Það fyrsta sem grípur augað við MG EHS er útlitið. Þetta er bíll sem nær að sameina sportlegt yfirbragð og fágaðar línur á einstaklega smekklegan hátt. Hönnunin minnir að hluta til á Mazda CX-5, en einnig er þar að finna ákveðna lúxusáru sem minnir á Lexus.

Virkilega huggulegur „jepplingur” en bíllinn er búinn framdrifi.
Þetta er engin tilviljun – MG hefur greinilega lagt mikla vinnu í að skapa bíl sem höfðar jafnt til skynsemi sem og fegurðarþrár.
Þægindi og aksturseiginleikar í íslenskum aðstæðum
MG EHS kemur vel út í daglegum akstri og er þægilegur að stjórna. Fjöðrunin virkar vel í minni ójöfnum og holum, þar sem bíllinn svífur nánast yfir án þess að hrista mikið upp í farþegum.

Framendinn er nokkuð hefðbundinn á bíl í þessum flokki. En fallegur samt.
Hins vegar, þegar vegirnir eru verulega illa farnir – sem því miður er alltof algengt á Íslandi – þarf bíllinn aðeins að hafa fyrir því.
Það þýðir þó ekki að hann sé óþægilegur, heldur einfaldlega að hann gefur aðeins til kynna hvað er að gerast undir hjólunum.
Hljóðeinangrunin er yfir meðallagi. Á malbikuðum borgarvegum ríkir ró í innanrými, og jafnvel þegar hraðinn eykst – til dæmis á Reykjanesbrautinni – heldur bíllinn hávaðanum í skefjum.

Innanrýmið er mjög þægilegt, gott aðgengi og stutt í alla stýringu. Sætin mættu ef til vill færast aðeins lengra aftur fyrir hávaxna einstaklinga.
Smávægilegt veghljóð heyrist vissulega, en það er ekki meira en í öðrum bílum í þessum flokki, t.d. Toyota RAV4, og truflar lítið nema maður sé sérlega næmur fyrir slíku.
Framsætin eru þægileg og veita góðan stuðning. Eini ókosturinn þar er að þau mættu renna örlítið lengra aftur, sérstaklega fyrir hávaxna ökumenn. Hins vegar er það vandamál leyst með því að lækka sætið – sem gerir það að verkum að flestallar gerðir líkamsbygginga kemst vel fyrir og ökumannsstaðan verður þægileg og örugg.

Fínir tengimöguleikar og hleðsldokka fyrir þráðlausa símhleðslu.
Rafmagn, sparnaður og raunhæf notkun
Einn helsti kostur MG EHS PHEV er rafdrægni hans – um 109 km á rafmagni eingöngu, sem er afar gott fyrir tengiltvinnbíl. Þetta dugar flestum fyrir daglegar ferðir um borg og bæ án þess að bensínvél þurfi að fara í gang.

Skjárinn er einfaldur og hraðvirkur. Um er að ræða svokallaðan panorama skjá sem kemur mjög vel út hönnunarlega séð í innanrýminu.
Þessi eiginleiki gerir MG EHS að raunhæfum valkosti fyrir þá sem vilja minnka kolefnisspor sitt án þess að fórna þægindum eða öryggi.
Hleðsluhraðinn mætti þó vera meiri. Bíllinn styður 7.5 kW hleðslu, sem þýðir að það tekur um 3 klukkustundir að hlaða rafhlöðuna. Persónulega hefði ég kosið að sjá 11 kW innbyggða hleðslugetu, sem myndi stytta hleðslutímann verulega. Hins vegar er þetta enn innan viðunandi marka – og ekki eitthvað sem gerir útslagið fyrir flesta.

Eftirtektarvert er hve MG bílarnir eru vel búnir. Tæknibúnaður í fremstu röð og vel hannaðar innréttingar. Sætin mjög þægileg.
Rafmótorinn vinnur með 1.5 lítra bensínvél, og með fullhlaðna rafhlöðu og bensíntank kemst maður allt að 1000 km á einni áfyllingu. Þetta gerir bílinn jafn hentugan í langferðir og í borgarakstur – eitthvað sem fáir PHEV bílar geta státað af með jafn miklu sjálfstrausti.






Innanrými, búnaður og notagildi
Farangursrýmið er 448 lítrar en stækkar í 1375 lítra með sætin niðurfelld. Það gerir MG EHS vel útbúinn fyrir helgarferðir, flutning á búnaði eða jafnvel smáinnkaup í Ikea. Plássið í aftursætum er ágætt og bíllinn rúmar fimm fullorðna án þess að þrengja verulega að.

Nægt pláss í aftursæti og gott að stíga inn og út úr bílnum.
Búnaðurinn í Luxury útgáfunni er sérlega ríkulegur. Þar má nefna:
- 12,3″ snertiskjá, Android Auto™ og Apple CarPlay™
- Rafdrifið ökumannssæti, 360° myndavél, skynvæddan hraðastilli
- Lyklalaust aðgengi, þráðlausa farsímahleðslu, tveggja svæða loftkælingu
- Og leiðsögukerfi með kortum af Íslandi
Þegar kemur að öryggisbúnaði er MG ekki að spara neitt. Bíllinn er með alla helstu tækni og aðstoðarkerfi sem búast má við í nýjum bíl árið 2025: sjálfvirk neyðarhemlun, akreinavara, árekstraviðvaranir, akreinastýring, aðvörun um hliðarumferð, og margt fleira.

Bíllinn fær fullt hús stiga í EURO NCAP prófunarkerfinu.
Lokaniðurstaða
MG EHS PHEV er bíll sem tekst að sameina margt sem annars sjaldan fer saman: falleg hönnun, góð rafmagnsdrægni, þægilegur akstur og mikið notagildi – og það á verði sem er innan skynsamlegra marka eða 6.990.0000 með stuðningi úr orkusjóði.
Hann á vel heima á íslenskum markaði þar sem akstursaðstæður eru krefjandi og orkusparnaður sífellt mikilvægari þáttur.

Smávægilegir hnökrar í sætaskipan og hleðsluhraða eru atriði sem flestir geta lifið með. Heildarupplifunin er sú að MG EHS er bíll sem kemur á óvart – jákvætt – og stendur sig vel í flokknum sínum.
Fyrir þá sem vilja fá mikið fyrir peningana og bíl sem nær vel utan um daglega þörf fjölskyldunnar, er MG EHS klárlega bíll sem vert er að prófa.
Myndband
Helstu tölur:
Verð: frá 6.990.000 kr.
Hestöfl: 258.
Rafhlöðustærð: 25 kWh
Hröðun 0-100 km/klst: 6.8 sek.
Eigin þyngd: 1.855 kg.
Heimahleðslugeta (AC): 7,5 kW
Lengd/breidd/hæð í mm. 4670/1890/1685
Myndbandsupptaka: Ólöf A. Þórðardóttir
Ljósmyndun: Pétur R. Pétursson
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson