Kia Niro: Meira pláss og val á drifrásum

138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Kia Niro: Meira pláss og val á drifrásum

2022 Kia Niro með meira pláss ásamt tvinn-, tengitvinn- og hreinum rafmagnsútgáfum

Við höfum áður sagt frá því að nýr Kia Niro sé væntanlegur og núna hefur Kia gefið út upplýsingar um endurhannaðan Niro crossover 2022 og enn og aftur er hann með blöndu af tvinn-, tengitvinnbílum og hreinum rafknúnum aflrásum, en að þessu sinni einnig á nýjum undirvagni sem leyfir aukið innra rými og afköst.

Niro sem boðaði nýtt tímabil rafvæðingar hjá Kia þegar hann var frumsýndur árið 2016, er kominn í aðra kynslóð. Sem fyrr býður Niro upp á úrval af mörgum öðrum aflrásum og bílavefsíður eru sammála um að bíllinn henti þörfum fjölmargra viðskiptavina.

Þessi nýi 2022 Kia Niro var fyrst sýndur 25. nóvember, á Seoul Mobility Show 2021, og er nýkominn á S-Kóreumarkað með brunahreyfla.

Heimsfrumsýning á rafmagnsútgáfunni verður eftir nokkra mánuði en hér er það sem við vitum um bílinn: 

Nýr Niro verður fyrsti bíll Kia til að nota meðalstóra Hyundai-Kia K3 undirvagninn sem þýðir að hann er nú aðeins lengri en áður þar sem bilið á milli fram- og afturhjóla eykst um 20 mm, sem leiðir til þess að meira pláss er fyrir farþega.

Nýjum undirvagni fylgir ferskt útlit og þó ekki séu stórkostleg frávik frá bílnum sem er að kveðja, þá er hann meira í samræmi við núverandi hönnun Kia.

Ef til vill eru athyglisverðustu útlitseinkennin hin andstæðu gráu „blöð“ aftan við afturhurðirnar, sem svipar til Audi R8 ofurbílsins.

Niro útgáfurnar eru með flott útlit á yfirbyggingunni og Kia segir að það hjálpi til við að hámarka loftflæði til að auka loftaflfræðilega skilvirkni, þó gagnrýnendur hafi sagt að þetta líti út eins og eitthvað sem hafi verið „endurmálað“.

Hreina rafmagnsútgáfan af Niro hefur fengið nafnið Niro EV (bíllinn sem er að kveðja var nefndur e-Niro) í samræmi við núverandi nafnakerfi Kia, og munurinn á honum og tvinnsystkinum hans er augljós þegar horft er á bíinn að framan.

Allar gerðir fá sömu marghyrndu ljósaþyrpingarnar en rafmagnsútgáfan fær annað (lokað) grill samanborið við blendinga, auk nýs miðjusetts hleðslutengis.

Í fyrsta skipti er geymsluhólf undir vélarhlífinni í rafmagnsútgáfunni, sem, þó að það gefi ekki mikið aukapláss (aðeins 20 lítrar), er gagnlegt til að geyma hleðslusnúrur.

Niro EV er með 17 tommu álfelgur sem staðalbúnað, en tvinn- og tengitvinngerðin býðst með 16-18 tommu felgum.

Þrjár mismunandi útgáfur

Þrjár mismunandi útfærslur verða fáanlegar. Það verða tveir 10,25 tommu skjáir festir hlið við hlið, annar fyrir mælaborð ökumanns og hinn upplýsingaskjár. Allt viðmótið er í stórum dráttum svipað og í Kia Sportage og Sorento.

Mikið er notað af vistvænum efnum í innréttinguna, svo sem endurunnið veggfóður í loftklæðningu og sætisáklæði sem er að hluta til úr aukaafurð úr eucalyptus-tré.

475 lítra farangursrými

Farangursrýmið í rafbílnum er 475 lítrar, en vegna rafhlöðu- og mótoruppsetningar eru farangursrýmin í tvinn- og tengitvinnbílunum 451 lítra og 348 lítra, í sömu röð.

Ökumannsaðstoð og öryggiseiginleikar fela í sér sjálfvirka neyðarhemlun, akreinaaðstoð, fylgni í akrein, akstursviðvörun á umferð þvert að aftan og fjölda annarra skynjara- og myndavélakerfa.

Niro EV er knúinn af 64,8 kWst rafhlöðupakka og rafmótor sem skilar 201 hestafli og kemst hann um 460 km á hleðslunni.

Í DC hraðhleðslutæki mun Niro EV taka um 43 mínútur að hlaða rafhlöðuna úr 10% til 80%.

Tvinnbílarnir nota báðir kunnuglega 1,6 lítra fjögurra strokka bensínvél og 139 hestafla tvinn-rafmagnið getur ekið stuttar vegalengdir með rafmagni á litlum hraða.

180 hestafla tengitvinngerðin getur verið með allt að 65 km rafhlöðuknúinn akstur með 11,1kWh rafhlöðupakkanum, segir Kia.

„Green Zone Drive Mode“ (eða akstur á „grænum svæðum“) er eiginleiki í báðum tvinngerðum sem með því að nota leiðsögugögn, merki eða eða handvirka stillingu, getur sjálfkrafa skipt yfir í rafmagnsakstur á ákveðnum svæðum eins og í kringum skóla og sjúkrahús eða í hverfi ökumanns.

Staðalbúnaður á gerðum með meiri sérhæfingu (og valfrjáls á öðrum) er Vehicle-to-Load (V2L) hleðsla sem gerir notendum kleift að knýja utanaðkomandi hluti eins og fartölvuhleðslutæki, smákæla eða önnur heimilistæki sem nota háspennurafkerfi bílsins.

Samkvæmt frétt Sunday Times fer nýr Kia Niro í sölu í Bretlandi síðar í þessum mánuði og er fyrsta afhending í júlí en EV-bíllinn er væntanlegur í ágúst. Verð fyrir nýju gerðina hefur enn ekki verið staðfest.

(frétt á Sunday Times og fleiri bílavefsíðum)

Svipaðar greinar