Nýr Škoda Enyaq – ljúfur í borginni, mjúkur á vegum

Tegund: Skoda Enyaq 85X

Árgerð: 2025

Orkugjafi: Rafmagn

Frábærlega lipur, virkilega fallegur og fullur af nýtilegri tækni
Sætin fram í mættu vera mýkri
238
DEILINGAR
2.2k
SMELLIR

Škoda Enyaq kom fyrst á íslenskan markað árið 2020 og hefur síðan þá sannað sig sem einn vinsælasti rafbíll landsins. Nú hefur bíllinn fengið andlitslyftingu og uppfærðan búnað sem gerir hann enn meira aðlaðandi fyrir nútíma fjölskyldur.

Við prófuðum nýjustu gerðina og reynsluaksturinn fór fram að mestu innanbæjar – þar sem Enyaq sýndi svo sannarlega sinn rétta karakter.

Margverðlaunaður Skoda Enyaq frá 2020 kemur hér með smá facelift, sem gerir bílinn enn flottari. Takið eftir framhlutanum.

Reyndar eru engar dramatískar breytingar í gangi hjá Škoda en nægilegar til að gera góðan bíl enn betri.

Öruggur og nútímalegur fjölskyldubíll

Uppfærð hönnun Enyaq er fáguð og sportleg, með uppfærðu grilli og nýjum smáatriðum sem gefa honum glæsilegt yfirbragð. Við ókum 85x Style-útgáfunni sem er fjórhjóladrifin, búin 77 kWh rafhlöðu og býður allt að 535 km drægni samkvæmt WLTP-staðli.

Bíllinn er 286 hestöfl og skilar 545 Nm togi – nægu afli fyrir allar aðstæður.

Enyaq er mjúkur í akstri og sérlega lipur í borginni.

Lipur og skemmtilegur í borginni

Enyaq heillaði okkur strax í borgarakstri. Hann er lipur og léttur í stýri, með passlega mjúka fjöðrun og nákvæm viðbrögð. Stýrið svarar snurðulaust og afl bílins er nægt til að taka hraðabreytingum án fyrirhafnar.

Bíllinn er einstaklega hljóðlátur og virðist fljóta eftir götunni. Hann lætur lítið á sér bera í umferðinni, en skilar samt kraftmikilli og öruggri akstursupplifun.

Línur bílsins eru sléttar og gefa bílnum fágað yfirbragð.

Rúmgóður og hægt að velja úr mismunandi innréttingum.

Að innan er hann rúmgóður og þægilegur. Farangursrýmið er 585 lítrar og sætin þægileg með góðum stuðningi. Þó má nefna að miðjustokkur milli framsæta er nokkuð fyrirferðarmikill og gæti haft áhrif á fótapláss fyrir ökumenn í stærri kantinum.

Þetta atriði truflar þó ekkert heildarupplifunina af prófun bílsins.

Það vakti eftirtekt okkar hve stýrið hefur gott grip. Svo eru stýringarnar með rúllutökkum sem gera mjög auðvelt að stilla hvað sem er úr stýrinu.

Endurbætt margmiðlunarkerfi

Stýrikefi og skjákerfi bílsins koma úr smiðju VW-samsteypunnar og hafa verið tekin verulega í gegn í nýju útgáfunni.

Leiðarkerfið er einfaldara, viðmótið hraðvirkara og almennt er allt upplýsinga- og afþreyingarkerfið notendavænna.

Í þessari nýjustu útgáfu hefur Enyaq fengið verulega uppfærslu hvað varðar tæknibúnað og stafræna eiginleika. Miðlægur snertiskjárinn er nú 13 tommur að stærð og er staðalbúnaður, sem gerir stjórnun aðgerða bæði auðveldari og skýrari.

Nýlegt Skoda merki sómir sér vel á húddbrúninni.

Notendaviðmót og snjallstýring

Stýrikerfið er sérstaklega hannað með notendavænt viðmót í huga og styður bæði snertingu, raddskipanir, hreyfiskipanir og „touch-slider“.

Hægt er að aðlaga viðmótið með allt að fimm flýtileiðum fyrir bílaaðgerðir og fjórum fyrir öpp. Þetta kemur sér vel í daglegri notkun og gerir aksturinn bæði þægilegri og snjallari.

