustokki, aðgangur að loftræstingu og hita í aftursætum.
Öryggi og búnaður
Búnaðarlistinn er langur og vel samsettur. Þar má nefna aðlögunarhæfan hraðastilli, akreinavörn, umferðarskiltaaðstoð, sjálfvirka dimmun í spegli, LED ljós, 360° myndavélakerfi (í pakka), hálfsjálfvirka akreinaskiptingu og bílastæðaaðstoð, auk fjölda loftpúða og virkra öryggiskerfa,

Stjórntæki eru vel uppsett og auðveld í notkun. Takið eftir að þarna eru takkar sem stýra má því helsta með eins og loftræstingu. Restina má svo stilla í gegnum stýrið.
16 tommu margmiðlunarskjár, þráðlaus símahleðsla og tengingar gera notkun auðvelda og nútímalega, án þess að taka athyglina frá akstrinum.
Niðurstaðan er skýr:
Opel Grandland GS AWD er lipur, skemmtilegur rafbíll sem tekst að vera bæði sportlegur og fjölskylduvænn. Stinn fjöðrun, frábær sæti og kraftmikill rafdrifinn aflgjafi skapa heild sem er ánægjuleg í daglegum akstri jafnt sem og á lengri ferðum.
Smávægilegt veghljóð er eina atriðið sem má nefna til gagnrýni – en það vegur lítið á móti heildarmyndinni.

Demantslaga línur sjást víða í hönnun bílsins.
Þetta er einfaldlega einn af þeim bílum sem maður stígur út úr með bros á vör.
Myndband
Helstu tölur:
Verð: frá 7.090.000. Reynsluaksturbíll AWD. 7.490.000 kr.
Hestöfl: 213/320
Drægni: 492/521 km. skv. WLTP.
Rafhlöðustærð: 73 kWh.
Eigin þyngd: 2.225 kg.
Heimahleðslugeta (AC): 11 kW.
Hraðhleðslugeta (DC): 160 kW.
Lengd/breidd/hæð í mm. 4650/2103/1667







