Lada LUX náði ekki Fiat Uno

139
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Lada LUX náði ekki Fiat Uno

Það má kannski kalla það tímamót þegar Bifreiðar og Landbúnaðarvélar kynntu nýja Lödu í janúar árið 1984. Það var „Lada LUX, sem er glæsilegri og sparneytnari en aðrar Lödur“ eins og sagði í umfjöllun Þjóðviljans um bílasýninguna sem þá var framundan.

„Ladan hefur verið flutt til íslands í 10 ár og notið mikilla vinsælda en fyrirtækinu tókst að fá fyrstu bílana af Lödu LUX á sérstöku kynningarverði. Við hönnun hennar hefur verið kappkostað að halda styrkleika og aksturseiginleikum fyrri Lödu-bíla, en aukin áhersla er lögð á gott rými fyrir farþega, samfara öryggi, og eru framsæti þægilegri. Öryggisbelti eru einnig í aftursætum,“ sagði enn fremur í þeirri grein.

Auglýsing úr Vísi fyrir þessa sömu bílasýningu í ársbyrjun 1984.

Þetta var þó aðeins upphaf þess Lödu-æðis sem átti eftir að verða hér á landi og er ætlun undirritaðrar að gera því „æði“ skil á næstunni. Allar ábendingar, hugmyndir, ljósmyndir og annað er vel þegið og netfangið er malin@bilablogg.is.

3 af hverjum tíu völdu Fiat eða Lödu

Hálfu ári eftir kynningu Lödu LUX var staðan sú á innlendum bílamarkaði að Fiat Uno var söluhæsti bíllinn en Lada LUX var svo gott sem alveg í „skottinu“ á honum, eða kannski réttara sé að tala um afturhlera.

Sagði svo frá í NT í júlí 1984:

„Fiat Uno er nú söluhæsti bíllinn, en af honum hafa verið flutt inn 313 stykki á þessu hálfa ári miðað við 112 allt árið í fyrra. Alls höfðu í júnílok verið fluttir inn 598 Fiatbílar, m.a. 164 Pöndur. Lada 2107 fylgir fast á hæla Fiat Uno með 304 selda bíla í júnílok. Alls hafa verið fluttar inn 579 Lödur sem er 124 % aukning miðað við sama tíma 1983.

Þetta segir okkur að nær 3 af hverjum 10 kaupendum nýrra bíla í ár hafi valið sér annað hvort Fiat eða Lödu, eða rúm 28 %.“

Skynsemi á kostnað sænskra

Næst á eftir Lödunni kom Mazda, svo Toyota, þá Daihatsu, Subaru og Ford. Rétt var rýnt í sölutölur þeirra gerða en svo sagði í NT:

„Þeir sem hafa „látið skynsemina ráða” eru nú 33 sem þýðir væntanlega að skynsemin hafi ríflega þrefaldast. Sænsku bílarnir hafa hins vegar orðið að láta verulega undan síga í samkeppninni. Volvóar eru nú 81 á móti 164 í fyrra og Saabar 60 á móti 97 á miðju ári 1983.“

Var einhver skynsemi í því? Það er nú það og vert að lesa meira um þá „skynsömu“ í grein sem vísað er á hér fyrir neðan.

Náskylt efni:

Skynsemin ræður: Frá gríni til heimsfrægðar

Japanir vilja ólmir eignast Lödu Sport

Svipaðar greinar