Sætin eru fallega hönnuð og ágætt að sitja í þeim, allur frágangur er til fyrirmyndar hjá Skoda og vönduð vinnubrögð blasa allstaðar við.

Stafræn tenging og forrit

Bíllinn tengist MyŠkoda snjallforritinu sem gerir eigendum kleift að hafa fjaraðgang að ýmsum eiginleikum bílsins – svo sem að kveikja eða slökkva á miðstöð, athuga stöðu hleðslu og staðsetningu bílsins.

Mælaborðið er með stórum og skýrum miðjuskjá og mælaborðið gefur greinargóðar upplýsingar um það sem maður þarf að vita í akstri.

Raddaðstoð með ChatGPT

Stafræni raddaðstoðarinn, Laura, hefur nú verið samþætt við ChatGPT gervigreindina. Þetta þýðir að Laura getur ekki aðeins stýrt bílaaðgerðum heldur svarað almennum spurningum á borð við veður, tillögur að leiðum eða jafnvel sögulegar staðreyndir – beint í gegnum talstýringu.

Samþætt nettenging og Powerpass

Infotainment-kerfið styður einnig snjallsímatengingu í gegnum SmartLink, ásamt netþjónustum Škoda Connect, sem bjóða upp á fjarstýrðan aðgang og sjálfvirkar hugbúnaðaruppfærslur.

Í Style-útgáfunni sem við prófuðum var m.a. sjónlínuskjár (head-up display), Canton hljóðkerfi og 360 gráðu myndavél sem auðveldar til muna lagningu í stæði í borginni.

Það er hægt að opna miðjuna í skottinu ef maður þarf að flytja langa og mjóa hluti eins og skíði eða kannski efni í sólpallinn.

Rennur hljóðlega um göturnar

Þegar við ókum Enyaq út á stofnbrautir borgarinnar hélt hann áfram að heilla. Hann liggur vel og örugglega á veginum og þökk sé góðri hljóðeinangrun er aksturinn verulega afslappaður. Bíllinn virkar eiginlega jafn vel í borgarakstri og á hraðbraut.

Stýrið á Enyaq er nákvæmt og hann tekur beygjurnar af mikilli yfirvegun. Það er svo sem lítið um að rafbílar leggist í beygjur núorðið þar sem bílarnir eru sem negldir við veginn vegna þess hve rafhlaðan er þung og situr neðst í bílnum.

Hleðsla og orkunýting

Með allt að 175 kW DC-hraðhleðslu nær Enyaq 80% hleðslu á einungis 28 mínútum. Rafhlaðan sjálf er 77 kWh og orkunotkun aðeins 16 kWh á hverja 100 km – mjög hagkvæmt fyrir rafbíl í þessum stærðarflokki. Þetta gerir Enyaq bæði hentugan fyrir daglega notkun og lengri ferðir.

Uppfærslan á framendanum er að skila sér 100%. Ljósin flott og gera bílinn sportlegri í útliti.

Niðurstaða

Uppfærður Škoda Enyaq heldur áfram að slá í gegn. Hann sameinar sportlegt yfirbragð, fjölskylduvæna hönnun, öfluga tækni og frábæra aksturseiginleika – sérstaklega í borginni þar sem lipurð, hljóðlátur akstur og þægindi skipta mestu máli.

Nýr og flottari Enyaq er hér örugglega að styrkja stöðu sína sem einn besti rafbílavalkosturinn í dag.

Myndband

Helstu tölur:

Verð frá 7.690.000 kr. Reynsluakstursbíll af Style gerð á 8.190.000 kr. (júní 2025).

Rafhlaða: 77 kWh.

Dráttargeta: 1200 kg.

Drægni allt að skv WLTP: 539 km.

Afl í hö: 286.

Farangursgeymsla: 585 lítrar.

Þyngd: 2.230 kg.

Hámarks hleðsluhraði AC/DC: 11 kW/175 kW

L/B/H: 4.658/1.879 /1.620 mm.

Ljósmyndir og myndbandstaka: Radek Werbrowski

Reynsluakstur: Pétur R. Pétursson og Radek Werbrowski

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar